Ruskamaraton 10. september 2005 - Kristbjörn R. Sigurjónsson

birt 24. september 2005

Ísafjarðarbær er aðili að þróunar-og samstarfsverkefni í menningu, listum og íþróttum ásamt Skotlandi, Svíþjóð og Finnlandi. Þetta er gert með sérstökum stuðningi Evrópusambandsins, verkefnið heitir Usevenue.

Ísafjarðarbær fékk boð um að senda fulltrúa til að kynna sér aðstæður í Levi, bæ í Lapplandi, Finnlandi en þar búa u.þ.b. 400 manns. Undirritaður fór til að kynna sér maraþonhlaup, hitta mótshaldara og kynna Ísafjarðarbæ sem góðan og skemmtilegan valkost fyrir erlenda hlaupara. Það er nefnilega ótrúlega mikið til af fólki sem eltir upp hina ólíklegustu viðburði út um allan heim, við þurfum bara að hitta á það.

Ætlunin er að reyna að mynda mótaröð með Óshlíðarhlaupið sem okkar hlaup, hlaupið í Finnlandi (1500 manns), hlaup í Svíþjóð (1000 manns) og í Skotlandi (1000 manns). Þessi mótaröð myndi gera það að verkum að við fengjum aukinn áhugi erlendra gesta á Ísafjarðarbæ og ásamt því, vonandi, fleiri keppendur í Óshlíðarhlaupið. Þetta mál er í vinnslu hjá okkur og samstarfsaðilum. Við væntum þess að geta komið einhverju í gang fyrir næsta hlaupatímabil. Ef af yrði þá yrði það frábært fyrir ferðaþjónustuaðila hér í bæ því við getum átt von á að fá töluverðan fjölda annarra gesta til að heimsækja okkur

Einnig tók undirritaður þátt í maraþonhlaupinu sem haldið var, skemmtilegt götuhlaup í fallegu landslagi og í ágætis veðri (8°C með sólarglennu). Áhugasamir geta skoðað úrslit á heimasíðu hlaupsins www.ruskamaraton.com.

Það er alltaf gaman að sjá hvernig aðrir framkvæma hluti sem við erum sjálf að gera, og ennfremur að reyna það að okkar staðall á Óshlíðarhlaupinu er bara mjög góður. Það eru alltaf einhverjir hnökrar á öllum keppnishlaupum en við gleymum því þegar við erum búin að hlaupa, minningin um skemmtileg hlaup sitja eftir.

Það er orðin regla í stað þess að vera undantekning að flögukerfið (þráðlaus fótabúnaður á hverjum hlaupara) sé notað við tímatöku, bæði flýtir þetta fyrir og gerir úrvinnslu gagna mun markvissari. Við eigum enn töluvert í land að getað fjárfest í þessum búnaði en með samstilltu átaki hlaupara og skíðagöngumanna þá er möguleiki á að slíkt verði að veruleika.

Við aðstandendur Óshlíðarhlaupsins viljum stuðla að betri og bættri heilsu með aukinni útiveru íbúa okkar bæjarfélags. Þátttaka  t.d. í Óshlíðarhlaupinu  er gott markmið hvort sem fólk tekur þátt í lengri eða styttri vegalengdum.

Sjáumst í Óshlíðarhlaupinu 1. júlí 2006.

Með hlaupakveðju,

Kristbjörn R. Sigurjónsson
Riddari Rósu

Myndir frá Ruskamaraþoninu sem Kristbjörn tók þátt í.