Eftir fyrsta ofurmaraþonið mitt á Laugaveginum var lítill tími til að slaka á, Berlin Marathon var aðeins 10 vikum síðar og ég skráður til leiks. Undirbúningurinn var knappur en auðvitað var ég í þokkalegu formi eftir þjálfun undanfarinna mánaða. Það þýddi samt ekkert að fara of geyst af stað eftir ævintýrið á hálendinu, líkaminn varð að fá að jafna sig, annars eykst hættan á meiðslum. Hins vegar hélt ég aftur af mér allan tímann á Laugaveginum, því þó hlaupið hafi verið langt og erfitt, gaf ég ekki alveg allt sem ég átti. Þannig að þetta var frekar löööng æfing en keppni. Þess vegna var ég kannski nokkuð fljótur að jafna mig.
Fyrsta vikan á eftir var auðvitað róleg, aðeins tvær æfingar og ég fann að það suðaði svolítið í hnjánum. Á annarri viku byrjaði ég aftur á styrktaræfingum og á fimmtudegi, tólf dögum eftir Laugaveginn, fann ég að ég var kominn með næga orku til að fara aftur á minn stað í æfingaáætlun FH-inga.
Hinn öflugi Hlaupahópur FH á æfingu í lok ágúst.
Eini FH=ingurinn Berlín - Hinir verða í Toronto
Enginn FH-ingur er skráður til leiks með mér í Berlin en svo frábærlega vill til að stór hópur er á leið í maraþon með því flotta nafni "Oasis Rock ''n'' roll Marathon" í Montreal, sem er sama dag og hlaupið mitt í Berlin. Kanada var ekki að kveikja áhuga hjá mér þar sem fjölskyldan er nýflutt heim frá Ameríku og ég var farinn að þrá ferð til Evrópu. En ég hef getað æft með félögum mínum án þess að vera í einhverju sér-prógrammi, aðeins ferðavikan verður svolítið öðruvísi hjá mér. Ég minni þá líka reglulega á að vegna sex klst. tímamismunar á Berlin og Montreal, verð ég væntanlega búinn með mitt hlaup, búinn í baði og að panta mér væna steik þegar þeir eru loksins að leggja af stað í sitt hlaup!
Fulltrúar Hákotsættarinnar í Adidas Boost hlaupinu, Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir, Hulda Þorkelsdóttir og Axel.Undirbúningstíminn er búinn að vera mjög skemmtilegur, æfingarnar mátulega erfiðar, kryddaðar með nokkrum keppnishlaupum og það byrjaði aldeilis vel.Bæting í Adidas Boost hlaupinuÁtján dögum eftir Laugaveginn stórbætti ég 10 km tímann minn í Adidas Boost hlaupinu í frábæru veðri. Það var eiginlega ómögulegt annað en að bæta tímann enda aðstæður frábærar, varla neinn vindur og brautin með alls níu metra lækkun þar sem alversta hallanum í rafstöðvarbrekkunni í Powerade hlaupaseríunni er sleppt, sú hefur reynst mörgum erfið í gegnum tíðina.
Þetta var hið skemmtilegasta hlaup, ég var bara nokkuð léttur á mér og endaði á 43:33 sem er 80 sek bæting.
Jökulsárhlaupið mögnuð upplifun
Næst á dagskrá var Jökulsárhlaupið frá Dettifossi niður í Ásbyrgi, og maður lifandi - þvílíkt hlaup! Ég telst tæplega vera einhver sérfræðingur í íslensku landslagi og náttúru en þessi leið er sú magnaðasta sem ég hef hlaupið. Hins vegar er undirlagið þess eðlis að erfitt er að hlaupa mikið án þess að vera með augun á jörðinni og því lítill tími til að dást að stórbrotnu útsýni á leiðinni - en þvílíkt útsýni! Startið er við Dettifoss og er hlaupið að miklu leyti meðfram hrikalegu gljúfrinu á stórkostlegri hlaupaleið. Það hjálpaðist allt að við að gera þessa helgi ógleymanlega.
Sprengi-Kata, Gróa Másdóttir og Sonja, konan mín komu með mér í bíltúrinn norður og mikið var gaman hjá okkur. Töluvert flökt hafði verið á veðurspánni, sú svartsýnasta gerði ráð fyrir roki og rigningu en þegar við mættum í Ásbyrgi á hlaupadegi var dúnalogn og heiður himinn. Regnjakki og vettlingar voru því skildir eftir, það skyldi hlaupið í ermalausum bol og stuttbuxum - æðislegt. Eftir rútuferðina á Dettifoss var reyndar kominn ákveðin norðanátt en þó aldrei kalt, því var hlaupið í töluverðum mótvindi alla 32,7 kílómetrana! Mótvindurinn ætlar greinilega að fylgja mér í sumar en eftir Laugaveginn var ég svo sem klár í allt.
Axel fremstur á mynd, rétt eftir ræsingu í Jökulsárhlaupinu.
Mér hefur alltaf fundist keppnishlaup í kringum 30 km vera skemmtilegasta vegalengdin, vanir langhlauparar eiga að geta skottast hálft maraþon með stuttum fyrirvara en fullt maraþon er auðvitað rugl-langt. Því finnst mér hinn rúmlega 30 km millivegur vera fullkominn, tekur hæfilega í og er einhvern veginn mátulega langur en auðvitað þarf að taka hann alvarlega. Hlaupið gekk vonum framar, ég stefndi á lokatíma á bilinu 3:00 - 3:15 en var auðvitað í algjörri óvissuferð þar sem ég hafði aldrei hlaupið þessa leið áður og hafði ekki hugmynd um aðstæður. En taktíkin var einföld, að reyna að halda í við Ragnheiði frænku alla leið í markið og það tókst. Við fórum nokkuð hratt af stað, kringum 5 mín/km og óhjákvæmilega hægðist verulega á okkur eftir því sem á leið enda mikið streð að hlaupa í endalausum mótvindi - mér sýnist við hafa verið um 10 mínútum lengur með seinni hluta hlaupsins en þann fyrri.
Jökulsárhlaupið orðið uppáhalds
Ólíkt Laugaveginum fannst mér allt Jökulsárhlaupið ganga vel þrátt fyrir vindinn og er það orðið uppáhalds utanvegahlaupið mitt. Vegalengdin er aðeins 60% af Laugaveginum, ekkert háfjallaklifur og mun minni barátta við náttúruöflin. Til viðbótar er miklu styttra í alla helstu áfanga á leiðinni. Ef einhver kafli í Jökulsárhlaupinu er of erfiður, sést yfirleitt hvar hann endar með því að líta fram fyrir sig. Það var ómetanlegt að hafa Ragnheiði nálægt mér og mögulega fékk hún eitthvað skjól fyrir vindinum með mig fyrir framan sig á einstíginu megnið af leiðinni og við rúlluðum í markið með mínútu millibili. Lokatími okkar var sitthvoru megin við 3:04 sem er glæsilegur árangur í hinum mikla mótvindi og Ragnheiður endaði í öðru sæti í kvennaflokki. Lokatíminn hefði eflaust verið 10 mín betri ef mótvindurinn hefði ekki verið svona mikill, ef og hefði...
Allt hlaupið fannst mér ég vera á útopnu, aldrei fékk ég þá tilfinningu að ég gæti hlaupið hraðar eða að ég væri í einhverjum rólegheitum, mér fannst ég vera á útopnu allan tímann. Þá er líka skemmtilegt að koma í markið, vitandi að ég hafi gert mitt allra besta á leiðinni og erfitt að finna einhverja kafla á leiðinni sem hefði verið hægt að hlaupa hraðar.Ekki skemmdi fyrir að hlaupa beint í fangið á Sonju minni í markinu, tilfinningin verður varla sætari. Langhlaup er heldur eigingjarnt áhugamál ef fjölskyldan er ekkert fyrir útihlaup. Í hefðbundinni æfingaviku hafa farið allt að 10 klst í æfingar og tilheyrandi, og oft hefur lítið orðið úr laugardögum með fjölskyldunni vegna langhlaupa um morguninn og tilheyrandi þreytu fram eftir degi.Á fullri ferð meðfram Jökulsárgljúfri í átt að Hólmatungum, Ragnheiður af einhverjum ástæðum hvergi sjáanleg.
Hlaupin eru því tæplega fjölskylduvæn nema allir séu saman í þessu áhugamáli og það er kannski ekkert útilokað í framtíðinni. En Sonja mín hefur sýnt þessum gráa fiðringi mínum endalausa þolinmæði og fylgt mér í báðum maraþonunum mínum og flestum Reykjavíkurmaraþonum - og kemur með mér til Berlin :)
Baráttan við Guðnana í Reykjavíkurmaraþoninu
Talandi um Reykjavíkurmaraþon, það var einmitt helgina eftir Jökulsárhlaupið og ég var skráður í hálft. RM er tvímælalaust hápunktur ársins hjá íslenskum hlaupurum og er langfjölmennasta hlaupið. Ég þekki það sjálfur frá sokkabandsárunum mínum að þetta er eina keppnishlaup ársins hjá mörgum hlaupurum og hér hitti ég oft vini og félaga sem ég sé sjaldan í hlaupagalla. Fyrstu þrjú keppnishlaupin mín voru einmitt í RM og hér stíga margir hlauparar sín fyrstu skref á farsælum hlaupaferli á meðan aðrir láta gott heita eftir eitt slíkt. Og öll erum við jafnmiklar hetjur að komast í markið, óháð vegalengd og lokatíma.
En það er hins vegar miklu meira afrek að skrá sig í sitt fyrsta eða annað keppnishlaup og fylgja því eftir með einhverjum undirbúningi, heldur en fyrir vana hlaupara að skrá sig í enn eitt hlaupið þó þeir hlaupi mun hraðar. Ef einhver var að hlaupa sitt fyrsta keppnishlaup í RM, fannst upplifunin á leiðinni æðisleg en gat varla gengið í einhverja daga á eftir; farið í hlaupahóp og þetta mun ganga betur næst. Það er miklu skemmtilegra að klára sitt annað hlaup þegar undirbúningurinn er góður!
Fjórir af 86 FH-ingum sem luku Reykjavíkurmaraþoni. Axel, Sigurður Guðni Ísólfsson, Einar Eiríkur Hjálmarsson og Þórður Þorvarðarson.Það er alltaf jafn gaman að upplifa stemninguna á leiðinni og ekki spillti veðrið fyrir, sól og blíða. Ég hafði gluggað í afrekaskrá FH fyrir hlaup og sett mér það markmið að reyna að klifra upp listann, reyna kannski að ná Guðna Gíslasyni sem var aðeins fyrir ofan mig. Hér setti ég markið of hátt enda nýbúinn með erfitt Jökulsárhlaup og ekki í neinu standi til að hlaupa svo hratt.Hins vegar var lagt af stað á hraðanum 4:30 mín/km sem hefði dugað, og svo átti að sjá til. Það var rétt liðinn einn km þegar ég hitti téðan Guðna og sagði honum frá taktíkinni. Kannski vildi hann ekki sleppa mér aleinum of nálægt tímanum sínum en allavega urðum við samferða megnið af hlaupinu sem var mjög skemmtilegt.
Við héldum hraðanum nokkuð vel fyrri hlutann, vorum með skráðan millitíma upp á 45:30 eftir 10 km sem hefði skilað okkur á tilsettum tíma í markið með góðum endaspretti en það var aldrei að fara að gerast. Seinni hluti hlaupsins var svolítið hægari, kálfarnir orðnir stífir og í lokin var ég farinn að fá sáran verk undir annarri ilinni - eftir hlaup kom í ljós myndarleg blaðra og ég gat varla stigið í fótinn eftir að hafa komist yfir marklínuna. Sökudólgurinn var of stór sokkur sem krumpaðist undir ilina og fékk að nuddast þar allt hlaupið.
En lokatíminn var rétt undir 1:37, eða 95 sekúndum frá settu marki en samt bæting hjá mér upp á sex sekúndur og ég var tæplega tíu mín á undan forseta vorum - ekkert hægt að kvarta yfir því og tíminn hans Guðna ekkiforseta verður bættur síðar. Þetta var líka pínulítið merkilegt hlaup fyrir nördann í mér þar sem þetta var 50. götuhlaupið mitt á fullorðinsárum, alls ná keppnishlaupin um 767 km á rétt tæplega sólarhring, meðalhraði upp á 5:35 mín/km.
Allt af öllu í Vestmannaeyjarhlaupinu
RM var síðasta alvöru keppnishlaupið fyrir Berlin enda aðeins 5 vikur til stefnu. Eitt sem ég lærði af Laugavegshlaupinu var einmitt að sleppa löngum keppnishlaupum síðustu vikurnar fyrir stóru stundina. Í vikunni eftir RM voru rúmlega 80 km á dagskrá á fimm æfingum, það mesta sem ég hef hlaupið á einni viku. Lengsta æfingin var 35 km, auðvitað lenti hún á fyrstu haustlægðinni með tilheyrandi roki og rigningu, en eftir hana var ég bara nokkuð brattur. Vestmannaeyjahlaupið var haldið fyrstu helgina í september og það er hefð fyrir því að FH-ingar fjölmenni en nú vorum við bara fimm, bæði vegna nálægðar við maraþonið og afleitrar veðurspár, það eru bara ofurhetjur sem hlaupa í 19 m/sek.
VH hefur verið valið götuhlaup ársins tvisvar á síðustu þremur árum og skyldi engan undra. Í hálfu maraþoni er hlaupinn skemmtilegur hringur um Heimaey í einhverju ótrúlegasta bæjarstæði landsins. Hér er nóg af öllu; malbik, örstuttir utanvegakaflar, brekkur, eldfjöll, náttúrufegurð og þetta árið, sérstaklega fyrir mig: ROK.Sem hálfur Þjóðverji verð ég líka að nefna þátttökugjaldið, fyrir kr. 2.000 fæst; ferð báðar leiðir með Herjólfi, rútuferð í íþróttamiðstöðina, aðgangur í hlaupið með tilheyrandi hressingu á drykkjarstöðvunum á 5 km fresti, humarsúpa og aðrar veitingar eftir hlaup og aðgangur í sund - geri aðrir betur!FH-ingar í Vestmannaeyjahlaupinu, Axel, Edda Dröfn Eggertsdóttir, Birna Björk Árnadóttir, Arnar Karlsson og Birgit Eriksen.
Alveg fram að starti var ég óviss með hlaupataktík en niðurstaðan var að reyna ekki of mikið á mig en hlaupa samt svolítið þétt. Í undirbúningi fyrir Laugaveginn keyrði ég mig út í Snæfellsjökulshlaupinu tveimur vikum áður og ég fann að það sat svolítið í mér. VH var þremur vikum fyrir maraþonið og okkur var ráðlagt að taka þessu hlaupi ekki sem keppni .... en þetta er alltaf smá keppni. Ég rauk af stað í startinu með vindinn í bakið og í fyrsta skipti síðan í Víðavangshlaupi Hafnarfjarðar ca 1977, fékk ég að vera í forystu sem entist í tæpa tvo kílómetra.
Með Sigmar Þröst og Kára Stein á hælunum
Við bókstaflega fukum niður í Herjólfsdal og þó hraðinn hafi verið mikill voru þetta engin sérstök átök - ekki fyrr en við beygðum upp í vindinn í bakaleiðinni úr Dalnum. Þar fóru þeir tveir fram úr sem enduðu í fyrstu tveimur sætunum ásamt Arnari Karlssyni, félaga mínum í FH sem endaði þriðji. Brekkurnar á Hamarsvegi og Höfðavegi í átt að Stórhöfða voru gríðarlega erfiðar í mótvindinum, það var ekkert vit í öðru en að ganga upp erfiðustu kaflana.
Hlaupaleiðirnar í Vestmannaeyjahlaupinu.Í einum göngukaflanum missti ég svo fjórða karlinn fram úr mér og við slotið hans Árna Johnsen fór ítalski sigurvegarinn í kvennaflokki fram úr. Þá hljóp í mig svolítið keppnisskap, ég vissi af Sigmari Þresti Óskarssyni, Eyjaskokkara og einum besta handboltamarkmanni allra tíma, fyrir aftan mig og ætlaði helst ekki að hleypa honum fram úr.Nú var ég orðinn mátulega heitur og hlaupið mitt að byrja enda erfiðustu kaflarnir að klárast. Í brekkunni upp að flugstöðinni fór ég fram úr þeirri ítölsku aftur en fljótlega tók ég eftir Sigmari nálgast óðfluga. Gat svo sem verið að Eyjapeyinn, hokinn af reynslu af bæði brekkum og vindi skyldi vera með réttu taktíkina og myndi taka Hafnfirðinginn í kennslustund á heimavelli. Það var auðvitað ekkert við því að gera, hlaupið snerist um að líða sem best á þokkalegum hraða - hafa stjórn á önduninni og vera ekki í of mikilli áreynslu. Mér til mikillar mæðu þaut „Sigmar" fram úr mér austur af Helgafelli og þá fyrst kom í ljós að þetta var bara alls ekki hann, heldur Kári Steinn Karlsson - langfyrstur í 10 km hlaupinu, ég hef aldrei verið jafnglaður að sjá hann og himinlifandi með þennan misskilning.Það gerist ekki á hverjum degi að Kári Steinn fari fram úr mér, við ræsum náttúrlega á sitt hvorum staðnum í öllum hlaupum og því hef ég aldrei séð hann hlaupa nema þegar við mætumst í keppnishlaupum þegar hlaupið er fram og til baka. Það var því svolítið sérstök upplifun að sjá hann hlaupa fram úr mér, hraðinn er svo ótrúlegur og hann virðist ekkert hafa fyrir þessu - og á augabragði er hann einfaldlega horfinn.
Vel hægt að hlaupa í roki, tekur bara lengri tíma
En miðaldra díselvélin var farin að malla, í brekkunum við Skansinn hljóp ég fram úr öðrum keppanda og var því orðinn fjórði. Aðeins tvær rakettur og Arnar fyrir framan mig. Ég vissi að ég myndi aldrei ná Arnari enda mun öflugri hlaupari en ég. Venjulega snúast keppnishlaupin mín um lokatíma og að sigrast á sjálfum sér en nú snerist allt um að halda stöðu, enda skipti lokatími engu máli í þessu brekkuroki. Þetta var bara nokkuð þægileg taktík eftir að ég var kominn með dágott forskot og 7 km eftir, hægt að taka því rólega í erfiðu köflunum og vera bara á þægilegum hraða þess á milli, ekkert streð. Þetta reyndist sólóhlaup alla leið í markið, ég kom þangað í fínu standi með lokatíma upp á 1:42:19, 2:30 á eftir Arnari og tæpri mínútu á undan hinni ítölsku sem kom fimmta í mark.
Það er því vel hægt að hlaupa í roki, það tekur bara aðeins lengri tíma. Eyjamenn kalla þetta „hæfilegt mótlæti" sem rímar vel við lærdóm minn eftir Laugavegshlaupið; mótvindur skemmir kannski lokatímann en hann á ekki að þurfa að skemma hlaupið. Þó það hafi verið fáir áhorfendur og lítil stemning á leiðinni er Vestmannaeyjahlaupið einfaldlega skemmtilegasta götuhlaup sem ég hef tekið þátt í, ég mun örugglega taka þátt aftur á næsta ári og bið þá um aðeins minni vindgang.
Markmyndin í Celebration marathon í janúar 2016, lokatími 3:52:48. Alexía Margrét, dóttir mín hljóp með mér síðustu 42,2m.Allur fókus á BerlínSíðustu dagarnir fyrir Berlin verða vonandi samkvæmt plani og vonandi kemur ekkert upp á í undirbúningnum. Ég hafði hug á að keppa í einu fimm km hlaupi til viðbótar og reyna að hlaupa vegalengdina á undir 20 mín, allavega að bæta tímann minn frá mars 2015 sem er rétt undir 21 mín. Ég hef tvö tækifæri til þess vikuna eftir VH en er kominn á þá skoðun að láta það eiga sig. Nú fer allur fókus á Berlin og kominn tími til að vera með vangaveltur um markmiðasetningu.Það er alveg ljóst að ég á inni einhverja bætingu á besta tímanum mínum ef allt verður með felldu, en hversu mikla? Þessi tvö alvöru maraþon sem ég hef tekið þátt í, voru í ansi óhagstæðum aðstæðum og þá var ég í mun síðra formi en í dag. Í London 2014 var ég grillaður af hita seinni part hlaups eftir að hafa farið alltof geyst af stað í byrjun og í Celebration 2016 var gríðarlegur raki og ekkert vit í að reyna að hlaupa hratt, þá var lokatíminn tæplega 3:53 sem stendur til að bæta.Hins vegar eru aðstæður í Berlin yfirleitt með besta móti þannig hafa nokkur heimsmet fallið í hlaupinu og því verð ég loksins að hlaupa við kjöraðstæður. En að fenginni reynslu í löngu hlaupunum hef ég stundum sett markið of hátt, dreymt um tíma sem ég hef ekki einu sinni verið nálægt eins og á Laugaveginum. Og ég var farinn að dreyma um tímann 3:30 sem jafngildir hraða rétt undir 5 mín/km.
3:40 opinbert markmið
Það er hægt að finna ýmis reiknilíkön á netinu þar sem hægt er að slá inn bestu tímana í styttri vegalengdum sem gefa líklegan lokatíma í maraþonhlaupi. Skv. einu slíku er áætlaður lokatími hjá mér á bilinu 3:20 til 3:23. Slíkur tími og hálftíma bæting hljómar nú fullgott til að geta verið satt enda var mér bent á að sum líkönin séu allt að 10 mín of bjartsýn. Niðurstaðan var því sú að geyma öll markmið undir 3:30 til að girða fyrir möguleg vonbrigði, ná því í áföngum enda fjögur önnur maraþon í kortunum hjá mér fram að fimmtugu og ég verð vonandi í sífellt betra formi. Svo vantar mig meiri reynslu af að hlaupa gegnheilt taktískt maraþonhlaup og Berlin mun fara beint í reynslubankann og væntanlega vega þungt síðar.
Mér finnst líklegur lokatími vera á bilinu 3:35-3:40. Það skal opinberlega stefnt á lokatíma upp á 3:40, sem er hraði upp á 5:11 mín/km, en reyna að hlaupa svolítið hraðar ef allt verður með besta móti á keppnisdag. Byrja að hlaupa kringum 5 mín/km en hægja á mér ef mér finnst hraðinn óþægilegur og vera alls ekki að gaspra neitt um einhvern lokatíma upp á 3:30! En þetta kemur allt saman í ljós um hádegisbil, sunnudaginn 24. september.