Frásögn Viktors Arnar Ingólfssonar
Ég hafði mjög gaman af að lesa frásögn Guðrúnar Geirsdóttur í Söguhorninu. Þetta er nefnilega hin hliðin á sögu sem ég hef oft sagt um reynslu mína í maraþonhlaupi en hún hljóðar svo. Í RM 1999 hljóp ég heilt M í fyrsta sinn. Þegar ég var á leið eftir Suðurströndinni í seinni hring heyrði ég eitthvað skvaldur fyrir aftan mig nálgast hratt. Ég hugsaði að það væri best að víkja því það væru greinilega einhverjar konur að koma hjólandi fyrir aftan mig. Það reyndist ekki vera, þetta voru tvær kraftmiklar konur að hlaupa seinni hring eins og ég. Þær heilsuðu og kynntu sig og sögðust vera úr Seltjarnarneshópnum að hlaupa sitt fyrsta M. Þær voru á góðum hraða svo ég ákvað að hanga í þeim og stinga svo af þegar þær mundu sprengja sig á þessu kjaftæði. Fylgdarkona á hjóli aðstoðaði líka við halda uppi samræðunum. Ég fylgdi þeim eftir næstu 10 k en á Kleppsveginum heyrði ég skvaldrið fjalægjast framundan. Þetta voru þær Guðrún Geirsdóttir og Elísabet Jóna Sólbergsdóttir og ég sá þær ekki aftur fyrr en í markinu en þær voru þá löngu komnar í mark. Þegar ég fór að gera upp millitímana mín sá ég að þessir 10 k sem ég fylgdi þeim eftir voru þeir hröðustu sem ég hljóp í þessu hlaupi svo ég átti árangurinn þeim að þakka.
Ég hitti þær stöllur aftur nú í RM 2001 en þá voru þær þögular og einbeittar eins og Guðrún lýsir. Nú var það ég sem seig framúr. Svona gengur þetta á ýmsa vegu. Ég hvet fleiri til að skrifa svona sögur og það þurfa alls ekki að vera hröðustu hlaupararnir. Við hin getum líka skemmt okkur við þetta.