Síðasti pistill endaði fyrri hluta febrúarmánaðar, tveimur vikum fyrir Tokyo Marathon sem allt hefur snúist um í vetur. Undirbúningurinn gekk ótrúlega vel, alls verið hlaupnir rúmlega 1000 km frá því ég kom í mark í Berlin Marathon. Það verður samt að segjast eins og er að það er töluvert erfiðara að undirbúa sig fyrir maraþonhlaup sem eru haldin síðla vetrar eða að vori heldur en hlaup sem eru á haustin. Ástæðan er fyrst og fremst að veður og færð á Íslandi setur alltaf strik í reikninginn á veturna og stundum getur verið erfitt að koma sér af stað á æfingu í svartasta skammdeginu. Það er svakalegt að klára langa laugardagshlaupið og varla farið að birta ennþá.
Fyrri pistill Axels um undirbúninginn fyrir Tokyo maraþonið
Maraþon að hausti er því mun auðveldara ferli, þá er verið að æfa við toppaðstæður yfir sumarið og flestir eru væntanlega betur upplagðir í svona langhlaup á haustin en að vori og eru svolítið sólbrúnni.
Axel heldur betur sáttur eftir að hafa náð markmiði sínu.Hvernig skal pakka fyrir Tokyo?Það var svolítið heilabrot að pakka fyrir Tokyo-ferð í febrúar, það leit út fyrir viðvarandi næturfrost og alls óvíst um veðrið á hlaupadegi. Það var því ekki um annað að ræða en að gera sig kláran að hlaupa í bæði frosti og hlýju, vera með hlaupaföt fyrir bæði kaldan og hlýjan hlaupadag. En það var ýmislegt sem gladdi þegar ég lagðist yfir hlaupagögnin áður en við lögðum af stað. T.d. var búið að breyta hlaupaleiðinni talsvert og endamarkið er nú við keisarahöllina í stað þess að vera lengst í burtu á hafnarsvæðinu. Hlaupið er auðvitað jafn fáránlega langt en nú eru aðeins um 5 km á milli rásmarksins og endamarksins, og hótelið er nokkurn veginn mitt á milli sem einfaldar málin svolítið á hlaupadegi.Ferðadagurinn rann upp að lokum, mikið var búið að bíða lengi eftir honum. Ferðalagið var eins bærilegt og hægt var að vonast eftir, alls 21 klst að heiman og upp á hótel - alls um 12.000 km ferðalag með örstuttu stoppi í Frankfurt. Svona langt ferðalag er auðvitað ekkert grín en það fer misjafnlega í fólk, ég var samt nánast búinn að jafna mig daginn eftir á meðan Sonja átti svolítið erfiðara með það. Hótelið var ansi flott og allur aðbúnaður eins og best verður á kosið. Þjónustustigið er svolítið ólíkt því sem gengur og gerist á Íslandi, hrein unun að dást að Japönum sinna störfum sínum.Stórborgin Tokyo er auðvitað efni í heillangan og áhugaverðan pistil sem verður ekki farið út í hér en látið nægja að hvetja áhugasama lesendur að drífa sig af stað og upplifa borgina á eigin skinni. Það verður samt að eyða þeirri mýtu að það sé dýrara að vera ferðamaður í Tokyo en í Reykjavík.Mikið fjör á expoinuAfhending hlaupagagna fór fram í glæsilegri ráðstefnu- og sýningarhöll við sjávarsíðuna og þar byrjar tilhlökkunin fyrir alvöru. Það var múgur og margmenni á fimmtudeginum en allir 35 þúsund hlaupararnir verða að mæta hingað á næstu þremur dögum til að sækja hlaupagögnin sín og því er greinileg eftirvænting í loftinu.
Hér er enginn skortur á sjálfboðaliðum á vegum hlaupsins sem eru boðnir og búnir að aðstoða hlaupara að komast á réttan stað og allt gekk fumlaust fyrir sig. Hlaupagögnin eru rásnúmer, armband til að komast í rásmarkið, tímatökubúnaður (chip), bolur merktur hlaupinu og alls kyns upplýsingar sem gott er að glugga í fyrir hlaup.
Expo-ið sjálft er upplifun út af fyrir sig, mikill ákafi í sölumönnum og kynningarfulltrúum að koma boðskap sínum á framfæri. Það er ekki nóg fyrir þá að kalla hátt og snjallt heldur eru sumir þeirra með gjallarhorn eða áfast hátalarakerfi til að það heyrist örugglega í þeim út um alla höll. En hér var hægt að gera ágætis kaup á ýmsum hlaupabúnaði enda verðlag nokkuð betra en víða annars staðar. Það er skemmtilegt að rölta um expo-ið enda fór ég aftur með nokkrum félögum mínum úr Bændaferðahópnum daginn eftir, alltaf eitthvað sem fer framhjá manni í fyrra skiptið.
Hlaupadagur rennur upp - dýrkeypt teiping
Svo leið að hlaupadegi. Veðurspáin hafði ekki breyst mikið frá fyrstu tölum, það yrði beðið í rásmarkinu og ræst í 4ra stiga hita sem myndi skríða upp í 7 í lok hlaups, stórfínt fyrir alla Íslendingana. Mig hafði langað til að hlaupa í sömu stuttbuxum og ég hef hlaupið í öllum maraþonhlaupunum mínum og nýja ermalausa bolnum sem ég hafði keypt í tilefni dagsins, og ákvað að láta vaða þrátt fyrir kuldann. Morguninn gekk eins og í sögu, það voru margir hlauparar á hótelinu og því var opnað sérstaklega snemma í morgunmatinn þennan dag, um 5:30 svo allir næðu að nærast tímanlega. Svo tók við undirbúningur fyrir hlaupið sjálft, græja sig upp. Það var allt ofur hefðbundið nema hvað mér fannst allt í einu algjört snjallræði að teipa á mér iljarnar til að forðast nuddsár - það reyndust vera mikil mistök. Hins vegar var annað með hefðbundnari hætti, plástrar yfir brjóstin, vaselín í nárann, 7 gel, sími með Endomondo appið, hanskar, ljótupeysa og ein 330 ml einnota vatnsflaska með nuun steinefna freyðitöflu.
Svo var farið af stað með fyrstu rútu kl 6:45 og aðeins var örstuttur akstur í rásmarkið þar sem við þurftum að bíða í 2 tíma. Það að komast inn á rásmarkið er alltaf að verða meira og meira mál, hér þarf að skanna armbandið sem var fest við hlauparana á expo-inu og fara í gegnum málmleitartæki eins og á flugvöllum. Allar reglur í kringum þessi stóru hlaup eru líka að verða strangari með tímanum, t.d. mátti ekki taka með sér meiri vökva en 250 ml inn á rássvæðið, mér tókst að smygla örlítið stærri flösku.Eftir á að hyggja hefði ég lent í bölvuðum vandræðum ef flaskan hefði verið gerð upptæk, ég trúi svo staðfastlega á steinefnaneyslu í miðju hlaupi og veit ekki hvernig ég hefði getað leyst það mál í rásmarkinu.Hlaupaleiðin í baksýn á risastóru plakati. Umgjörðin upp á 10.
Hljóp mjúklega í gegnum startið
Tveggja klst bið í rásmarkinu snýst um að láta sér líða bærilega, halda á sér hita og upplifa stemninguna. Hér er boðið upp á nokkur tonn af bönunum, mandarínum og drykkjum af brosandi sjálfboðaliðum. Til að stytta sér stundir var hægt að fara í klósettraðir hér og þar, það þarf alltaf að vera að létta á sér svo manni líði sem best í startinu. Nokkrir hlauparar eru klæddir í ýmsa búninga og kenndi ýmissa grasa; bananar, jólasveinar, trúðar og m.a.s. jakkafataklæddur Japani, ég bauð honum að koma til Íslands og hlaupa með mér í næsta Gamlárshlaupi ÍR. En svo er hreinlega komið að stóru stundinni, örstutt ræðuhöld frá borgarstjóranum og hlaupastjóranum áður en japanski þjóðsöngurinn ómaði. Fyrst var ræst í 10 km hlaupinu og hjólastólaflokki maraþonhlaupara áður en það kom að okkur hinum.
Það var enginn skortur á skrautlegum hlaupurum í Tokyo.Ég var búinn að vera óskaplega glaður með að vera í ráshólfi C sem er ansi framarlega og eftir ræsingu tók það einungis 2:41 sek að komast í gegnum rásmarkið. Hins vegar var einhver athyglisbrestur í mér þannig að ég hélt að það hefðu liðið 1:41 sem skiptir örlitlu máli í lok hlaupsins.Hlaupaleiðin er ótrúlega skemmtileg enda umhverfið framandi og áhorfendur alls staðar á leiðinni. Hér er auðvitað langmest um Japana, bæði að hlaupa og hvetja sína menn en nóg af öðrum þjóðernum til að gefa þessu alþjóðlegan blæ. Eftir 10 km erum við rétt hjá endamarkinu og þá taka við nokkrir útúrdúrar, fyrst hlaupið svolítið norðureftir að snúningspunkti og hlaupið til baka, svo í austur og til baka, að lokum til suðurs og aftur til baka.
Einföld hlaupataktík - dauður símiLýsingin er ekki hárnákvæm en gefur nokkuð góða mynd af brautinni. Leiðin er líka stórskemmtileg að því leyti að eftir 10-13 km er góður möguleiki að mæta forystusauðunum sem eru þá búnir með 24-27 km. Ég var aðeins of hraður og missti því af þeim en mér skilst að það sé heilmikil upplifun að mæta hröðustu langhlaupurum í heimi.Hlaupataktíkin var ekkert mjög flókin, opinbert markmið var lokatími upp á 3:35 en það yrði gerð atlaga að lokatíma upp á 3:30 og því ætlaði ég að hanga í hraðastjórunum sem voru að hlaupa á þeim hraða og helst að vera aðeins á undan þeim í mark.Gleðin í hámarki eftir 31 km - keppnisskapið skammt undan.
Eins og oft áður fór taktíkin í vaskinn strax í byrjun, ég hafði séð hraðastjórana í mannhafinu fyrir startið en síðan hefur ekkert til þeirra spurst - þeir voru hvergi sjáanlegir allt hlaupið!
En ég var líka með plan B, að hlaupa bara á þægilegum hraða allt hlaupið, nokkuð jafnt og þétt, og vera ekkert alltof upptekinn af tímanum. Ég var búinn að ákveða að vera ekki með heyrnatólin með mér, þessi sem segja mér hraðafréttir á kílómeters fresti. Þess í stað ætlaði ég að kíkja á tímann í símanum á 5 km fresti sem væri einfalt að reikna í meðalhraða og gróflega áætlaðan lokatíma. Sú áætlun fór líka í vaskinn þegar símadraslið varð batterýslaust eftir tæpa 15 km og þannig týndist tíminn. Ég auglýsi hér með eftir almennilegu hlaupaúri!
Fullmikill hraði og sviti gerir vart við sig í kuldanum
En allt byrjaði þetta vel. Það var örlítið öngþveiti fyrstu mínúturnar en eftir það var nánast hægt að hlaupa á eigin hraða. Það hafði grisjast hratt og vel úr hópnum og ekki annað hægt en að vera þakklátur fyrir að ræsa svona framarlega. Hraðinn var nokkuð „eðlilegur", það var auðvitað ekki verið að hafa mikið fyrir hlutunum og ekkert verið að halda aftur af sér. Það var hlaupið á ansi jöfnum hraða fyrstu 33 km - hröðustu 5 km voru á 4:50 mín/km en þeir hægustu á 4:59 sem var akkúrat hraðinn sem hefði skilað mér í markið á 3:30. Eftir á að hyggja var hraðinn kannski fullmikill enda var ég farinn að svitna heldur fljótt í kuldanum, mér sýndist fáir aðrir vera sveittir í kringum mig. Þetta voru slæmar fréttir enda þyrfti ég nú að vera duglegur að drekka og litli brúsinn minn myndi duga skammt, því yrði ég að fá vökva annars staðar.
Nóg að bíta og brenna hjá Japönunum.Drykkjarstöðvarnar á leiðinni voru algjörlega frábærar, þær voru svo langar og buðu bæði upp á dísætt vatn og venjulegt. Það þurfti ekki að fara í eitthvað öngþveiti til að fá sér drykk, það var hægt að velja sér stað á drykkjarstöðvunum sem var minna umsetinn af öðrum hlaupurum. Ég var búinn að ákveða að fara ekki á göngu í gegnum drykkjarstöðvarnar og því þurfti ég að læra að drekka á harðahlaupum, það er bara ekkert auðvelt. Fyrst þarf að grípa glasið með sér án þess að hellist mikið úr því og svo að brjóta upp á það svo hægt sé að sturta upp í sig í tveimur, þremur sopum, án þess að sulla öllum vökvanum í andlitið.
Vegna svitans ákvað ég að koma við á hverri einustu drykkjarstöð, 1-2 glös á hverjum stað og súpa á brúsanum mínum þess á milli. Fyrsta gelið var gleypt rétt fyrir startið og svo á 6 km fresti allt hlaupið, nokkurn veginn á hálftíma fresti.
Hlaupið á vegginn fræga
Það gekk allt eins og í sögu en ég fann samt fljótlega að hlaupið var erfiðara en í Berlin, 5 mánuðum fyrr. Fljótlega í seinni hluta hlaupsins byrjaði ég að finna fyrir svolítilli þreytu, mér leið einfaldlega eins og ég væri búinn að hlaupa 10 km lengra en kílómetrafjöldinn sem var að baki og það var ekki góð tilfinning. Til viðbótar var mig farið að verkja undir báðum iljunum, þetta teip var auðvitað algjör vitleysa. Það fóru alls kyns hugsanir af stað, hvernig ætti ég að bregðast við?
Þreytan ágerðist en á sama tíma hafði ég tröllatrú á að ég gæti haldið áfram og komist alla leiðina í markið án þess að hægja mikið á mér, rétt eins og í Berlin. Ég vissi að ég yrði á frábærum tíma ef ég héldi dampi, langt undir 3:30 - en það var enn óralangt í markið! Til viðbótar var mig farið að verkja í nárann, allt komið í skrall en áfram skyldi haldið. Það var einfaldlega tekin sú ákvörðun að halda hraðanum óbreyttum þar til veikasti hlekkurinn myndi gefa sig, var nokkuð annað í boði? Það var mikil gleði að komast í gegnum 25 km markið og áfram var haldið að 30 km markinu, komst þangað á sama hraða.
Ég var búinn að mæla mér mót við Sonju mína rétt eftir það og ég mætti aðeins fyrir umsamdan tíma, æðislegt að sjá hana eftir allt erfiðið. Fljótlega eftir það versnaði þó heldur betur í því, eftir 33 km skall ég einfaldlega á maraþonveggnum, gat ekki meir.
„Hvers vegna lenti ég á veggnum?"Það að lenda á veggnum er líkamsástand þegar allar kolvetnisbirgðir líkamans eru uppurnar og líkaminn byrjar að brenna fitu til að fá orku. Vandamálið er að fitubrennslan er mun hægvirkari og því þverr allur kraftur og það er einfaldlega ekki hægt að halda hraðanum. Margir íþróttamenn hafa náð að þjálfa sig upp í að láta líkamann vinna orku eingöngu úr fitunni og sneiða því algjörlega hjá kolvetnunum, og segja að það sé eina vitið. Ég hef einfaldlega ekki þorað að stíga það skref enda með fjölskyldu sem myndi varla samþykkja að fara að borða steikur og fituríkan mat í hvert mál. Hins vegar hafði ég „karbólódað" eða kolvetnahlaðið mig fyrir maraþonið og hef auðvitað velt því fyrir mér hvers vegna ég lenti á veggnum í Tokyo en slapp í Berlin?Niðurstaðan eru nokkrir samverkandi þættir; ég hlóð í tvo daga í stað þriggja sem hefur væntanlega haft eitthvað að segja - ég varð aldrei upptjúnaður af karbógumsinu eins og ég hef stundum orðið. Hraðinn í hlaupinu var svolítið meiri í Tokyo sem hefur útheimt meiri orku, kannski var ég bara orðinn of góður með mig eftir flott hlaup í Berlin? Til viðbótar hef ég vafalaust gengið alltof mikið um stórborgina Tokyo dagana fyrir hlaup, í stað þess að hvíla mig og spara. En það er auðvitað glatað að fljúga hálfan hnöttinn til að liggja með tærnar upp í loft og einbeita sér að einhverju hlaupi í stað þess að lifa lífinu. Hins vegar sleppti ég tveimur liðkunarhlaupum í staðinn fyrir göngutúrana en staðreyndin er samt sú að ég var bensínlaus 9 km frá endamarkinu, hvað nú?Markmiðin út um gluggann?Það var ekkert annað í stöðunni en að hætta að hlaupa og byrja að ganga, reyna aðeins að ná áttum og hvíla sig svolítið, ganga smáspöl og svo aftur af stað. Það er samt alltaf þannig að þegar búið er að stoppa einu sinni til að ganga, er bara tímaspursmál hvenær það gerist aftur. Því var einfaldlega hökt áfram næstu kílómetrana, gengið og hlaupið á víxl. Samningaviðræður við sjálfan sig að hlaupa að brúnni sem var 100 metrum fyrir framan og ganga svo smáspöl, hlaupa að beygjunni sem var 200 metrum fyrir framan og svo koll af kolli.Erfiðið að baki og ennþá fúlskeggjaður. Og markmiðinu náð.
Öll markmið um að komast á leiðarenda á frábærum tíma fóru því út um þúfur en því fylgdi engin sérstakur harmur, aðalatriðið var alltaf að njóta þess taka þátt í þessu geggjaða hlaupi í þessu framandi umhverfi og gera sitt besta. Ég var eiginlega meira hissa en dapur. Því var bara að setja upp bros, dást að áhorfendunum sem voru duglegir að láta í sér heyra og dúlla sér í áttina að markinu.
Ég var auðvitað ekki sá eini sem var byrjaður að ganga, það hafði líka hægst á mörgum öðrum hlaupurum í kringum mig - það voru fleiri sem höfðu ætlað sér of mikið. Næstu kílómetrar voru ansi erfiðir, síðasti snúningspunkturinn var eftir 36 km, svo var farin sama leið til baka í endamarkið. Það var því gríðarlega sætt að komast loksins í 40 km markið og sjá að tíminn var alls ekki svo galinn, það væri enn hægt að komast í markið með lokatíma upp á 3:35, en það yrði væntanlega tæpt.
PB staðreynd þrátt fyrir erfiðleika
Eitt lokaknús frá Sonju var það sem þurfti, aðeins 2 km í markið. Orkan var samt jafn lítil og áður, og því var hökt áfram á lítilli ferð, meðalhraðinn síðustu 7 km hafði verið tæplega 6 mín/km. Svo kom loksins síðasta kílómetramarkið, 41 km og kominn tími til að taka til fótanna. Það þýddi ekkert annað en að spretta svolítið úr spori og klára þetta með stæl, það geta allir hlaupið 1200 metra skammlaust. Því var lokakaflann farinn á þrjóskunni og ég sogaði að mér allri orkunni sem áhorfendur voru að gefa með stigvaxandi hvatningarópum.
Það var æðislegt að heyra hrópað „Go Iceland" með reglulegu millibili, þökk sé vel merkta hlaupabolnum mínum. Síðasti spölurinn í öllum maraþonhlaupum er alltaf jafn æðislegur, bara örstutt í markið og gríðarleg stemning hjá áhorfendunum. Íslenska fánanum sást bregða fyrir, þá lyftir maður upp höndum og lætur heyra vel í sér. Sigurtilfinningin tekur völdin, markið er rétt eftir síðustu beygjuna í einni af aðalgötum Tokyo. Það var samt svolítið svekkjandi að sjá tímatökubúnaðinn í beygjunni við 42 km markið, mér sýndist tíminn vera akkúrat 3:35 þegar búið var að draga frá 1:41 sek sem það tók mig að komast í gegnum rásmarkið. Það gladdi samt auðvitað að hafa verið svona nálægt markmiðinu mínu eftir að hafa sprungið á liminu - þetta varð ekki gert betur að þessu sinni.
Einhverjar sekúndur til eða frá skipti varla máli. Það var því frábær tilfinning að komast í endamarkið, allt erfiðið að baki og takmarkinu náð, að komast alla leið í mark. Það er ekkert smá afrek að hlaupa 42,2 km hinum megin á hnettinum og ná pb í leiðinni.
Vann Kipsang annað skiptið í röðÞess má geta að sigurvegari í hlaupinu var Dickson Chumba, að sjálfsögðu frá Kenya á tímanum 2:05:30. En maður dagsins var heimamaðurinn Yuta Shitara sem kom öllum að óvörum, náði frábærum endaspretti og endaði í öðru sæti á nýju landsmeti við gríðarlegan fögnuð áhorfenda.Fljótasta konan var Birhane Dibaba frá Eþíópíu á tímanum 2:19:51 en hvorki heimsmet karla né kvenna var í verulegri hættu að þessu sinni, kannski var hreinlega of kalt.Ivar Jónsson og Axel litu vel út í rásmarkinu.
Hins vegar var brotið blað í sögu maraþonsins þar sem bæði Chumba og Dibaba voru að sigra í Tokyo Marathon í annað sinn á ferlinum en engum öðrum hefur tekist að sigra oftar en einu sinni. Annað skiptið í röð vann ég Wilson Kipsang, sigurvegara Tokyo Marathon 2017, enda virðist hann ekki getað klárað neitt hlaup sem ég tek þátt í, hann heltist úr lestinni eftir 17 km að þessu sinni.
Japaninn kann að skipuleggja maraþon
Eftir hlaupið tók við löng ganga í gegnum marksvæðið, við gengum saman, ég og Ívar Jónsson sem ég hitti í markinu og gps-inn hans fór langleiðina í 50 km. Við áttum báðir svolítið erfitt með gang, lúnir og búnir eftir hlaupið. Á leiðinni var urmull af sjálfboðaliðum á vegum hlaupsins, sumir höfðu ekkert annað verkefni en að óska öllum hlaupurunum til hamingju og brostu sínu breiðasta. Allt skipulag var til fyrirmyndar, glæsilegur verðlaunapeningur settur um hálsinn, við vorum vafðir í álpappír og hlaðnir sérmerktum handklæðum og næringu - það var hugsað fyrir öllu.
Eftir rútuferðina á hótelið var farið að athuga með fæturna, það var ekki fögur sjón. Húðin hafði soðnað undan teipinu og blöðrur myndast annars staðar. Til viðbótar voru tvær táneglur orðnar fjólubláar, rétt þegar allar neglurnar voru komnar á sinn stað eftir Laugaveginn. Það var því bæði heimskulegt teip og of litlir hlaupasokkar sem höfðu gert mér lífið leitt, höfðu kannski ekki haft áhrif á lokatímann, bara látið finna vel fyrir sér.
Nýraakaður í After run partýi, full ástæða til að fagna.Óvæntar frétt - fór undir 3:35:00Eftir heitt bað fór fram nánari athugun á lokatíma. Það gladdi mig ótrúlega mikið að sjá að það var grannt fylgst með hlaupinu mínu á facebook síðu Hlaupahóps FH um miðja nótt. Hvers virði er, öll heimsins hlaup - ef það er enginn að fylgjast með? Það er auðvitað frábært að tilheyra hlaupahópi í stað þess að vera einn í svona brölti. Þó ég hafi verið sá eini í hópnum að hlaupa þá fara hinir ósjálfrátt í stuðningsliðið og mikið er gott að eiga svona frábært fólk að, takk fyrir stuðninginn og allar kveðjurnar! Anyway, upp í rúmi með fartölvuna á bumbunni að skoða facebook, rann hægt og rólega upp fyrir mér að 2:41 sek var frádrátturinn á brúttó tímanum en ekki 1:41.Mér hafði því tekist að ná lokatíma undir 3:35 sem var markmiðið sem ég hafði lagt upp með, án þess að gera mér grein fyrir því þegar ég hljóp í markið. Lokatíminn var 3:34:39, heilli 21 sek undir settu marki og auðvitað nýtt pb - bæting upp á 5:20. Það fór því um mig ný sælutilfinning, það er geggjað að setja sér svolítið krefjandi markmið, undirbúa sig eins og brjálæðingur og ná því svo að lokum! En ég hefði líklega ekki átt að hlaupa svona hratt í restina, því þá hefði ég kannski verið einni töffaralegri sekúndu undir markmiðinu, rétt eins og í Berlin.Skegglaus í After run partýiEftir smá hvíld var svo komið að stóru stundinni sem við Sonja höfðum beðið lengi eftir, ég hafði fundið alvöru rakarastofu á hótelinu og átti pantaðan tíma í rakstur þar sem skeggvöxtur síðustu mánaða var fjarlægður. Gamli skeggjaði karlinn sem hljóp maraþonhlaup fyrr um daginn átti lítið skylt með unga, nýrakaða drengnum sem var að fara í „After Run Party" á vegum hlaupsins.Partýið var mikið sjónarspil þar sem japanska gestrisnin nýtur sín til fulls, nóg að bíta og brenna og japanskri menningu gert hátt undir höfði. Það er fyllsta ástæða til að mæla með þessum viðburði fyrir þá Íslendinga sem eiga eftir að taka þátt í Tokyo maraþoninu.
En fleira markvert gerðist ekki, við flugum til Frankfurt daginn eftir og svo áfram heim til Íslands, himinlifandi með þetta ferðalag á þessar framandi slóðir og með hástemmdar fyrirætlanir að snúa aftur í framtíðinni. Tokyo maraþonið er auðvitað orðið uppáhalds hlaupið mitt.
Allir eiga séns - nýliðanámskeið góður kostur
Það er svolítið magnað að miðaldra karl, sem náði að klára 10 km Reykjavíkurmaraþon með herkjum árið 2012, skuli nú rúlla upp hverju langhlaupinu á fætur öðru og ferðast heimsálfanna á milli til að sinna áhugamáli sínu. Ég er langt í frá einhver afreksmaður eða undrabarn í langhlaupum, hef einfaldlega stigvaxandi áhuga á þessu brölti og löngun til að halda áfram að bæta mig.
Því ættu flestir að geta gert það sama en auðvitað verður að vera einhver áhugi á að hreyfa sig. Það geta nánast allir hlaupið nema það sé eitthvað undirliggjandi líkamlegt ástand sem kemur í veg fyrir það, þá þarf auðvitað að fá lækni til að skoða málið. Svo gæti hlaupastíllinn verið eitthvað skakkur þannig að hann framkalli meiðsli eða fari illa með líkamann en aftur getur læknir eða góður sjúkraþjálfari hjálpað til.
Hins vegar ættu flestir að geta komið sér í gott form með hlaupum; það er eiginlega ekki til nein afsökun fyrir því að hreyfa sig ekki. Gullna reglan er að byrja nógu rólega og helst með aðstoð reyndra þjálfara. Með hækkandi sól rennur upp tími nýliðanámskeiða hjá mörgum hlaupahópum, hjá Hlaupahópi FH byrjar það 24. apríl. Líklega er hvergi betra að byrja hlaupaferilinn en einmitt á nýliðaámskeiði þar sem farið er yfir helstu þætti sem tengjast hlaupunum og kynnast öðru skemmtilegu fólki sem er líka að koma sér af stað. Ég vildi að ég hefði farið strax á svona námskeið í stað þess að setja undir mig hausinn og rjúka af stað á sínum tíma en það er lítið við því að gera nema að hvetja áhugasama hlaupara að fara á svona námskeið. Bara að drífa sig af stað, sayonara!