Reykjavíkurmaraþon 2002 - Gunnlaugur A. Júlíusson

birt 01. febrúar 2004

Frásögn Gunnlaugs A. Júlíussonar

Þá er Reykjavíkurmaraþonið búið í þetta sinn og skilur það eftir sig margar endurminningar, flestar góðar að þessu sinni hjá undirrituðum að minnsta kosti. Af því maður hefur verið að tuða á liðnum árum finnst mér rétt að fara aðeins yfir það sem til framfara hefur þróast. Síðan er kannski annað sem benda má á að betur megi fara. Manni finnst að Reykjavíkurmaraþonið sé nokkurskonar uppskeruhátíð ársins og því eigi að gera kröfu til að þar gangi hlutir vel og snurðulaust fyrir sig.

Mér leist reyndar ekkert á blikuna þegar ég kom niður í Laugardalshöll á föstudagskvöldið. Biðraðirnar náðu langt út á bílaplan og maður vissi fyrst ekkert hvert maður átti að leita að umslaginu. Síðan kom í ljós að þeir maraþonhlauparar sem höfðu pantað á netinu en höfðu ekki greitt fengu afgreiðslu á stundinni þar sem þar var biðröðin engin. Þeir sem höfðu verið samviskusamari og pantað fyrir fram og greitt þurftu sumir að standa í hálftíma í biðröð en svo var skráningin ekki á staðnum. Þá þurfti að fara í aðra biðröð og skrá sig. Þessu lenti Eiður meðal annars í og einhverjir fleiri. Litli salurinn er greinilega alltof lítill fyrir allan þennan fjölda. Jói formaður frjálsa félagsins dreifði nýhönnuðum bolum sem eru mjög glæsilegir og hafa vakið verðskuldaða athygli á heimilinu meðal yngri kynslóðarinnar Síðan tók við spjall og handabönd í pastaveislunni og var hún öll hin ánægjulegasta.
Á laugardagsmorguninn var komið hið besta veður, sól og létt gola. Veðrið er alltaf happdrætti hérlendis og skiptir sköpum hvernig dagurinn verður. Í miðbænum var góð stemming og spenna í loftinu eins og ætíð rétt áður en lagt er í hann. Þar sem ég hafði verið heldur slakur við hlaup í sumar þá var planið að halda frekar aftur af sér til að lenda ekki í vandræðum heldur fara á ca 3.35 3.40 eða þar um kring. Ég hélt sjó framan af með Pétri Reimars og Karli Gísla og var það góður félagsskapur. Á tíu km var ég á rúmum 47 mín. Það minnti mig á að í fyrsta sinn sem ég hljóp 10 km í RM árið 1995 þá hljóp ég á rúmum 47 mínútum, sprengmóður og var með harðsperrur í viku á eftir.

Það gladdi hlaupahjartað að sjá ljósgrænklæddan hóp úr því frjálsa fyrir framan Seðlabankann með formanninn í broddi fylkingar og heyra hvatningarhrópin. Slíkt er ætíð vel þegið. Ég passaði mig á að drekka vel á öllum drykkjarstöðvum og gekk í gegnum þær allar, drakk hægt og tók gel. Enda þótt maður drægist aftur úr þeim sem hlaupið var með um 1 eitt til tvö hundruð metra þá skipti það ekki máli því yfirleitt var þeim náð aftur á næstu einum til tveim km. Ég er viss um að þetta skiptir mig miklu máli upp á seinni hluta hlaupsins, því ég svitna ætíð mjög mikið. Umferðarmálin voru í mjög góðu lagi það ég sá. Á hringtorginu við Þjóðminjasafnið og eins við JL húsið voru harðsvíraðir lögreglumenn sem sáu um að umferðin hlýddi en ekki unglingar á reiðhjólum eins og í fyrra við JL húsið. Á Kleppsveginum voru hliðargötur girtar af með harmonikugrindum þannig að allt var undir kontrol sem var mjög gott. Þessi breyting að loka Sæbrautinni og Kleppsveginum og hlaupa á móti hver öðrum kemur mjög vel út.

Á Kleppsveginum seig ég fram úr Pétri og Kalla en bráðlega komu Svanur og Vöggur og voru sprækir og fylgdi ég þeim næstu tíu km. Á hálfu var ég á 1.41 sem var betra en ég gerði ráð fyrir og sá nú fram möguleika á að ná betri tíma en ég hafði áætlað ef allt gengi upp. Þegar beygt var til vesturs fram hjá Víkingsheimilinu tók við norðan kaldinn í fangið og hélst hann þannig alla leið vestur á Gróttu. Kamarinn við Víkingsheimilið kom þægilega á óvart. Það mætti kannski merkja þá inn á hlaupakortið eins og drykkjarstöðvarnar svo fólk viti af þeim fyrirfram og þurfi ekki að hlaupa inn í runna eða húsagarða til að létta á sér. Við 25 km var ég á tveim tímum sléttum og hafði þá haldið nokkuð sama hraða frá upphafi. Svanur var orðinn þreyttur í Nauthólsvíkinni og seig aftur úr. Hann sagðist hafa vanmetið að taka nógu mikið gel en þar tók Vöggur aftur á móti á rás eins og hann hefði vindinn í bakið en ekki í fangið og sá ég hann ekki meir fyrr en í marki. Við Suðurgötuna var hálf hvasst eins og alltaf en það lagaðist heldur þegar maður komst upp að húshliðunum á í Vesturbænum. Í brekkunni við Eiðistorgið var vindurinn búinn að ganga ansi hart að mér þannig að þar voru lappirnar alveg orðnar tómar en mikið af orkudrykk á drykkjarstöðinni færði allt í gott lag aftur. Síðan komst maður fyrir vindinn og þá varð allt heldur léttara.

Mér fundust ökumenn í vesturbænum vera tillitssamir og bökkuðu sumir frá við gatnamót þegar maður nálgaðist til að vera ekki fyrir. Við hákarlaskúrinn náði ég Birgi Sveins og sagði hann sínar farir ekki sléttar. Hann hafði verið framarlega fram að 30 km en þá fékk hann sinadrátt í fæturna og fór nú hægt yfir og teygði á fótunum öðru hverju. Skömmu síðar kom Halldór Guðmundsson aftan að mér og var léttur í spori. Það hvatti mig til dáða og fylgdi ég honum alla leið í mark. Þess ber að geta að við höfum víxlast í úrslitaskráningunni, hann kom 13 sekúndum á undan mér í mark en ekki öfugt. Tíminn var mun betri en ég átti von á og sama var að segja um ástand fótanna. Allt var í himnalagi. Enda þótt ég hafi hlaupið frekar lítið í sumar þá þakka ég þetta góðum æfingum í vor, þær virðast endast lengur en ég átti von á. Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt. Veitingar í markinu voru góðar og nóg af öllu þannig að ekki þurfti að pirra sig á því eins og fyrir tveimur árum. Ég held samt sem áður af ef væri kalsi í veðrinu ætti að hafa tjald með heitri súpu í potti sem maraþon miðinn veitti aðgang að. Maraþonhlaup tekur ansi mikið innan úr manni eins og gefur að skilja.

Ruglingur í tímatökunni er náttúrulega stórmál eins og rætt hefur verið um og má telja að þeir hafi unnið afreksverk sem gátu greitt úr honum. Þetta átti sér meðal annars stað vegna þess að vegna bikarkeppni FRÍ var það fólk sem hefur langa reynslu af þessum málum margt upptekið við annað. Við þessu var búið að vara. Þetta er slíkt stórmál að þarna verður allt að vera í lagi og svona má ekki koma fyrir aftur ef hlaupið á að halda reisn sinni. Maður heyrði síðan um að strætó hefði verið ansi pirraðir yfir að geta ekki keyrt sína venjulegu leið í miðbænum en þeim hafði verið sagt að kl. 16.00 (frekar en 17.00) væri opnað. Á mínútunni sem átti að opna þrælaðist strætó þarna í gegn og keyrði yfir búkka í leiðinni. Það tók töluverðan tíma að losa þá í sundur. Þá sleit hann niður eitthvað annað þannig að enn tafðist hann. Fólkið í vagninum vissi víst ekki sitt rjúkandi ráð hvað gekk eiginlega á en strætóinn var miklu lengur á leiðinni heldur en hann hefði fari rólegar yfir og tekið tillit til þeirra aðstæðna sem þarna voru. Einnig má minnast á að þegar Jón G. Guðlaugsson kom í mark á frábærum tíma af 76 ára gömlum manni að vera, þá kom leigubíll samsíða honum í markið þrátt fyrir allar lokanir og viðbúnað. Svona er Ísland í dag og verður víst áfram.

Að lokum má geta þess til gamans að ég var um tveimur kg léttari á heimilisvoginni þegar heim var komið heldur en ég vigtaði um morguninn þrátt fyrir að hafa drukkið nokkra lítra af vatni í millitíðinni.
Það má kannski segja að það sé að bera í bakkafullan lækinn að skrifa svona um eigin upplifun af maraþonhlaupum en sama er. Það sem mér finnst sérstaklega spennandi við maraþonhlaupin er að þau byggja svo mikið á reynslu, markmiðssetningu, skipulagningu og ákveðinni hernaðaráætlun sem verður að ganga upp til að sett markmið náist. Maður hleypur sitt eigið hlaup og má ekki láta aðra rugla sig (sérstaklega framan af þegar sporin eru létt og allt auðvelt). Þetta er allt örðuvísi en í styttri hlaupum þar sem bara er látið vaða. Þetta var í heildina tekið góður hlaupadagur og verður spennandi að sjá hvernig til tekst næsta sumar þegar RM heldur upp á 20 ára afmælið.