Mjaðma-, rass- og læravandamál

birt 09. júlí 2018

Síðasta hálfa árið hef ég glímt við þrálát meiðsli sem lýsa sér einkum í stífleika og verkjum neðst í rasskinnum og í aftanverðum lærum. Þetta hefur verið nógu slæmt til að ég hef ekki getað hlaupið og átt erfitt með að sitja, en ekki verra en svo að ég hef getað sinnt öðrum daglegum verkum, þó með þeim tilbrigðum að ég hef þurft að standa við skrifborðið í vinnunni. Eðlilega hefur þetta ástand mitt borið á góma hvar sem ég hef komið þessa mánuði, jafnt í raunheimum sem netheimum, og í þeim umræðum hef ég komist að því að ótrúlega margir hafa glímt við svipaðan vanda og fæstum hefur tekist að losna alveg við hann. Með þetta í huga finnst mér full ástæða til að skrifa nokkur orð um orsakir vandamála af þessu tagi. Slík umfjöllun verður þó aldrei tæmandi, enda eru mjaðma-, rass- og læravandamál oftast flókin og erfitt að greina orsökina.

Hvers vegna er þetta svona flókið?
Þrálátir verkir neðst í baki, rassvöðvum, mjöðmum og lærum eiga sér oft langan aðdraganda og eru afleiðing af flókinni atburðarás þar sem eitt leiðir af öðru. Verkirnir koma líka gjarnan fram fjarri uppruna sínum, því að oftar en ekki ferðast þessir verkir með settauginni (nervus sciatica) sem liggur frá hryggnum, undir rassvöðvana og niður aftanverð lærin. Vandamál af þessu tagi eru því gjörólík tognunum, þar sem sjaldnast fer milli mála „hvenær það gerist og hvar". Og í þokkabót geta ólíkar orsakir leitt til sams konar einkenna. Tveir einstaklingar með sömu einkenni geta þannig átt við gjörólík vandamál að stríða.

Fjögur dæmi um orsakir
Í þessum stutta pistli verða nefnd fjögur dæmi um orsakir verkja af því tagi sem hér eru til umræðu, þ.e.a.s. brjósklos, vandamál í spjaldlið, piriformis-heilkenni og festumein efst í læri. Sitthvað fleira mætti tína til, en þessar tilteknu orsakir eru meðal þeirra algengustu, auk þess sem þær geta allar valdið sömu eða svipuðum einkennum.

1. Brjósklos
Brjósklos kallast það þegar brjóskþófi á milli tveggja hryggjarliða bungar út eða rifnar. Ef bungan sem þannig myndast nær að þrýsta á taugarætur leiðir það til verkja eða dofa á því svæði sem taugin liggur um. Brjósklos getur í sjálfu sér orðið hvar sem er í hryggnum og oft gefur staðsetning verksins vísbendingu um staðsetningu brjósklossins. Brjósklos getur verið afleiðing af slysi eða álagi á bakið, en stundum er orsökin óþekkt. Ólíklegt er að hlaup stuðli að brjósklosi, enda eru hlaup almennt til þess fallin að styrkja bein og brjósk og ættu því alla jafna að vera fyrirbyggjandi í þessu sambandi. Þegar skaðinn er skeður geta hlaupin hins vegar gert illt verra, sérstaklega þegar hlaupið er við aðstæður sem framkalla mikil högg, svo sem þegar hlaupið er á hörðu undirlagi eða niður brekkur.

Brjósklos er auðgreinanlegt þar sem það sést vel í segulómun (MRI). Hins vegar er brjósklos stundum einkennalaust og því er ákveðin hætta á að skuldinni sé skellt á það þó að verkurinn sem málið snýst um eigi sér önnur upptök. Þetta á enn frekar við eftir því sem fólk eldist, en stór hluti fólks sem komið er fram yfir miðjan aldur er með einhvers konar missmíði í hryggnum sem sést vel á mynd en leiðir ekki til neinna einkenna (Brinjikji, 2015). Sjálfur er ég með greinilegt brjósklos en það á líklega engan þátt í verkjunum mínum. Verkaskipting í heilbrigðiskerfinu getur ýtt undir „rangar sakargiftir" í þessum efnum. Fyrst fer maður til heimilislæknis, sem sendir mann í MRI eftir lauslega skoðun. Einhver annar læknir les svo úr myndinni (án þess að hafa hitt mann) og sendir skýrslu til heimilislæknisins, sem er þá oft fljótur að álykta um orsakasamhengið. Sú hætta er sem sagt til staðar að kerfið reyni að „lækna myndina en ekki manninn" eins og það er stundum orðað.

Ef verkir leiða niður fyrir hné og jafnvel alla leið niður í fót, eða ef vart verður við dofa í líkamshlutum neðan mittis er brjósklos mun líklegri sökudólgur en hin þrjú vandamálin sem hér verða nefnd.

2. Vandamál í spjaldlið
Spjaldbeinið (sacrum) er stórt þríhyrningslaga bein neðst í hryggnum, sem er í raun fimm samvaxnir hryggjarliðir. Það á „landamæri" að lendarliðunum að ofan, rófubeininu að neðan og mjaðmabeinunum til beggja hliða. Samskeytin á milli spjaldbeins og mjaðmabeina nefnast spjaldliður. Þetta er ekki liðamót í venjulegum skilningi þess orðs, en þarna á milli er þunnt brjósk sem gegnir mikilvægu hlutverki sem dempari og aftan á liðnum eru svo alls konar liðbönd og vefir sem hjálpa til við dempunina. Vandamál í spjaldlið stafa yfirleitt annað hvort af of miklum eða of litlum hreyfanleika. Fyrrnefnda vandamálið tengist gjarnan meðgöngu en síðarnefnda vandamálið er líklegra til að valda hlaupurum vandræðum, sérstaklega þegar aldur færist yfir. Þetta vandamál getur grafið um sig á löngum tíma, t.d. vegna óhóflegs álags á spjaldliðinn. Líkurnar á þessu aukast ef eitthvert misræmi er til staðar, t.d. ef fætur eru mislangir eða ef vöðvar öðrum megin í líkamanum eru veikari eða styttri en hinum megin. Þá þarf spjaldliðurinn að taka á sig stærri hluta af vinnunni en honum var upphaflega ætlað og það getur reynst honum ofviða. Stundum leiðir þetta af sér sýnilegar bólgur við liðinn, en oft er þetta þannig að það sést ekki á mynd og er því erfitt í greiningu.

3. Piriformis heilkenni
Peruvöðvinn (Musculus piriformis) er lítill vöðvi sem liggur frá spjaldbeininu, fer í gegnum settaugargatið á mjaðmagrindinni, festist efst á lærlegginn og hefur það hlutverk að snúa honum út á við. Settaugin sem áður er nefnd liggur í gegnum þetta sama gat, oftast undir vöðvanum en í einstaka tilvikum í gegnum hann. Ef vöðvinn styttist eða stífnar getur hann þrengt að tauginni og framkallað verki, sem gjarnan er vísað til sem „piriformis heilkennis" (piriformis syndrome). Styttingin eða stífleikinn er sjálfsagt oftast áunnið ástand og getur tengst skekkjum eða langvarandi óheppilegri verkaskiptingu á milli vöðva. Frekar auðvelt er að fá vísbendingar um mýkt og lengd vöðvans en mun erfiðara að átta sig á því hvort einkenni frá settaug séu honum að kenna eða einhverju öðru. Sjálfsagt er að fella peruvöðvateygjur inn í reglubundna „teygjurútínu" eftir hlaup, því að þannig minnka líkurnar á að vöðvinn verði til vandræða.

4. Festumein efst í læri
Aftan á lærinu eru þrír stórir vöðvar sem allir eru festir á setbeinið í einu og sama sinabúntinu. Þetta búnt þarf augljóslega að þola mikið álag á löngum hlaupaferli, sérstaklega ef verkaskiptingin á milli lærvöðva og rassvöðva er ekki eins og best verður á kosið. Ef sinabúntið bólgnar eða aflagast getur það þrýst á margnefnda settaug. Sinabólga (tendinitis) á þessum stað getur verið mjög þrálát og getur ásamt öðru stuðlað að örvefsmyndun og öðrum breytingum á sininni. Þegar þannig er komið er talað um festumein (tendinosis eða tendinopathy, nánar tiltekið upper- eða proximal hamstring tendinopathy (PHT)). Frekar snúið er að greina festumein af þessu tagi með vissu, en segulómun nýtist vel í því skyni.

Lokaorð
Boðskapur þessa pistils er annars vegar sá að þrálátir verkir neðst í baki, rassvöðvum, mjöðmum og lærum geta átt sér ýmsar ólíkar orsakir sem oft er erfitt að greina á milli - og hins vegar að jafnvel þótt einhver missmíði í hrygg eða annars staðar sjáist á mynd er ekki víst að hún sé sökudólgurinn. Því er svo við að bæta, að eins og einhver sagði er ekki til neitt vandamál án lausnar. Það hvaða lausnir duga fer hins vegar bæði eftir orsökinni og einstaklingnum sem í hlut á. Leitin að bestu lausnunum getur verið löng og þar reynir á andlegt úthald. Og svo má enn bæta því við, að eins og einhver annar sagði er „gramm af forvörnum betra en kíló af lækningu". Þeir sem ekki þjást af verkjum af þessu tagi ættu að leggja áherslu á að byggja upp og viðhalda styrk og leiðleika í vöðvum sem styðja við þetta svæði, sérstaklega í rassvöðvum og í vöðvum í miðhluta líkamans (e: core). Maður þarf að æfa ýmislegt annað en hlaup til að geta hlaupið.

Efnisflokkur: Meiðsli

Heimildir:

1. Adam Pourcho (2015): Chronic High (Proximal) Hamstring Tendinopathy. Sports-health.com. https://www.sports-health.com/sports-injuries/leg-injuries/chronic-high-proximal-hamstring-tendinopathy.

2. John P. Revord (2005): Insights and Advice About Herniated Discs. Spine-health.com. https://www.spine-health.com/conditions/herniated-disc/insights-and-advice-about-herniated-discs.

3. John P. Revord (2012): What is Piriformis Syndrome? Spine-health.com. https://www.spine-health.com/conditions/sciatica/what-piriformis-syndrome.

4. Steven G. Yeomans (2017): Sacroiliac Joint Dysfunction (SI Joint Pain). Spine-health.com. https://www.spine-health.com/conditions/sacroiliac-joint-dysfunction/sacroiliac-joint-dysfunction-si-joint-pain.

5. Waleed Brinjikji et.al (2015): Systematic literature review of imaging features of spinal degeneration in asymptomatic populations. American Journal of Neuroradiology, 2015 Apr;36(4):811-6. https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/25430861.

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.