Laugavegurinn 2017.Ég rakst á eftirfarandi heilræði einhvers staðar á netinu í gær: „Segðu ekki fólki frá áformum þínum. Sýndu þeim heldur árangurinn". Samt sem áður ætla ég sem fyrr að gera upp nýliðið hlaupaár og uppljóstra áformum mínum fyrir nýja árið. Og hefst nú lesturinn.MeginniðurstaðaHlaupaárið 2017 var hreint ekki eitt af mínum bestu. Einhverjum kann að detta í hug að þetta tengist aldri mínum á einhvern hátt, en það er auðvitað misskilningur. Einhvers staðar las ég að hlauparar á mínum aldri gætu búist við u.þ.b. 0,7% afturför á ári að meðaltali, en það eitt að verða sextugur orsakar engar stökkbreytingar í þessum efnum.Hins vegar lenti ég í smávegis áföllum á árinu sem trufluðu hlaupin. Þar bar hæst axlarbrot í Laugavegshlaupinu sem hafði óhjákvæmilega bein og óbein áhrif á hlaupaferilinn næstu mánuði þar á eftir.Til að gera langa sögu stutta náði ég ekki nema einu af fimm hlaupamarkmiðum ársins. Og til að gera stutta sögu aftur langa verður fjallað ítarlega um afdrif þessara markmiða síðar í þessum pistli.
Það sem hæst bar á þessu hlaupaári var útkoma fjallvegahlaupabókarinnar á sextugsafmælinu mínu. Það er ótrúlega gefandi að sigla svoleiðis í höfn, enda voru fjallvegahlaupin svo miklu meira en bara hlaup. Samskiptin við allt það góða fólk sem tók þátt í þessu með mér hefur svo sannarlega auðgað líf mitt síðustu 10 ár!
ÆfingarnarÆfingar gengu einkar vel fyrstu þrjá mánuði ársins, eins og m.a. má sjá á stólparitinu hér að neðan sem sýnir mánaðarlega hlaupaskammta. Á þessum þremur mánuðum hljóp ég samtals 730 km, sem er það næstmesta á fyrsta ársfjórðungi hingað til. En vegalengdin segir ekki allt, því að í hlaupum gildir það sama og í öðrum hlutum lífsins, að meira er ekki endilega betra.Á þessum fyrstu þremur mánuðum ársins tók ég 7 æfingar 30 km eða lengri, en vanrækti aftur á móti styrktaræfingar og hraðaæfingar. Þetta rann upp fyrir mér þegar ég hljóp 5 km keppnishlaup á 20:47 mín 30. mars við toppaðstæður. Þessu tími var talsvert undir væntingum miðað við æfingamagn og fyrri árangur.Nóg að gera við áritanir á útgáfuhófi Fjallvegabókarinnar.
Í framhaldi af hlaupinu 30. mars ákvað ég að endurskoða æfingaáætlunina mína og leggja aðaláherslu á styrk og hraða næstu vikurnar. Það mistókst í rauninni, einkum vegna þess að hálfur aprílmánuður fór í vaskinn vegna óvenjuleiðinlegrar kvefpestar sem ég var óvenjulengi að hrista alveg af mér.
Í maí var heilsan aftur eitthvað að stríða mér og í lok mánaðarins tognaði ég svolítið í nára. Það háði mér ekki lengi, en þó nógu lengi til þess að í júní var ég ekki enn kominn í skikkanlegt sumarhlaupaform. Aðalmarkmið sumarsins var reyndar að bæta tímann minn á Laugaveginum og það getur svo sem vel verið að meiri styrkur og meiri hraði hafi ekki endilega verið bráðnauðsynlegar undirstöður þeirra áforma. Viku fyrir Laugaveginn mat ég stöðuna svo að ég væri „vissulega tilbúinn að hlaupa Laugaveginn, en hins vegar [væru] líkurnar á bætingu talsvert minni en ég hefði kosið - jafnvel hverfandi". Sú varð líka raunin.
Eftir axlarbrotið á Laugaveginum var ég með hægri hendina í fatla í mánaðartíma og eðlilega lögðust hlaupaæfingar af á meðan. Kannski er alveg hægt að hlaupa með hönd í fatla, en brotin bein eru viðkvæm fyrir hristingi og í þessu ástandi er beinlínis hættulegt að detta og því rétt að fara að öllu með gát. En ég notaði tímann vel til gönguferða með mínum nánustu og á 18. degi frá broti fann ég út að ég gat vel skokkað upp og niður Hafnarfjallið. Í brekkunum gekk mér betur að halda öxlinni hreyfingarlausri en á jafnsléttu. Þessu fylgdi auðvitað einhver áhætta, en ég lagði mig virkilega fram við að fara varlega, sérstaklega á niðurleiðinni því að þar er hættan mest. Reyndar felst besta leiðin í gegnum lífið alls ekki í því að forðast áhættu, heldur miklu frekar í að halda áhættunni innan skynsamlegra marka. Ég tel að mér hafi tekist það. Í öllu falli fór ég 7 sinnum á fjallið dagana 2.-12. ágúst og varð síður en svo meint af. Og mér til mikillar undrunar var tíminn á leiðinni upp í 6. ferðinni sá besti sem ég hef náð til þessa, 42:00 mín. Það segir mér að þarna eru tækifæri til úrbóta. Og tíminn með fatlann var lærdómsríkur.
Æfingamánuðir ársins 2017. Í lok ágúst var ég farinn að geta æft nokkurn veginn eðlilega. Það var líka eins gott því að ég var skráður í Þriggjalandamaraþonið í Bregenz í Austurríki 8. október og tíminn vissulega orðinn naumur.Þrátt fyrir alla mínu reynslu féll ég í þá freistni að fara fullbratt í þessar síðustu vikur og afleiðing þeirrar óþolinmæði var tognun í læri 19. september, 19 dögum fyrir hlaup. Þetta var engin óskastaða, en ég fór varlega næstu daga í von um að sleppa með skrekkinn.
Maraþonvonin hvarf svo endanlega (að ég hélt) þegar tognunin tók sig upp 1. október þegar 8 dagar voru til stefnu. Eftir góða umönnun Bjarkar, reikimeistara og lífsförunautar, og Halldóru, sjúkraþjálfara, ákvað ég þó að láta slag standa og leggja af stað í maraþonið vel „teipaður" með þann bjargfasta ásetning að hætta strax og tognunin léti vita af sér. Maður var nú einu sinni búinn að borga ferðina. Og viti menn, tognunin lét ekki vita af sér og ég komst heill í mark eins og lesa má um í pistli á hlaup.is.
Eftir hlaupið í Bregenz lofaði ég sjálfum mér að leggja aðaláherslu á styrktaræfingar til áramóta, enda langt í næstu stóru markmið í hlaupum og nógur tími til að byggja upp þol á nýjan leik. Þolið er fljótt að koma (og fljótt að fara). Þetta gekk allt eins og í sögu, ég fór í ræktina 2-3 sinnum í viku og náði samtals 22 styrktaræfingum til áramóta. Hef aldrei verið duglegri á þeim vettvangi og fann greinilegan mun eftir því sem leið á tímabilið. Öxlin fékk líka sinn hluta af athyglinni, bæði í sjúkraþjálfun og í ræktinni, og í árslok var hún löngu hætt að há mér á hlaupum, sem og í flestum öðrum daglegum athöfnum.Á árinu 2017 hljóp ég samtals 2.453,19 km sem gerir árið að því fjórða lengsta frá upphafi, þrátt fyrir allt.Stefán ásamt Birki bónda í Tröllatungu í Þriggjalandamaraþoninu.
Náði bara einu markmiði
Ég setti mér fimm hlaupatengd markmið fyrir árið 2017 og náði bara einu þeirra, nefnilega að hafa gleðina með í för í öllum hlaupum. Það tókst þrátt fyrir axlarbrot og tognanir. Það er einfaldlega svo gaman að geta leikið sér eins og mann langar til!
Í Hvítasunnuhlaupinu. Hin markmiðin fjögur voru í fyrsta lagi að bæta mig í 5 km hlaupi (hlaupa undir 19:39 mín). Ég komst aldrei nálægt því og vissi reyndar strax um miðjan apríl að það væri ekki inni í myndinni. Markmið nr. 2 var að bæta tímann minn á Laugaveginum (5:41:10 klst). Var rétt um korteri frá því. Axlarbrotið tafði mig ekki mikið, en það gerði mótvindurinn hins vegar. Án hans hefði ég kannski átt möguleika. Þriðja markmiðið var að bæta mig í maraþoni (undir 3:08:19 klst). Það átti að gerast í Bregenz um haustið. Líkurnar á að það tækist voru aldrei miklar og gufuðu alveg upp um sumarið og um haustið. Fjórða markmiðið var svo að hlaupa a.m.k. eitt keppnishlaup á braut. Þetta fórst fyrir nú sem endranær. Geri það kannski seinna.Ég hefði svo sem líka getað sett mér það markmið að klára Fjallvegahlaupabókina. En ég vissi bara alveg í lok árs 2016 að það myndi takast og hafði því enga þörf fyrir að setja það neitt sérstaklega á blað.KeppnishlaupinKeppnishlaupin mín á árinu 2017 urðu samtals 15 og hafa aldrei verið fleiri. Voru reyndar jafnmörg árið 2014. Alls eru þau orðin 129 frá upphafi að brautarhlaupum frátöldum. Það telst ekki mikið þegar haft er í huga að það fyrsta var hlaupið fyrir 32 árum. Ég er ekki maðurinn sem mætir í öll hlaup, eins og mér finnst það annars skemmtilegt. Keppnishlaup eru bestu hraðaæfingar sem maður tekur og þar hitti ég líka allt þetta dásamlega fólk sem hefur álíka gaman af þessu og ég. Já, og svo eru þessi hlaup líka góð vísbending um hvað þurfi að laga í hlaupaæfingunum.
Aldrei þessu vant tók ég þátt í hvorki meira né minna en 6 vetrarhlaupum fyrstu þrjá mánuði ársins. Þar ber fyrst að nefna öll þrjú hlaupin í vetrarhlauparöð FH og Atlantsolíu í Hafnarfirði (5 km 26. janúar, 23. febrúar og 30. mars). Tók ekkert á því í fyrsta hlaupinu og endaði á 21:47 mín sem var næstlakasti tíminn minn frá upphafi. Var samt alveg sáttur. Í næsta hlaupi tók ég aðeins meira á því en hafði ekki alveg kraftinn sem þurfti undir lokin. Tíminn var 20:55 mín. Ég fór svo í síðasta hlaupið af fullri alvöru, staðráðinn í að nota allt sem ég ætti til. Gerði það en tíminn var samt ekki nema 20:47 mín. Taldi mig eiga að geta hlaupið undir 20:30 á þessum tímapunkti. Í dagbókinni minni frá þessu kvöldi stendur orðrétt: „Nú þarf að breyta einhverju", (sbr. líka það sem stendur hér að framan um æfingarnar fyrstu mánuði ársins).
Atlantsolíuhlaupin voru söguleg í hlaupasögunni minni að því leyti að þetta voru fyrstu hlaupin þar sem ég var gjaldgengur í aldursflokknum 60+. Það var svolítið sérstök tilfinning. Og reyndar dugði frammistaðan í þessum hlaupum til að ná 44 stigum af 45 mögulegum í heildarstigakeppni aldursflokksins og standa uppi sem sigurvegari.
Síðustu vetur hef ég yfirleitt verið í forsvari fyrir Flandraspretti í Borgarnesi, en í þetta skipti leyfði ég mér þann munað að taka þátt, bæði í febrúar (16.2) og mars (16.3). Hljóp (5 km) á 20:55 í fyrra skiptið og 20:58 í seinna skiptið, sem var svo sem alveg í takti við árangurinn í Hafnarfirði. Seinna hlaupið er ógleymanlegt því að þá gáfu hlaupafélagarnir mér í afmælisgjöf að fjölmenna sem aldrei fyrr. Alls tóku 77 manns þátt í þessu hlaupi, en mesta þátttaka fram að því voru 33 stykki. Það er ómetanlegt að eiga svona félaga!
Enn er ónefnt 10 km Poweradehlaup 9. mars. Því lauk ég á 43:44 mín, sem getur engan veginn talist góður tími. Brautin var reyndar óvenjuslæm vegna gatnaframkvæmda. Og ég bjóst svo sem ekki við neinu meiru. Poweradehlaupin eru alltaf góðra vina fundir - og það er fyrir mestu!
Ég sleppti bæði Víðavangshlaupi ÍR og Vormaraþoni FM þetta árið enda enn hundslappur eftir veikindi sem herjuðu á mig um páskana. Sjöunda hlaup árins var því Icelandair-hlaupið (7 km) 4. maí, 8. árið í röð, í vestan golu, sól og 14 stiga hita. Lauk þessu hlaupi á 29:27 mín og um kvöldið skrifaði ég þetta: „Vonaðist til að vera ekki á PW (>29:34) en taldi allt umfram það vera í plús. Leit aldrei á klukkuna og leið vel allan tímann".Þetta var allt í samræmi við raunsæjar væntingar og dugði auk heldur til sigurs í flokki 60 ára og eldri. Og í töflunni hér til hliðar má sjá árangur minn í öllum Icelandairhlaupum sem ég hef tekið þátt í. Þarna er engin stórvægileg sveifla.
Keppnishlaup nr. 8 var Hvítasunnuhlaup Hauka 5. júní. Nokkrum dögum áður hafði ég tognað í nára á leiðinni niður Hafnarfjallið. Var frekar slæmur daginn fyrir hlaup en góður um morguninn og ákvað að vera með af því að Hvítasunnuhlaupið er alltaf svo skemmtilegt. Valdi stystu vegalengdina (sem ég geri annars aldrei) (14 km), fór að öllu með gát (nema kannski í blálokin) og kláraði hlaupið á 1:10:14 klst. sem var miklu betra en ég hafði þorað að vona. „Leið stórvel allan tímann og sól skein í heiði. Eitt af notalegustu hlaupum ævinnar", svo vitnað sé í samtímaheimildir. Og svo fékk ég hlaupaskó í útdráttarverðlaun að hlaupi loknu og hef ekki fundið fyrir tognuninni síðan!
Miðnæturhlaup Suzuki var 9. hlaup ársins. Þá var ég orðinn alheill en átti enn langt í land í æfingunum. Taldi mig í besta falli geta hlaupið á 1:35 klst. og var svo sem nálægt því, þ.e. á 1:35:56 - og nokkuð langt á undan næsta sextuga karli. Tíunda hlaupið var svo Laugavegurinn með axlarbroti en furðu góðum árangri. Þá reynslu hef ég tíundað í löngu bloggi. Þar var ég líka fyrsti sextugi karlinn, 38 mín. á undan næsta manni í aldursflokknum.
Flandrarar í Icelandairhlaupinu.Eftir Laugaveginn hafði ég hægt um mig í hlaupunum, enda ekki aðrir kostir í stöðunni. Lét mér nægja að horfa á Gittu mína og alla hina hlauparana í fyrsta Dyrfjallahlaupinu 22. júlí - og svo naut ég lífsins með Björk og skyldmennum í gönguferðum fyrir austan, með fatlann. Mætti svo óæfður í hálft maraþon í RM 19. ágúst. Það gekk furðu vel. Hljóp fyrstu 10 km á 44:53 mín og næstu 10 líka á 44:53 mín.Hraðinn var sem sagt býsna jafn alla leið, lokatíminn var 1:34:30 klst. og ég vann aldursflokkinn. Ég var óvenju heppinn með aldursflokk þetta árið! Þetta var framar vonum og líklega ekkert útilokað að ég gæti hlaupið gott Þriggjalandamaraþon um haustið. Þarna voru enn 7 vikur til stefnu.
Tólfta hlaupið var Hreppslaugarhlaupið (14,2 km) 31. ágúst. Kom þangað beint af fundi á Hvolsvelli og þurfti að hlaupa nánast beint út úr bílnum. En það gerði ekkert til, þetta átti bara að vera góð æfing. Vildi helst ná að halda aðeins meiri hraða en í RM, sem þýddi að ég vildi vera undir 1:04 klst. Það gekk eftir, lokatíminn var 1:03:19 klst. og engir á undan mér nema uppáhaldshlaupafélagarnir Birkir og Gunnar Viðar. Þetta var bara stórskemmtilegt.
Í september reyndi ég af fremsta megni að byggja upp getu fyrir Þriggjalandamaraþonið, en ætlaði mér reyndar aðeins um of eins og fyrr segir. Mætti í Flensborgarhlaupið (10 km) 19. september þrátt fyrir að hafa tekið frekar stífa hraðaæfingu daginn áður. Ég veit svo sem alveg að það má ekki, en skynsemin ræður ekki alltaf. Mér gekk alveg þokkalega í þessu hlaupi, hljóp á 42:47 mín sem var svipað og ég bjóst við. En þegar 300 m voru eftir tognaði ég í vinstra læri. Það var rökrétt en ekki að sama skapi ánægjulegt.Keppnistímabili ársins lauk í Þriggjalandamaraþoninu í Bregenz sunnudaginn 7. október. Hljóp þar fyrst létt 4 km keppnishlaup daginn áður, svona til að athuga hvort ég gæti yfirleitt hlaupið eitthvað svona tognaður. Tíminn í því hlaupi var 18:27 mín og lærið var alveg til friðs.Blóðugur í framan með brotna öxl í markinu í Laugavegshlaupinu.
Ákvað þá að halda mínu striki með maraþonið og lauk því á 3:25:31 klst. án vandræða. Auðvitað vildi ég gera betur, en það eitt að geta klárað hlaupið var miklu meira en ég hafði þorað að vona. Viku fyrr hafði ég ekki getað hlaupið svo mikið sem eitt skref. Um þessa reynslu má sem fyrr segir lesa eitthvað í pistli á hlaup.is.
Fátt kemur á óvart núorðið
Eins og sést á keppnishlaupafrásögnunum hér að framan kom fátt á óvart þetta árið. Kannski er það ein af neikvæðum aukaverkunum reynslunnar. Maður veit orðið nokkurn veginn hvar maður stendur og því eru tímar óvæntra atburða að mestu liðnir. Tímar í keppnishlaupum eru hættir að vera miklu betri en maður bjóst við og þeir eru líka hættir að vera miklu verri en maður bjóst við, nema ef einhver stór skakkaföll setja strik í reikninginn. Þetta er frekar spurning um nokkrar sekúndur til eða frá, eða í mesta lagi örfáar mínútur í lengstu hlaupunum.
Málið snýst kannski um 3% frávik að hámarki. Og til að gera þetta enn fyrirséðara tók ég mjólkursýrupróf að gamni mínu á liðnu vori (nánar tiltekið 20. apríl), já eða laktatþröskuldspróf eins og ég kýs frekar að kalla það. Með svona prófi getur maður fundið út með sæmilegri nákvæmni hversu hratt maður getur hlaupið í langan tíma án þess að efnarafalar vöðvanna hætti að hafa undan og laktat taki að safnast upp í stað þess að brotna niður jafnóðum. Með „löngum tíma" er hér átt við einn til einn og hálfan klukkutíma, eða u.þ.b. 14 km til hálft maraþon í mínu tilviki. Niðurstaðan var sú að ég ætti að geta haldið út í „langan tíma" á hraðanum 4:33 mín/km (13,2 km/klst) og með púlsinn í 156 slögum/mín. Hraðinn minn í þeim tveimur hálfmaraþonhlaupum sem ég tók þátt í á liðnu sumri var 4:33 og 4:29 mín/km og í Hreppslaugarhlaupinu var hann 4:28 mín/km. Allt er þetta innan 2% skekkjumarka miðað við „mjólkursýruprófið"! Svo má bæta því við að ég tók aftur svona próf 1. desember. Það kom aðeins betur út og gaf til kynna að laktatþröskuldshraðinn væri 4:31 mín/km (13,3 km/klst) og laktatþröskuldspúlsinn 160 slög/mín. Stefni að því að endurtaka prófið 1. mars 2018 með betri niðurstöðum. Viljiði kannski að ég bloggi um það líka? Það er sko alveg hægt að hækka þennan þröskuld með réttum æfingum. Það eru engin geimvísindi!
Stærsti fjallvegahópur frá upphafi hlaupa frá Hrafhólum.FjallvegahlaupinEins og áður segir var útkoma fjallvegahlaupabókarinnar á 6-tugsafmælisdaginn minn stærsti viðburðurinn í hlaupaárinu mínu. Ég fylgdi bókinni eftir með nokkrum kynningum hér og þar um landið um sumarið og haustið og í tengslum við þetta efndi ég líka til fjallvegahlaups yfir Svínaskarð 20. maí í samvinnu við útgefendurna mína í Sölku. Þátttakan í þessu hlaupi fór fram úr björtustu vonum en alls voru 64 hlauparar með okkur þennan dag.Eftir að bókin var komin út var ég oft spurður hvað ég ætlaði að taka mér fyrir hendur næstu 10 ár. Þegar ég var nýbúinn að brjóta á mér öxlina fann ég að mig langaði til að halda áfram að hlaupa um fjallvegi, enda nóg til af þeim og óþarfi að gera sér upp einhvern frumleika.
Ætlunin er sem sagt að hlaupa 50 fjallvegi til viðbótar áður en ég verð 7-tugur. Fyrstu tveir fjallvegirnir í þessum pakka voru hlaupnir um sumarið, reyndar áður en ákvörðun um framhald var tekin. Fyrst hljóp ég yfir Sælingsdalsheiði úr Saurbæ í Dölum að Laugum í Sælingsdal og síðan yfir Bæjardalsheiði úr Reykhólasveit til Steingrímsfjarðar. Síðarnefnda hlaupið var jafnframt hluti af árlegu Hamingjuhlaupi í tengslum við Hamingjudaga á Hólmavík.
SkemmtihlaupinAð vanda stóð ég fyrir eða stuðlaði að þremur skemmtihlaupum á árinu, sem áttu það sameiginlegt að vera hvorki keppnishlaup né formleg fjallvegahlaup. Þar ber fyrst að nefna hinn árlega Háfslækjarhring sem jafnan er hlaupinn á uppstigningardag og endar með matarveislu sem Björk útbýr á meðan ég hleyp þennan 21 km hring með boðsgestunum. Nú var þetta hlaup þreytt í 8. sinn og hlaupararnir voru 16 talsins.Hin tvö skemmtihlaupin eru Þrístrendingur og Hamingjuhlaupið. Þrístrendingur er hugarfóstur okkar Dofra Hermannssonar, en móðir mín og afi hans voru systkini og ólust upp á Kleifum í Gilsfirði. Þaðan hlaupum við einu sinni á ári norður Steinadalsheiði til Kollafjarðar, yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf í Bitru og loks suður (eða vestur) Krossárdal að Kleifum, samtals um 41 km. Nú var þessi leið hlaupin í 8. sinn laugardaginn 17. júní.Hafmingju- og fjallvegahlaup yfir Bæjardalsheiði.
Þátttakendur voru með fæsta móti, en alls fóru 8 hlauparar einhvern hluta leiðarinnar, þar af þrír sem kláruðu allan hringinn. Hamingjuhlaupið fór svo fram í 9. sinn laugardaginn 1. júlí - og var fjallvegahlaup í leiðinni. Að þessu sinni var hlaupið yfir Bæjardalsheiði til Hólmavíkur og endað með tertuhlaðborði að vanda. Við villtumst reyndar aðeins á heiðinni, ekki vegna þess að veðrið hafi verið svona dimmt, heldur einfaldlega af aðgæsluleysi. Svoleiðis kemur stundum fyrir. Eitthvað seinkaði okkur fyrir bragðið, en annars kom þetta ekkert að sök.
Markmiðin 2018
Ef maður veit ekki hvert maður ætlar er hætt við að maður lendi einhvers staðar annars staðar. Þess vegna þarf maður að setja sér markmið, jafnt í hlaupum sem í öðrum viðfangsefnum lífsins. Annars gerist ekki neitt!
Mörg síðustu ár hef ég sett mér fimm hlaupamarkmið í upphafi árs. Stundum hef ég einfaldað málið með því að endurnota þau markmið síðasta árs sem ekki náðust. Þannig hef ég t.d. stefnt að því tvö síðustu ár að bæta mig í 5 km götuhlaupi (undir 19:39 mín). Þetta er ágætis markmið en ég ætla samt ekki að nota það oftar i bili. Það passar nefnilega ekki inn í innréttingu ársins 2018, sem á að verða „ár hinna löngu hlaupa". Nú er komið að því að takast á við eins og eitt ofurmaraþon í útlöndum, nánar tiltekið Ultravasan-90, þar sem hlaupin er sama leið og gengin er í hinni margfrægu Vasagöngu, frá Sälen til Mora í Dölunum í Svíþjóð. Þetta á að gerast 18. ágúst 2018.
En markmiðin fimm eru sem sagt eftirtalin:
- 90 km ofurhlaup í Svíþjóð
- Þrjú maraþon
- A.m.k. 5 fjallvegahlaup
- A.m.k. 28 styrktaræfingar frá áramótum til aprílloka
- Gleðin með í för í öllum hlaupum (endurnotað og sígilt)
- Já, og svo getur vel verið að ég bæti mig í 5 km hlaupi, eða einhverju öðru, þó að það sé ekkert markmið í sjálfu sér.
Lokaorð
Ekkert er sjálfsagt í þessum heimi - og alls ekki það að geta unað sér við áhugamál sem gefur manni jafnmikla andlega, líkamlega og félagslega vellíðan og hlaupin gefa mér. Þess vegna er lokaorð þessa pistils aðeins eitt: Takk!
Myndir: Torfi H. Leifsson, Hlaup.is, Etienne Menétrey, Þorkell Stefánsson, Alphafoto, Ragnhildur Aðalsteinsdóttir, Pascale Dengis og Guðmundur Sigurbjörnsson.