Reykjavíkurmaraþon 2001 tókst að flestu leyti mjög vel. Nýja 42,2 k brautin er fín og veðrið hélst þokkalegt. Nú þegar ég er að slá þetta inn og hlusta á regnið og rokið dynja á þakinu þakka ég fyrir að hlaupið hefur verið fært af sunnudegi á laugardag. En það er best að byrja á þrasinu svo það sé búið. Umferðarmálin eru alls ekki í lagi þrátt fyrir talsverðar breytingar. Það var ótrúlegt hvað brautarvörðunum tókst með harðfylgi að opna manni leið í gegnum sum gatnamótin en ég er viss um að þeir hafa marga söguna að segja í samskiptum sínum við Reykvíska ökumenn. Starfsfólkið við brautina, verðirnir og drykkjarfólkið á mikið hrós skilið. Eins hjálparsveitarfólkið sem var mætt og spurði hvort eitthvað væri að ef maður svo mikið sem snýtti sér. En umferðin! Ég ber mig svo sem ekkert illa undan því að standa í þessum slag við Reykvíska ökumenn því maður þekkir sitt heimafólk. En mér finnst grátlegt að við séum að bjóða 144 útlendingum hingað til að hlaupa heilt maraþon og setjum þá hreinlega í stórhættu á götum Reykavíkur.
Fyrsti hluti leiðarinnar í kringum Nesið er vel þekktur. Mér fannst reyndar ónæðið af umferðinni meira en venjulega og er það sennilega vegna þess að undanfarin ár hefur hópurinn verið svo stór þegar allir hlaupa saman að ökumenn hafa dregið sig í hlé. Nú var umferðin þarna talsvert hraðari en venjulega því hlauparahópurinn var smærri og dreifðari. En svo var komið á Sæbrautina og þannig vill maður hafa hlaupabraut. Engir bílar og það var mjög gaman að sjá fremstu menn koma á móti sér. Það er hrein unun að horfa á hlaupalagið hjá Keníastrákunum. Það lá við að maður stansaði til að horfa á eftir þeim. Mér finnst að það hefði mátt nýta Sæbrautina betur og hafa lengra í viðsnúninginn því brautin var hvort sem er lokuð, og þá sleppa lykkjunni út á Granda í lokin. Jæja, það var þægilegt að fá vindinn í bakið á leiðinni til baka.
Það var enginn brautarvörður við beygjuna suður Kringlumýrarbraut en hópurinn var samfelldur svo litlar líkur á villum. Ákveðinn brautarvörður hjálpaði manni yfir Borgartúnið en það kom mér mikið á óvart að bláu brautarörvarnar lágu eftir akbrautinni á Kringlumýrarbraut en ekki á gangstéttinni við hliðina! Hlaupararnir færðu sig reyndar fljótlega flestir upp á gangstétt þegar hröð umferðin gekk fram af þeim. Það var fínt að komast á gangstíginn meðfram Suðurlandsbraut en dálítið erfitt að komast yfir Reykjaveg. Við Álfheima lá brautin út á Suðurlandsbrautina!!!?? á móti mikill umferð þegar það hefði verið svo einfalt að taka smá beygju bak við Olís-stöðina og hlaupa eftir fínum stíg alveg út að göngubrúnni. Þegar búið er að taka þá ákvörðun að nýta stígana í borginni þá verður að gera það til fullnustu. Eftir göngubrúna tók við gamalkunnug leið sem maður er búinn að hlaupa þúsund sinnum.
Elliðaárdalurinn og svo Fossvogurinn með vindinn í bakið. Brekkurnar upp úr Fossvogi og við kirkjugarðinn þekkti maður vel og þær tóku lítið í. Þegar komið var eftir Ægisíðunni að Hofsvallagötu tóku við enn ein furðulegheitin í brautinn. Í stað þess að halda áfram eftir gangstéttinni lágu brautarörvarnar út á götu!? Og ökumenn sem áttu leið um Nesveginn á þessum tíma voru margir að flýta sér og skildu ekkert í því að skokkarar væru að þvælast á miðri götunni. Ég færði mig fljótlega upp á gangstéttina og fór ekki út á götuna aftur fyrr en við Hagkaup þar sem gangstéttin hafði verið grafin burt. Neshringurinn er fínn og ekkert af umferð að segja fyrr en í lykkjunni út á Granda. Það hefði verið gott að geta sleppt henni eins og áður sagði. Það var hægt að hlaupa eftir gangstéttinni meðfram Mýrargötu en við Geirsgötu tóku ósköpin við. Umferðin var óskapleg. Óhugnanlega kjarkaður brautarvörður kom mér yfir á hægri akrein og þar reyndi maður að halda sínu innan um óþolinmóða ökumenn. Þegar maður er að ljúka síðasta kílómetra í heilu maraþoni má maður ekki við miklu áreiti svo adrenalínið fór að streyma. Jæja, markið var framundan og brátt var allt ergelsi að baki. Það má enn margt bæta í brautinni og vona ég að RM-fólk líti aðeins á ábendingar hlauparanna.
Fyrir nokkrum árum síðan kom ég að vinnu við endurnýjun reglugerðar fyrir umferðarmerki. Ég nýtti þá aðstöðu mína og kom inn í reglugerðina umferðarmerki sem varar ökumenn við að götuhlaup sé í gangi. Þetta merki má sjá á næst öftustu opnu í símaskránni. Það er appelsínugult að lit sem táknar að það sé skammtímamerking og er mjög áberandi. Það á að setja á stöng með aðvörunarmerki, önnur hætta, þ.e. upphrópunarmerki. Þetta merki hefur aldrei verið notað í Reykjavík. Nú ætla ég að skrifa borgarstjóra sem verndara RM bréf og fara fram á að embætti gatnamálastjóra verði falið að koma sér upp lager af svona merkjum til notkunar við götuhlaup í Reykjavík. Ég held að vinnuaðstaða brautarvarða við gatnamót geti batnað mikið ef hlaupaleiðin er merkt á þennan hátt.
Ég held að þessi braut sé hraðari en sú gamla og hún er miklu skemmtilegri. Ég heyrði að margir voru að bæta sig og aðrir voru ánægðir með tímana sína þrátt fyrir að veðrið hefði ekki verið eins og best varð á kosið. Guðmundur Karl Gíslason Ragnarssonar var á 2:54:35 og náði settu Boston lágmarki. Gísli faðir hans var á 3:33:32 en náði ekki sínu aldursflokkamarki fyrir Boston. Hann ætlar samt að senda inn umsókn og vonandi kemst hann inn. Ég hef heyrt Trausta Valdimarsson lýsa því hvað 3 klst. markmiðið hefur reynst honum erfitt en nú var hann á 2:59:03. Til hamingju Trausti.
Ég sjálfur uppgötvaði leyndardóm hægu upphafskílómetrana. Ég lenti í hremmingum í Laugaveginum fyrir mánuði og ég hef alltaf lent í basli í síðustu 10 km í heilu. Nú gerði ég samning við sjálfan mig um að ég mundi hlaupa fyrstu 8 til 10 km á 5:30 tempói eða hægar. Eftir það mátti ég hafa þetta eins og ég væri stemmdur til. Markmiðið var að hlaupa 5. maraþonið og ef mögulegt var bæta tímann minn um 4 sekúndur (Gunnar Geirsson NFR hefur átti 3 sekúndum betra en ég) Ég stóð við tímaplanið að mestu og tíminn í 10 var 53 mín. Þá byrjaði ég hægt að auka hraðann. Í lykkjunni á Sæbraut fannst mér reyndar afskaplega langt í nokkra jafningja mína en mér leið vel og smá saman tíndi ég þá upp sem á undan voru. Þegar ég kom að 32 km sá ég að ég hafði möguleika á að bæta mig mikið og ég fann ekkert fyrir óþægindum sem venjulega hafa komið upp á þessum tíma. Niðurstaðan var 3:40:47, bæting um 10 mínútur og ég er í sjöunda himni.
Það er leiðinlegt að heyra að rangar upplýsingar um upphafstíma hafi eyðilagt hlaupið fyrir erlendum gesti og það er klaufalegt að klúðra verðlaunaafhendingunni. Ég tek hins vegar ekki undir að það þurfi að skipta út framkvæmdastjórn RM. Þar er til mikil reynsla sem fái hafa. Þeir þurfa hins vegar að taka upp gæðastjórnun, huga vel að ábendingum hlaupara og reyna að gera betur næst.