Mývatnsmaraþonið rann upp einu sinni enn þann 18. júní sl. Því fylgir alltaf viss spenningur því þá fæst niðurstaða fyrir marga, hvernig æfingar vetrarins og vorsins hafa skilað sér. Mývetningar stóðu nú fyrir maraþoni í tíunda sinn og ber að þakka þeim þann dugnað að standa fyrir þessu því ekki er of mikið af möguleikum til formlegra langhlaupa hérlendis. Þróunin hefur þannig orðið sú að áhugafólk um maraþon er farið að sækja í auknum mæli í hlaup erlendis. Þetta skyldi vera mitt fjórða maraþon á Mývatni. Mér hefur alltaf fundist gott að hlaupa þar, bæði er umhverfið alltaf jafn fallegt og einnig hefur veðrið ætíð verið heldur hagstætt, enda þótt til beggja vona geti brugðið með það eins og allir vita.
Ég hafði sett mér það takmark að reyna að komast undir 3.20. Það tókst ekki síðast og nú hafði verið æft meira og betur svo það ætti að falla ef allt gengi upp. Í svona ferli er alltaf nauðsynlegt að hafa einhvern hjalla fyrir framan sig sem eftir er að príla upp, hann má bara ekki vera of erfiður. Miðað við norðansteyting fyrri daga var veðrið með ágætum, skíða, nær því logn og tæplega 10 stiga hiti. Kjöraðstæður. Ég hitti Sigmund frá Selfossi við Skútustaði, við höfðum verið á svipuðu róli undanfarið og höfðum báðir sett okkur það takmark að fara undir 3.20 á Mývatni. Því ákváðum við að hlaupa saman og hafa þannig stuðning hver af öðrum. Í skráningunni hitti ég ungmennafélaga Magnús Guðmundsson, margreyndan garp. Þá rann upp fyrir mér að ég hafði ekki hugsað út í að fá menn í sveit til að hlaupa undir merkjum UMFR36. Ég minntist á þetta við Magnús og blótaði gleymsku minni. Þá spurði okkur ungur drengur hvort okkur vantaði mann í sveit. Við héldum nú það og þá var málinu bjargað. Nýi meðlimurinn reyndist heita Jósep Magnússon og hafði í hyggju að fara hratt yfir, sem okkur hinum eldri þótti ekki verra.
Í hlaupið voru skráðir um sjötíu keppendur og voru það nær helmingi fleiri en í fyrra. Eðlilega voru bæði mótshaldarar og keppendur ánægðir með það, því síðustu tvö árin hafði dræm þátttaka valdið áhugasömum áhyggjum. Þarna var meðal annars nær tuttugu kvenna kraftgönguhópur frá Englandi sem ætlaði að ganga og skokka í bland kringum vatnið.
Við héldum nokkur hópinn framan af hlaupinu, við Sigmundur, Helga Björns, Elísabet, Pétur Frants, Ólafur Darri, þýskur maður, Siggi Ingvars og einhverjir fleiri sem ég man ekki hverjir voru. Sigmundur mældi hraðann af vísindalegri nákvæmni með GPS tæki. Markið var sett á að hlaupa hvern km á minna en 4.40 að jafnaði. Fyrstu þrír voru hlaupnir heldur hægar en síðan var hið rétta tempó fundið og því haldið eftir föngum. Bæði var varast að fara of hægt en einnig skyldi ekki fara of hratt í upphafi á meðan frískleikinn reyndi að taka öll völd og stjórnaði Sigmundur þessu með styrkri hendi. Þessi hópur hélt sjó fram til um 15 km þá fór að kvarnast úr honum hægt og hægt eins og gengur. Pétur átti t.d. í vandræðum með hásinaeymsli og þurfti að setja innlegg í skóna.
Mótvindur var með minnsta móti vestur að Laxá en oft hefur hann verið nokkuð stífur á þeirri leið. Við 20 km vorum við orðin fjögur og Siggi Ingvars rétt á undan lengi vel. Við sáum hilla undir Birgi Sveins um kílómeter á undan. Hann fór mikinn og ætlaði sér sigur í aldursflokknum sem við Sigmundur vorum í, enda er hann ekki einhamur, þótt fæddur sé 1945. Hlaupið rúllaði eftir áætlun fyrir mína parta fram yfir 30 km en þá hélt ég ekki lengur í við Sigmund þar sem ég stífnaði aðeins upp. Kannski er það ekki nógu snjallt að keyra norður í sjö klukkutíma, vera kominn á áfangastað um tveimur og hálfum tíma fyrir hlaup og ætla sér að ná hámarksárangri út úr skrokknum. Það flækti málin einnig að áður höfðu verið vatnsflöskur á drykkjarstöðvunum svo maður gat gripið eins slíka með sér og dreypt síðan á vatni eftir smag og behag næstu kílómetrana. Nú voru einungis glös til staðar, svo ég hellti drykkjunum í flösku sem ég bar með mér, því mér finnst vont að svolgra í mig vatn á hlaupum, ekki síst ef það er kalt. Það er í sjálfu sér ekkert mál að koma með flöskur með sér með drykk í því mótshaldarar keyra þær út, maður þarf bara að hafa smá fyrirhyggju til þess.
Síðustu tíu kílómetrana snerist allt um að halda út á nægjanlegum hraða til að ná settu marki, en allt var samkvæmt áætlun þar sem skildi með okkur Sigmundi. Það hjálpaði síðan til að maður fékk goluna heldur í bakið á síðustu sex kílómetrunum. Batteríið í hlaupaúrinu hafði þornað rétt fyrir hlaupið svo það var bara armbandsúrið sem hægt var að styðjast við. Þetta gekk allt upp, settu marki var náð og maður kom í mark kátur og sáttur við niðurstöðuna og sjálfan sig. Í markinu beið Sigmundur mjög ánægður með sitt hlaup og góða bætingu og á rétt á hæla mér kom Elísabet sem Íslandsmeistari kvenna. Hún hafi einnig bætt sig verulega og hljóp á rúmlega 3.20 sem er sjötti besti tími íslenskra kvenna. Síðan runnu þeir sem á eftir voru hver á fætur öðrum í mark, kátir og ánægðir eins og menn eru að afloknu maraþoni. Fyrstu menn voru vitaskuld löngu komnir í mark.
Viðurgjörningur í marki er góður hjá þeim Mývetningum, orkudrykkur og bananar og síðan bíður heit kjötsúpa innan dyra sem tekur úr manni hrollinn og setur allt af stað aftur. Að því loknu er gott að fara í laug þeirra Skútustaðamanna og taka sólarhæðina á margvíslegum málum áður en gengið er til náða að afloknum góðum degi. Ekki spillti það fyrir að daginn eftir sást á úrslitalistum að hin snöggsamsoðna sveit UMFR36 hafði unnið í sveitakeppninni, enda þótt það sé frekar til gamans gert.
Enski gönguhópurinn, sem minnst var á fyrr, kom í mark eftir miðnætti og brostu þær allan hringinn að sögn starfsmanna, enda veðurblíðan mikil og umhverfið gerist ekki betra. Það leiddi hugann að því hvernig væri hægt að vekja athygli fleiri útlendinga á þessum falda fjársjóði sem Mývatnsmaraþon er. Þar til viðbótar má einnig nefna Laugaveginn sem er lengra og erfiðara hlaup en á fáa sinn líka hvað umhverfi varðar. Það verður að segjast eins og er að það hefur gengið afar slaklega að kynna þessi hlaup fyrir útlendingum. Mývatnsmaraþon var í upphafi sett upp m.a. að áeggjan Flugleiða sem lofuðu stuðning við kynningu. Það hefur alls ekki gengið eftir að sögn heimamanna. Það segir sig sjálft að það er erfitt fyrir fámenn áhugafélög í rúmlega 500 manna samfélagi eins og Mývatnssveit er að halda uppi slíku kynningarstarfi á eigin spýtur. Ég hef áður minnst á að í norður Evrópu hlaupa örugglega milli 100 og 200 þúsund manns maraþon á ári hverju. Þá reikna ég bara út frá fjöldanum í þeim stærri hlaupum sem maður heyrir um.
Mér dettur í hug í þessu sambandi sem hugmynd hvort hægt væri að fá styrk úr Atvinnuleysistryggingarsjóði eða hvað hann heitir til að ráða námsmann til verka sem er vanur tölvumaður. Ekki sakaði að hann hefði áhuga á hlaupum. Hann fengi það verkefni í ca tvo mánuði að safna saman vefsíðum og netföngum hlaupahópa í Evrópu, USA og Kanada. Það eru flestir hlaupahópar hérlendis með vefsíðu til m.a. að miðla upplýsingum og maður gerir ráð fyrir að slíkt sé álíka erlendis. Með því að hafa heimilisföng á þessum síðum aðgengileg á einum stað fyrir aðstandendur hlaupa væri hægt að senda upplýsingar um íslensk hlaup beint til þessara hlaupahópa í stað þess að bíða eftir því að þeir finni okkur a netinu. Einnig er hægt að senda myndasyrpur, screensavera og annað sem getur vakið áhuga fólks á því að slá til og fara til Íslands til að hlaupa maraþon. Það er nefnilega svo með marga maraþonhlaupara að þeir eru ekki einungis að stefna að bætingu heldur eru ýmsir að safna löndum og / eða stöðum sem þeir hafa hlaupið á.
Ísland er mjög exódískt eða framandi í hugum margra og það á að nýta sér í þessu sambandi. Á það má minna að í síðasta Reykjavíkurmaraþoni voru hlaupahópar frá Kanada, Írlandi og Þýskalandi að því mig minnir sem juku það mikið við þátttakendafjöldann að það voru ekki til miðar með réttum lit fyrir alla í heilu!!! Hugsa sér ef það væru 200 manns sem hlypu maraþon við Mývatn og 700 - 1000 manns tækju þátt heilu í Reykjavíkurmaraþoni. Ég veit ekkert hvort þetta séu raunhæf markmið en bæði miðað við þann mikla fjölda sem hleypur maraþon í Evrópu og einnig miðað við þann fjölda íslendinga sem fer erlendis til slíkra hlaupa, þá er það mat mitt að hér sé óplægður akur sem rétt sé að sinna á annan hátt en gert hefur verið til þessa. Læt ég svo þessum hugleiðingum lokið en þakka Mývetningum fyrir góðar móttökur og ágæta framkvæmd. Vona að aukin þátttaka í maraþoninu hafi blásið þeim endurnýjuðum krafti í brjóst til frekari landvinninga.
Gunnlaugur Júlíusson