Nýtt hlaupaár með nýjum markmiðum og áskorunum - Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir

uppfært 09. ágúst 2020

Fátt er dásamlegra en að ljúka hlaupaárinu með gamlárshlaupi í góðra vina hópi. Gamlárshlaup eru nú haldin víðsvegar um landið. Metþátttaka var í Gamlárshlaupi ÍR þegar 2074 voru skráðir til leiks og þar af 1665 í 10 km hlaupið. Um leið og hlaupaárið er gert upp fer hlauparinn að velta nýju ári fyrir sér. Hvaða markmið á að setja sér og hvernig fer maður að því að velja úr spennandi hlaupadagskrá árið 2020?

Hafdís Guðrún Nýtt Ár
Hafdís tv. með fríðu föruneyti í Gamlárshlaupi ÍR 2019.

Áskoranir
Hlauparar mæta gjarnan óvæntum áskorunum, það geta verið meiðsli, veikindi og í einstaka tilfellum ofþjálfun. Mikilvægt er að taka þessum áskorunum af raunsæi og skynsemi því áskoranir af þessu tagi eru hluti af hlaupunum.

Markmið
Hlauparar setja sér gjarnan markmið fyrir árið og margir brjóta stærri markmið niður í fleiri smærri markmið. Hvaða markmið sem við setjum okkur þurfum við að passa að þau séu raunhæf fyrir okkur. Markmið geta verið af ýmsu tagi, markmið sem miða að því að hlaupa hraðar, meira eða jafnvel lengri vegalengdir en áður eða markmið sem miða að því að njóta hlaupanna meira, haldast meiðslalaus, prófa nýjar vegalengdir eða leiðir eða taka þátt í nýjum keppnishlaupum. Meðan sumir stefna á að bæta tímana sína stefna aðrir á að líða betur á hlaupum. Einhver langtímamarkmið eru þess eðlis að bæta tímana sína í ákveðnum vegalengdum meðan önnur snúast um að halda sér heilum svo hægt verða að hlaupa um ókomna tíð.

Raunhæf markmið
Til að geta sett sér raunhæf markmið er nauðsynlegt að reyna að skilgreina hvernig hlaupari maður vill vera eða verða. Hvers vegna er ég að hlaupa? Hvað hvetur mig áfram?  Hvað fæ ég út úr hlaupum? Hvað langar mig að afreka í hlaupum og hvers vegna? Þegar þessi skilgreining liggur fyrir er hægt að setja sér langtímamarkmið sem síðan er brotið niður í smærri skammtímamarkmið.

Lærum að elska hvíldina
Hvíldin er eitt af því mikilvægasta í æfingaferlinu og mikilvægt er að læra að elska og fagna hvíldinni. Að því sögðu er mikilvægt að velja vel sína hlaupadagskrá, færast ekki of mikið í fang og muna markmiðin sín. Bætingar verða ekki án hvíldar og með hvíldinni minnka líkur á meiðslum og ofþjálfun til muna.

Fjölbreyttar æfingar
Ég mæli með fjölbreyttum æfingum, hlaupaæfingum í bland við styrktaræfingar, göngutúra eða hvaðeina sem þú hefur gaman að. Þá mæli ég með að æfa í hóp ef það höfðar til þín en sjálfri finnst mér nærandi að tilheyra hlaupahóp þó ég hlaupi oftast ein en einnig eru vinkonuhlaup eitt af því besta sem til er. Í dagsins önn gefst oft ekki nægur tími til að hitta vinina og þá er tilvalið að mæla sér mót á hlaupum. Þá skiptir engu máli þó þið séuð ekki á sama hraða því hægu rólegu hlaupin geta ekki orðið of hæg.

Spennandi hlaupadagskrá árið 2020
Víst er að nóg er af spennandi hlaupum árið 2020 hvort sem litið er til hlaupa hérlendis eða erlendis. Á lista hlaup.is eru fjölmörg keppnishlaup árið 2020 á Íslandi og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Gleðilegt nýtt hlaup(a)ár!

Hafdís Guðrún Hilmarssdóttir er pistlahöfundur á hlaup.is.