Að loknu Reykjavíkurmaraþoni 2001 verð ég að segja að ég er að ýmsu leyti í betra skapi en í fyrra. Ég vann svo sem engin stór afrek, hljóp hálft maraþon á léttu róli eftir að júlí og ágúst fóru að mestu leyti farið í vaskinn æfingalega séð ásamt því að bólga hljóp í hægri kálfann sem hvarf ekki fyrr en fyrir rúmri viku síðan. All reyndist komið í lag í löppunum og því er ég ánægður með niðurstöðuna fyrir minn part miðað við hvernig allt var í pottinn búið. Ég er líka ánægður með breytinguna á hlaupaleiðinni fyrir hálft maraþon. Það að loka Sæbrautinni og Kleppsveginum og nota báðar akreinarnar er góð lending, maður er í góðu sambandi við hlaupara sem eru á undan og eftir manni. Félagsskapurinn gefur hlaupinu aukið gildi.
Það sem ég heyrði frá þeim sem hlupu heilt maraþon var einnig jákvætt hvað breytingar á hlaupaleiðinni varðaði. Andlega séð töldu þeir þetta miklu betri leið heldur en að þrælast tvöfaldan hring. Munurinn á því að þrælast Kleppsvegsbrekkuna á 32 - 35 km eða að hlaupa út Ægissíðuna er mikill. Ég heyrði reyndar minnst á að stígarnir hefðu ekki allstaðar verið notaðir eins og mögulegt var eins og Viktor bendir á. Úr því verður að bæta á næsta ári. Fyrirkomulagið á ræsingunni var betra heldur en í fyrra. Bæði var það betra að ræsa maraþonhlauparana fyrr en aðra þannig að þeir komi í mark í bland við aðra en ekki þegar allt annað væri búið (þeir sem ekki eru í fremstu víglínu)og síðan er skokkurum annars vegar og 10 km og 1/2 maraþonurum hins vegar haldið aðskildum (framför). Núna var nóg af banönum við markið og orkudrykkir og kók en ekki óætt kex og blávatn eins og í fyrra (framför). Það er hins vegar spurning þegar lítur út fyrir rigningu hvort ekki eigi að vera til staðar heit súpa sem hægt sé að gefa maraþon og hálfmaraþonurum af því menn geta verið ansi kaldir og máttfarnir þegar í mark er komið ef viðrar illa. Það má ekki gleyma því að maður borgar veruleg þáttökugjöld til hlaupsins. Sem sagt framför á ýmsum sviðum.
Að lokum var gaman að sjá ýmsa ná mjög góðum tíma og aðra að bæta sig verulega. Það má ekki gleyma því að það að hlaupa maraþon er þrekraun og sigrarnir í því geta verið margskonar og einstaklingsbundnir, enda þótt það verði ekki allir fyrstir.
Þá kemur að öðru. Mér kemur ekki á óvart að rugl hafi komið upp með tímasetningu o.fl. eins og undirbúningurinn var. Ég var búinn að benda oftar en einu sinni á það hér á síðunni að upplýsingar voru í skötulíki á vefnum fram til viku fyrir hlaup. Enn stendur gamla kortið inni ef skoðaðar eru upplýsingar á ensku hlið vefsins, en tímasetningarnar eru komnar í lag. Erlendir aðilar afla sér fyrst og fremst upplýsinga á netinu. Síðan tókst ekki betur til en svo að upplýsingum um tímasetningu sem settar voru í blaðið sem maður fékk í umslaginu ber ekki saman í því. Sjá bls. 3 og bls. 6. Skoðið þetta sjálf. Þetta er náttúrulega ekkert annað en amatörháttur og þarna á að draga einhvern til ábyrgðar. Þetta verður einfaldlega að vera í lagi. Ég hef það beint frá starfsfólki sem vann við ráslínu að einir 5 erlendir maraþonhlauparar hefðu mætt til leiks vitandi ekki annað en að þonið byrjaði kl. 12.00. Þeir hlupu síðan af stað og tíminn á klukku í rásmarki var síðan leiðréttur með hliðsjón af þessu. Sama er, þetta er ófyrirgefanlegt. Mér kæmi ekki á óvart að fleiri en einn hafi mætt í pastaveisluna í Skautahöllinni sem auglýst var á vefnum þar til nokkrum dögum fyrir hlaup.
Það heyrðist síðan að Kenyabúinn sem hljóp 1/2 maraþon hefði verið svo fljótur í förum að það hefði ekki verið kominn vörður vestur á Seltjarnarnes til að vísa honum veginn þvert yfir nesið, þannig að hann hljóp maraþonleiðina út fyrir golfvöllinn en náði engu að síður 2. sæti í hlaupinu. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti. Samkvæmt frásögnum starfsfólks komu margir foreldrar að máli við það orðlausir eftir framkomu bílstjóra við börnin. Mildi má telja að ekki verða slys við aðstæður sem þessar þegar bílum er svínað inn í hlaupahópa og krækt á milli manna (barna) sem koma hlaupandi. Það verður bara að ganga út frá þeirri staðreynd að tölverður þeirra sem hafa ökuskírteini á Íslandi eru slíkir vitleysingar að þeim er ekki treystandi við aðstæður sem þessar. Því verður einfaldlega að loka þeim götum sem hlaupið er um, þetta er nú ekki svo langur tími. Yfirvöld borgarinnar verða að axla þá ábyrgð sem þeim ber í þessu máli. Við næsta RM verður langt til borgarstjórnarkosninga þannig að þar þarf ekki að taka mið af þeim þó einhver verði fúll. Lögreglan stóð sig hins vegar vel, var nokkuð sýnileg og tók í lurginn á þeim sem hún hafði tök á enda oft ástæða til.
Hvað varðar framkvæmd hlaupsins og söfnum reynslu frá þeim sem vinna við það, þá hef ég það eftir þeim sem hafa starfað lengi við framkvæmd hlaupsins (í rásmarki, við brautarvörslu o.fl.) að hópstjórar séu ekki kallaðir inn til skrafs um hvað betur hafi mátt fara til að læra af reynslunni og nýta við framkæmd næsta árs. Það má greinilega bæta eitt og annað, bæði hjá framkvæmdaaðilum, kynningarmálum og borgaryfirvöldum. Ég vil taka fram að þessar hugleiðingar eru ekki settar fram í neinum niðurrifs- eða nöldurtón, heldur til að tína til það sem mér sýnist að betur megi fara því maður vill hafa framkvæmd viðburðar eins og RM eins góða og mögulegt er. Þetta er nú einu sinni verulegur viðburður, bæði uppskeruhátíð innlendra hlaupara (og miðaldra skokkara eins og mín) og síðan er ætíð stefnt að því að fjölga erlendum hlaupurum. Til að það takist verður meðal annars umfjöllun um hlaupið á erlendum hlaupaspjallrásum að vera jákvæð en ekki frásagnir af klúðri og umferðarkaos.
Þetta er að lokum svolítið fyndið með konuna sem var rúmlega einn og hálfan tíma að hlaupa 10 km en er síðan dregin á pall og afhent verðlaun fyrir góðan árangur í 1/2 maraþoni. Skyldi hún ekki hafa orðið hissa?