New York maraþonið sl. sunnudag var sögulegt og ríkt af tilfinningum. Þar bar hæst sigur Shalane Flanagan sem varð þar með fyrsta bandaríska konan til að vinna hlaupið í 40 ár. Fyrir hlaupið hafði hún sagt að þetta kynni að verða síðasta maraþonhlaup hennar á atvinnumannaferlinum. Augu margra beindust líka að hlaupagoðsögninni Mebrahtom Keflezighi, eða Meb eins og hann er jafnan kallaður. Hann hélt upp á 42 ára afmælið sitt á liðnu vori og hafði lýst því yfir að New York maraþonið yrði hans síðasta hlaup sem atvinnumanns.
Shalane Flanagan á glæsilegan feril að baki.Shalane FlanaganShalane Flanagan (f. 1981) er án nokkurs vafa í hópi þekktustu og dáðustu langhlaupara í Bandraríkjunum síðustu árin. Hún hefur verið í fremstu röð vestanhafs síðustu 15 ár, þ.e. allt frá því á háskólaárunum. Fyrstu árin var hún mest áberandi í víðavangshlaupum og í brautarhlaupum frá 1.500 m upp í 5.000 m. Atvinnumannaferillinn hófst árið 2004 og árið 2007 setti hún bandarískt met í 5.000 m hlaupi (14:44,80 mín) sem stóð í þrjú ár. Árið 2008 tvíbætti hún svo metið í 10.000 m hlaupi, í seinna skiptið á Ólympíuleikunum í Peking þar sem hún tók bronsið á 30:22,22 mín. þetta met stóð í 8 ár. Bronsið breyttist reyndar í silfur sl. vor þegar silfrið var dæmt af Tyrkjanum Elvan Abeylegesse vegna lyfjamisferlis.Shalene keppti líka á Ólympíuleikunum í Aþenu 2004, London 2012 og Ríó 2016 og komst undantekningarlaust í úrslit í sínum greinum. Hún keppti einnig til úrslita (í 10.000 m) á heimsmeistaramótunum 2009, 2011, 2013 og 2015. Maraþonið sl. sunnudag var það níunda á ferlinum. Fyrsta maraþonið var í New York haustið 2010, þar sem hún náði 2. sæti á 2:28:40 klst. Bestum tíma náði hún í Berlín 2014, þar sem hún varð þriðja á 2:21:14 klst. Aðeins tvær bandarískar konur eiga betri tíma.
Hlaupið sl. Sunnudag
Margir bjuggust við að New York maraþonið sl. sunnudag myndi snúast upp í baráttu milli Shalane Flanagan og Keníustúlknanna Mary Keitany (f. 1982) og Ednu Kiplagat (f. 1979). Þessar þrjár stóðu einmitt allar á verðlaunapallinum í New York maraþoninu 2010, þar sem Edna tók gullið, Shalene varð önnur eins og fyrr segir og Mary þriðja.
Mary Keitany setti „heimsmet í karlalausu maraþonhlaupi" í London sl. vor (2:17:01 klst). Aðeins Paula Radcliffe hefur hlaupið hraðar (2:15:25 klst. í London 2003). Mary hafði auk heldur unnið New York maraþonið þrjú síðustu árin (2014-2016) og var af mörgun talin nánast örugg með 4. sigurinn ef hún myndi ekki lenda í einhverjum meiri háttar óhöppum á leiðinnni. Edna Kiplagat vann Bostonmaraþonið sl. vor og náði silfri á heimsmeistaramótinu í sumar. Hún á best 2:19:50 klst og hefur unnið marga sigra á löngum ferli, en sumir töldu reyndar að henni gæti reynst erfitt að ná toppárangri í þriðja maraþoninu sama árið.
Það var frekar vindasamt í New York á sunnudaginn og því snemma ljóst að tímarnir yrðu ekkert sérstakir. Millitíminn eftir hálft maraþon var um 1:16 klst, sem verður að teljast hægt á þessum vettvangi. Eftir 25 km voru enn 9 konur í forystuhópnum en við 32 km markið voru bara þrjár eftir, þ.e.a.s. Mary Keitany, Shalane Flanagan og Mamitu Daska frá Eþíópíu. Edna var farin að dragast aftur úr. Staðan breyttist lítið næstu kílómetra en þegar u.þ.b. 37 km voru að baki jók Shalane hraðann til muna. Hinar tvær áttu ekkert svar og eftir það var sigurinn eiginlega aldrei í hættu. Úr þessu varð 5 km endasprettur og Shalane Flanagan kom langfyrst í mark á 2:26:53 klst. við mikinn fögnuð viðstaddra og mörg gleðitár.
Shalane Flanagan meiddist illa í febrúar 2017 og þurfti því að hætta við þátttöku í Bostonmaraþoninu sl. vor. Þegar hún gat farið að æfa aftur af fullum krafti jók hún hlaupamagnið verulega frá því sem það hafði mest verið áður og hljóp allt að 200 km á viku. Æfingarnar gengu vel og hún fór full sjálfstrausts í New York maraþonið. Eftir hlaupið sagði hún að sig hefði dreymt um þetta frá því að hún var lítil stelpa. „Vonandi verður þetta hvatning til næstu kynslóðar bandarískra kvenna til að vera þolinmóðar. Þetta tók mig sjö ár".
Meb og hinir karlarnir
Maraþonhlaups karla var líka beðið með mikilli eftirvæntingu á sunnudaginn. Stærsta nafnið í þeim hópi var vafalítið Wilson Kipsang (f. 1982) fyrrverandi heimsmethafi. Aðeins þrír menn hafa hlaupið maraþon á betri tíma en hann (2:03:13 klst) og fjórum sinnum hefur hann hlaupið vegalengdina undir 2:04 klst. Wilson Kipsang hætti eftir 30 km í Berlínarmaraþoninu í september og sumir töldu of skammt um liðið til að hann ætti möguleika á að ná toppárangri í New York. Aðrir bentu á að maður eins og hann myndi ekkert mæta í svona hlaup ef hann vissi ekki sjálfur að hann væri í toppstandi. Augu heimamanna beindust þó líklega enn frekar að hlaupagoðsögninni Meb sem hafði gefið það út að þetta 26. maraþonhlaup hans yrði það síðasta, alla vega sem atvinnumaður í fremstu röð.
Karlahlaupið var ræst hálftíma á eftir kvennahlaupinu og þróaðist með svipuðum hætti. Fyrstu menn hlupu fyrstu 10 km á 31:55 mín, eða á „gönguhraða" eins og það var orðað í frétt á heimasíðu Alþjóða frjálsíþróttasambandsins. Þegar 32 km voru að baki var enn 7 manna hópur í forystunni. Upp úr því tók Keníamaðurinn Geoffrey Kamworor (f. 1992) af skarið, en hann er líklega best þekktur sem tvöfaldur heimsmeistari í hálfmaraþoni. Kipsang var sá eini sem hélt nokkurn veginn í við hann og náði reyndar að minnka forskotið úr 7 sek. í 3 sek. á síðustu 400 metrunum. En Kamworor vann sem sagt hlaupið á 2:10:53 klst.
Hinn 42ja ára gamli Meb stóð svo sannarlega fyrir sínu og kom í mark í 11. sæti og sem þriðji Bandaríkjamaðurinn á 2:15:29 klst. Þar með lauk einstökum ferli hans sem afreksíþróttamaður á heimsmælikvarða, en sá ferill hefur staðið óslitið í hartnær 20 ár og innifelur m.a. Ólympíusilfur í maraþonhlaupi frá því í Aþenu 2004 og þátttöku í þrennum öðrum Ólympíuleikum. Meb er eini maðurinn sem hefur unnið bæði New York og Boston maraþonin og komist á pall á Ólympíuleikum. Fyrsti Bandaríkjamaðurinn á sunnudaginn var reyndar litlu yngri en Meb. Þetta var hinn fertugi Abdi Abdirahman sem skilaði sér í mark í 7. sæti á 2:12:48 klst.
Lokaorð
Líklega hafa fáir þeirra sem fylgdust með New York maraþoninu verið ósnortnir af þeim miklu tilfinningum sem þar réðu ríkjum, eða eins og maraþonhlauparinn Kara Goucher orðaði það á Twitter: „Ég hélt að það væru ekki til meiri tár, en þá kom Meb".
Efnisflokkur: Keppnishlaup
Heimildir og lesefni:
- 1. Alþjóðafrjálsíþróttasambandið: https://www.iaaf.org.
- 2. Kara Goucher: https://twitter.com/karagoucher/status/927222516858474496.
- 3. New York maraþonið: https://www.tcsnycmarathon.org.
- 4. Runner‘s World: https://www.runnersworld.com, (m.a. https://www.runnersworld.com/new-york-city-marathon/shalanes-nyc-triumph-ive-dreamed-of-this-since-i-was-a-little-girl).
- 5. Wikipedia o.fl.
Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.