Annað veifið lendi ég á tali við fólk sem er að velta fyrir sér kostum þess og göllum að hjón (eða bara sambýlisfólk almennt) séu bæði hlauparar. Ég er nokkuð viss um að þetta er ein þeirra spurninga sem á sér ekkert eitt rétt svar, nema þá kannski svarið að „bæði sé betra“. Sjálfur hef ég einkar góða reynslu af því að vera eini hlauparinn í hjónabandinu. Það hefur t.d. mjög oft komið sér mjög vel þegar ég hef þurft að láta skutla mér á upphafsstað fjallvegahlaupa og sækja mig á endapunktinn. Konan mín hefur sagt að eftir alla þá lífsreynslu sé hún komin með doktorsgráðu í að bíða, enda eiga fjallvegahlaup það til að taka lengri tíma en ætlað er í fyrstu. Ég hef líka góða reynslu af því að hafa einhvern mér nákominn til að hirða mig upp á marklínu í utanvegahlaupi (les: Henglinum), úrvinda og ofkældan, og koma mér í langt, heitt bað, sem ég hefði trúlega aldrei ratað í sjálfur. En svo hef ég líka stundum öfundað hlaupara sem hafa makann alltaf sem æfingafélaga. Æfingafélagar hafa oft verið skortvara í löngu hlaupalífi mínu.
Fyrsta íslenska þrímúraraparið
Eina íslenska hlauparaparið þar sem bæði hafa hlaupið maraþon undir 3 klst. í formlegri keppni eru Akureyringarnir Anna Berglind Pálmadóttir og Helgi Rúnar Pálsson. Þessum árangri náðu þau meira að segja í einu og sama hlaupinu, þ.e.a.s. í Frankfurtmaraþoninu í október 2019, þar sem Helgi hljóp á 2:58:57 klst. og Anna Berglind á 2:59:18 klst. Reyndar er Anna Berglind búin að bæta um betur síðan (2:55:16 klst. í Valencia í desember 2023), (allt flögutímar). Elín Edda Sigurðardóttir (2:44:48 klst., líka í Frankfurt 2019) og Vilhjálmur Þór Svansson (2:58:38 klst. 2021) hafa reyndar líka bæði hlaupið undir 3 klst., en tími Vilhjálms náðist ekki í formlega viðurkenndu keppnishlaupi.
Önnur íslensk hlauparapör
Íslensku hlauparapörin eru auðvitað miklu fleiri en þau sem hér hafa verið nefnd. Það væri reyndar mjög sérstakt ef hlauparapör væru vandfundin, því að íslenska hlaupasamfélagið er ótrúlega stórt miðað við íbúafjöldann í landinu. Sem dæmi um umfangið má nefna að á styrkleikalista ITRA (Alþjóðautanvegahlaupasambandsins) voru hvorki meira né minna en 7.394 íslenskir hlauparar um nýliðin áramót, þar af 4.546 karlar og 2.848 konur samkvæmt lauslegri talningu. Í þessum stóra hópi hljóta að finnast nokkur hundruð pör, þ.m.t. ótilgreindur fjöldi para sem hafa kynnst á hlaupum.
Þekkt erlend hlauparapör
Við gerð þessarar samantektar var ekki ráðist í skipulega leit að heimsins sterkustu hlauparapörum, en nokkur pör er þó frekar auðvelt að nefna án mikilla rannsókna. Eitt af þekktustu pörunum eru vafalítið hin bandarísku Kara og Adam Goucher. Adam var vel þekktur brautarhlaupari í byrjun aldarinnar og keppti m.a. í 5.000 m hlaupi á Ólympíuleikunum í Sidney árið 2000. Kara vann silfur í 10.000 m hlaupi á HM 2007, keppti í 5.000 og 10.000 m hlaupi á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og í maraþoni (2:26:07 klst.) á leikunum í London 2012.
Síðan þá hefur hún hlaupið ófá maraþon, þó að atvinnumannaferlinum hafi lokið 2016. Kara er enn mjög virk í hlaupasamfélaginu, bæði sem hlaupari, höfundur metsölubókar og „hlaðvarpari“. Svo er varla annað hægt en minnast líka á Tirunesh Dibaba og Sileshi Sihine frá Eþíópíu. Hún á þrjú gull og þrjú brons frá fernum Ólympíuleikum (2004-2016) og hann á tvö Ólympíusilfur og tíma upp á 26:39,69 mín í 10.000 m brautarhlaupi.
Scott Jurek var um tíma vafalítið þekktasti utanvegahlaupari heims og vann m.a. 100 mílna hlaupið Western States sjö sinnum alls. Konan hans, Jenny Jurek, hefur líka hlaupið fjöldann allan af ofurhlaupum, þ.m.t. a.m.k. tvö 100 mílna hlaup. Þau sóma sér því vel á listanum yfir þekkt hlauparapör.
Og ef við lítum okkur nær í tíma liggur beint við að nefna Bretann Jonathan Albon, sem er þessa stundina fimmti besti utanvegahlaupari heims skv. stigalista ITRA (938 ITRA-stig). Jon býr í Noregi með eiginkonunni Henriette Albon sem er líka atvinnumanneskja í utanvegahlaupum og er sem stendur sjöunda sterkasta utanvegahlaupakona Noregs (skv. ITRA), með 731 ITRA-stig.
Öflugasta og um leið þekktasta parið í utanvegahlaupaheiminum eru þó vafalítið Kilian Jornet og Emilie Forsberg í Rauma í Noregi. Kilian, sem er katalónskur að uppruna, er af mörgum talin besti utanvega- og fjallahlaupari allra tíma, enda þótt hann sé „bara“ í 3. sæti á heimslista ITRA í andránni (942 stig). Kilian hefur stundað fjallaklifur, fjallaskíðamennsku og utanvegahlaup frá barnsaldri, lengst af sem atvinnumaður. Frá því í ársbyrjun 2007 hefur hann hlaupið 95 ITRA-hlaup og þar af komið 80 sinnum fyrstur í mark. Við þetta bætast svo ýmis ótrúleg afrek í fjallaklifri og fjallaskíðamennsku, þ.m.t. tvær göngur á Everest með 5 daga millibili í maí 2017. Emilie er nr. 5 á ITRA-listanum í Svíþjóð (748 stig) og á afrekaskránni hennar má finna 64 ITRA-hlaup á árunum 2012-2023. Af þessum hlaupum hefur hún unnið 28, þ.á m. Transvulcania 73 km tvisvar.
Hvernig hafa þau tíma í þetta?
Oft hef ég dáðst að sambýlisfólki sem bæði eru hlauparar, en eru samt bæði í krefjandi vinnu og eiga auk þess fleiri eða færri ung börn sem þarf að sinna. Þá vaknar oft spurningin hvernig í ósköpunum þau hafi bæði tíma í langar hlaupaæfingar. En kannski er það ekkert flókið. Flestir hafa eitthvert pláss fyrir áhugamál í lífinu – og ef áhugamálin eru álíka tímafrek skiptir ekki öllu máli hvort þau heita hlaup eða eitthvað annað.
Umönnun barna getur hins vegar torveldað pari að fara saman á hlaupaæfingu. Í sumum tilvikum er kannski hægt að haga málum þannig að annað hlaupi snemma morguns og hitt taki morgunvaktina heima – og svo sé skipt um hlutverk eftir vinnu þegar börnin eru komin heim úr skóla eða leikskóla. Fólk flest finnur eflaust sínar leiðir til að láta dagsskipulagið ganga upp með öllum sínum skyldum og viðfangsefnum, hvort sem viðfangsefnin heita hlaup eða eitthvað annað.
Rannsóknir á kostum og göllum
Hér hefði verið gaman að vitna í niðurstöður vísindarannsókna á kostum þess og göllum að pör eigi hlaup sem sameiginlegt áhugamál. Fljótt á litið liggja hins vegar fáar slíkar rannsóknir fyrir, enda rannsóknarspurningin frekar víð og afslepp. Hins vegar hafa margir skrifað um pör á hlaupum á undan mér. Í þeim skrifum hefur m.a. verið bent á að sameiginleg hlaupaástundun sé líkleg til að styrkja sambandið og að því fylgi margir kostir að geta alltaf borið sig saman við einhvern sem þekkir styrkleika manns og veikleika sem hlaupara í mestu smáatriðum. Svo hefur líka verið bent á að ef bara annar aðilinn er hlaupari sé hætta á að viðkomandi taki hlaupin og hlaupafélagana smám saman fram yfir makann og fjölskylduna – og að hlaupin geti þá orðið að einhvers konar hliðarveruleika sem óþarflega þægilegt sé að dvelja í þegar á móti blæs í aðalveruleikanum.
Á móti má færa rök fyrir því að ef áhugamálin eru ólík sé líklegt að heildin verði sterkari, vegna þess að þannig öðlist fólk ólíka reynslu og geti nýtt þann fjölbreytileika til að finna betri lausnir en ella á ýmsum vandamálum sem upp koma. Auk heldur sé gott að hvor aðili um sig geti átt sínar eigin gæðastundir þar sem stigið er út úr hversdeginum. Flestir hlauparar kannast jú væntanlega við hversdagsleg vandamál sem virðast stór þegar lagt er af stað í æfingu dagsins en eru orðin miklu minni og viðráðanlegri þegar æfingunni er lokið.
Þrjár sneiðar
Mér var einu sinni kennt að í vökutíma hverrar manneskju þurfi að vera þrjár sneiðar, þ.e.a.s. „vinnan“, „fjölskyldan“ og „ég“. Þessar sneiðar þurfi ekkert endilega að vera jafnstórar í klukkutímum talið, en þær þurfi allar að vera til staðar og hafa álíka mikið vægi. Ef eina sneiðina vanti, verði hinar tvær bragðlausar. Hlaup kunna að virðast eigingjarnt áhugamál, en í lífi sumra eru þau kannski einmitt „ég“-sneiðin sem öllum er fyrir bestu að ekki vanti, þ.e.a.s. sneiðin sem er forsenda þess að hinar sneiðarnar haldi bragðgæðum sínum. Hvort að makinn eigi sams konar „ég“-sneið er að öllum líkindum algjört aukaatriði. Það eina sem þarf að varast er að „ég“-sneiðin, hvers eðlis sem hún er, verði annað hvort of þykk eða of þunn.
Heimildir og lesefni (m.a.):
- George Ramsay (2023): Jon Albon is one of the world’s top endurance athletes. He’s built a career with his ‘own philosophies and own system’. CNN, 21. mars 2023. https://edition.cnn.com/2023/01/19/sport/jon-albon-running-spt-intl/index.html.
- ITRA (International Trail Running Association) (2024): Ranking. https://itra.run/Runners/RankingRunner.
- Instagramsíður Emelie Forsberg, Kilian Jornet o.fl.
- Katie Campbell Spyrka (2020): Meet the power couples of ultrarunning. RedBull, 13. feb. 2020. https://www.redbull.com/gb-en/ultrarunning-power-couples-experiences.
- Kilian Jornet (á.á.): Kilian Jornet. https://www.kilianjornet.cat/en.
- Runner‘s World (2014): Nine Super-Fast Running Couples. https://www.runnersworld.com/runners-stories/g20827403/nine-super-fast-running-couples.
- World Athletics (2024): All Time Top Lists. https://worldathletics.org/records/all-time-toplists.
- Wikipedia o.m.fl.