Ef einhver hefði sagt mér þegar ég tók fyrst þátt í Reykjavíkurmaraþoni fyrir 4 árum síðan að ég ætti eftir að vinna heila maraþonið í þeirri keppni, hefði ég hlegið að viðkomandi. Nú fjórum áður síðar er ég hins vegar orðin svo forhertur hlaupari að sigurinn í Reykjavíkurmaraþoni var í mínum augum bara hálfur sigur þar sem mér tókst ekki að sigrast á því markmiði sem ég setti mér sem var að hlaupa á undir 3 klst. Það var nú samt sem áður skemmtileg lífsreynsla að hlaupa eftir Lækjargötunni við lófaklapp og fagnaðaróp og vera hetja í augum áhorfenda í nokkur augnablik.
Hlaupið byrjaði vel hjá mér, og þar sem stefnan var að hlaupa á sem næst þremur tímum var æskilegur ferðahraði 4:15 á km. Mér gekk vel að finna rétta tempóið og hélt því alveg fyrstu 15-16 km. Þar sem ég er nýflutt til Akureyrar þá þótti mér líka gaman að hlaupa um gamlar hlaupaslóðir og ekki spilli fyrir að fá svolitla hvatningu frá fyrrum starfsfélögum við Ægisíðuna og ég tala nú ekki um þegar hópur af nemendum og foreldrum beið við endann á Lindarbrautinni og hrópaði hvatningarorð til mín. Starfsmenn á hjólum voru líka duglegir að hvetja og bjóða drykk svo allt gekk þetta eins og í sögu.
Þegar fór að nálgast miðbikið fór hins vegar að síga aðeins á ógæfuhliðina hjá mér. Um það leyti sem ég beygði upp Kringlumýrarbrautina fór ég að fá ónotatilfinningu í magan, einhverskonar herping og vott af hlaupasting. Ég minntist þess að hafa stundum fengið svipaðan verk í hálfu maraþoni en þá hafði hann liðið hjá eftir svolitla stund, svo ég hélt því í þá von til að byrja með að hann hyrfi. En batinn lét bíða eftir sér og það leiddi til þess að ég dró aðeins úr ferðahraðanum, litlar lúmskar brekkur urðu líka tíðari og hægðu enn frekar á mér, svo á köflum var ferðahraðinn kominn í 5 mín. og nokkrir sprækir hlauparar sperrtu sig fram úr mér. Vissulega leiðinlegt að horfa á eftir þeim fram úr sér, en Íslendingarnir mega þó eiga það að ég held að enginn þeirra hafi farið fram úr mér án þess að kasta á mig kveðju og nokkrum uppörvunarorðum. Una (vinkona og hlaupafélagi í barnseignarfríi) beið eftir mér með drykk fyrir ofan brekkuna í Öskjuhlíðinni, sem hjálpaði mér óneitanlega upp hana, en magaverkurinn var svo slæmur að ég kom ekki niður nema nokkrum sopum. Vindurinn var nú beint í fangið, en ég var uppteknari af maganum en honum og lá á bæn um að magaverkurinn færi að yfirgefa mig. Hann var tregur til en var þó aðeins farinn að gefa sig þegar ég kom aftur úr á nes. Úti við Gróttu hljóp Ívar mig uppi og eins og sönnum herramanni sæmir bauð hann mér að hlaupa í skjóli af sér (við vorum reyndar akkúrat að beygja úr vindinum, en mér þótti boðið samt sem áður höfðinglegt). Hann hafði ákveðið kvöldið áður að fara heilt maraþon og var því ekki að stefna að neinum sérstökum tíma, en gerði það í staðinn að sínu takmarki að koma mér í mark á persónulegu meti. Hann hélt mér uppi á snatti það sem eftir var leiðarinnar, (m.a. áróðri fyrir þátttöku í íslandsmeistaramótinu 28. sept. sem mér fannst nú kannski ekki alveg við hæfi á þessum tímapunkti...) náði að keyra tempóið aðeins upp aftur og skila mér á leiðarenda á rúmlega mínútu betri tíma en á Mývatni fyrir tveimur árum.
Ég var gjörsamlega uppgefin eftir hlaupið, hlunkaði mér niður á borð við markið með kransinn utan um mittið (þetta er ekki mjög þægilegt hálstau) og sat þar þar til traustir félagar voru búnir að koma niðrí mig nokkrum glösum af vökva og mesta svimatilfinningin var liðin hjá. Ég átti nú alltaf von á að sjónvarpið kæmi til að mynda hræið og spyrja einhverra kjarngóðra spurninga eins og hvort þetta hafi verið erfitt, en ég var víst svo glær í gegn að þeir fundu mig ekki -eða kannski voru þeir bara einfaldlega farnir heim áður en ég hljóp í markið, enda Reykjavíkurmaraþon í þeirra augum fyrst og fremst uppskeruhátíð skokkara og lítt markvert ef brautarmetin falla ekki.