Ég hafði aldrei tekið þátt í keppnisíþróttum, bara sparkað bolta með félögum mínum eins og flestir Íslendingar. Hins vegar hafði ég allt frá unglingsárum rölt mikið um fjöll og dali, mér til mikillar ánægju. Árið 1988 tók ég þá undarlegu ákvörðun að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu (ég var þá 45 ára). Ekki kann ég neina skýringu á þessu aðra en þá að ég hef líklega talið tímabært að bæta heilsufarið, hindra fitusöfnun og ístru og bæta hjartsláttinn (ég er meðalmaður á hæð og fremur grannholda). Ég hef síðar komist að raun um það að líklega þjáist ég af sjálfspíningaráráttu á lágu stigi, og kann það að vera hin raunverulega skýring á þessari undarlegu ákvörðun minni. Ég lét í laumi skrá mig í hálfmaraþon, 21 kílómetra. Einhver hafði sagt mér að ef ég gæti án vandræða hlaupið þriðjung vegalengdarinnar þá kæmist ég hana alla. Til undirbúnings spreitti ég mig tvívegis við 7 kílómetra og komst þá vegalengd án mikilla vandræða, og taldi mig því í nægilega góðri þjálfun. Auk þess hlaut fjallaröltið að koma mér að gagni í hálfmaraþoni.
Svo rann helgin upp, þessi ágústhelgi þegar hundruðir manna hlaupa mislangt um götur Reykjavíkur. Ég sagði engum nema fjölskyldunni hvert væri erindi mitt suður í höfuðborgina og flaug svo lítið bæri á suður til mömmu en ég bý norður í Eyjafirði. Ekki hafði ég kynnt mér neitt þann útbúnað og matarræði sem rétt væri að beita á þessum örlagadegi, en hjá mömmu komst ég í rúsínupakka að morgni hlaupadagsins, og hugði gott til glóðarinnar. Rúsínur eru gerðar úr vínberjum og vínber heita öðru nafni þrúgur, en ég hafði heyrt að þrúgusykur færi beint út í blóðið. Ég sallaði því í mig rúsínupakkanum, enda rúsínur mikð hnossgæti, þótt þær séu óþarflega vindgefandi.
Klukkutíma fyrir hlaupið fór ég niður í Miðbæjarskóla, en þar var búningsaðstaða fyrir þá sem ekki höfðu aðstöðu til að klæðast hlaupagallanum heima hjá sér. Það glaðnaði yfir mér þegar ég við skólann hitti gamla hlaupakempu að norðan, Jón Guðlaugsson, en hann var um sextugt og stefndi í heilmaraþon, enda fyrrum keppnismaður. Við Jón gengum saman til búningsklefanna, en þar voru þegar allmargir vasklegir útlendingar, sem litu þessa tvo aldurhnignu íslensku keppinauta sína hornauga. Ekki held ég að búningurinn sem við tókum að íklæðast hafi vakið aðdáun þeirra, því Jón dró afar krumpaðar buxur og bol upp úr innkaupapoka frá KEA, en ég íklæddist hins vegar sléttbotna tennisskóm frá Taiwan, en þá hafði ég átt lengi. Það eina sem mælti með skónum var að þeir voru af gerðinni Adidas, sem ég hafði heyrt talað vel um.
Skemmst er frá því að segja að ég stillti mér upp við rásmarkið, með númer á brjóstinu eins og alvöru íþróttamaður í fyrsta sinn á ævinni. Við rásmarkið gaf ég keppendum mínum auga og sýndist mér þeir ekki allir mjög hlaupalegir. Taldi ég mig því í góðum málum og fór geist af stað. Við drykkjarstöðvarnar tók ég upp hætti annarra og greip glasið í aðra hendina og gaf mér engan tíma til að drekka, heldur fleygði því um öxl án þess að fá nema örfáa dropa. Eftir um 7 kílómetra hlaup fór ég að þreytast (enda hafði ég aldrei hlaupið lengra) og fór ég að finna til sárra verkja í maganum. Þekkti ég þar strax vindaverki og þóttist vita að nú væru þessi gamalkunnu aukaáhrif rúsínanna að gera vart við sig. Ekki voru nein tök á að taka inn verk- og vindeyðandi dropa, og því reyndi ég eftir megni að leysa vind, eins og það er kallað á fínu máli. Vænti ég þess að þrýstiloftið kynni að skila mér vel áleiðis. Sú von mín brást. Keppinautar fóru að tínast fram úr mér einn af öðrum, þar á meðal þeir sem mér hafði ekki þótt hlaupalegir við rásmarkið, og tókst mér ekki að halda í við þá. Kann skýringin á þessum framúrhlaupum að vera sú að loftið aftan við mig hafi verið mengað og þeim hafi því verið einn kostur nauðugur til að ná andanum - að komast fram úr mér.
Skemmst er frá því að segja að þjáður af vindaverkjum og þreytu og nuddaður á fótum, vegna þess að ég var í þunnum sokkum og óhentugum skóm, kom ég að endamarkinu eftir rúma 2 tíma, en varð ekki síðastur. Þegar ég hljóp síðustu metrana heyri ég Sigfús Jónsson, hlaupstjóra, lýsa því í hátalarann að þarna komi einn keppandi og hlaupið sé orðið honum mjög erfitt. Reyndi ég því að bera mig vel og koma mannalega í mark, enda áhorfendur margir, og mér var klappað lof í lófa. Og mikil varð gleði mín þegar ég fékk fyrsta verðlaunapeninginn á ævinni um hálsinn og ekki síður þegar ég eftir helgina sá nafnið mitt í Morgunblaðinu þar sem greint var frá árangri Reykjavíkurmaraþons. Þetta var mér næg umbun og ástæða þess að ég hef síðar reynt að fara í þetta hlaup árlega og hef bætt tíma minn þónokkuð. Reykjavíkurmaraþonið er ógleymanleg fjöldasamkoma. Hef ég af þessu mikla ánægju, undirbý mig nú skynsamlega, borða ekki rúsínur rétt fyrir hlaup, drekk vel á drykkjarstöðvum og klæðist góðum skóm. Ég hef sannfærst um það að hálfmaraþon er á flestra færi með réttum undirbúningi.
(Áður birt í Hlauparanum 1994 bls. 7)