Sondre Moen brýtur blað í maraþonsögunni

birt 06. desember 2017

Gaman verður að fylgjast með Norðmanninum á komandi árum,Norðmaðurinn Sondre Nordstad Moen náði sögulegum árangri í Fukuokamaraþoninu sl. sunnudag (3. desember) þegar hann kom langfyrstur í mark á 2:05:48 klst. Þessi árangur er ekki aðeins norskt met, heldur einnig Norðurlandamet og Evrópumet. Sjálfur átti Sondre norska metið, 2:10:07 klst, frá því í Hannover í apríl. Norðurlandametið, 2:09:43 klst, var í eigu Danans Henrik Jørgensen frá 1985 og Evrópumetið, 2:06:10 klst, setti Kenýamaðurinn Kaan Kigen Ozbilen á síðasta ári í keppni fyrir Tyrkland.Árangur Sondre Moen er ekki aðeins sögulegur í norrænu og evrópsku samhengi, heldur líka á heimsvísu. Frá upphafi hefur ekki nema 61 hlaupari náð betri tíma en Sondre, allir frá Afríku.

Líklega má því slá því föstu að tími Sondre sé sá besti sem nokkur hvítur maður hefur náð, að vísu með þeim fyrirvara að á afrekalistum Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins eru menn að sjálfsögðu hvorki flokkaðir eftir húðlit né öðrum útlitseinkunnum.

Frá upphafi hafa 100 maraþonhlauparar í heiminum hlaupið á skemmri tíma en 2:06:18 klst. Þegar þjóðerni þessara 100 hlaupara eru skoðuð kemur í ljós að 60 þeirra koma frá Kenía, 33 frá Eþíópíu, 2 frá Marokkó, 2 frá Bandaríkjunum (annar fæddur í Marokkó), 1 frá Brasilíu, 1 frá Japan og 1 frá Tyrklandi (fæddur í Kenýa). Sondre Moen er því fyrsti innfæddi Evrópumaðurinn á þessum lista.

Norðurlandabúar öflugir í gegnum tíðina
Hvað sem líður yfirburðum Afríkumanna í maraþonhlaupi er það þó alls ekki þannig að norrænir menn hafi aldrei látið að sér kveða í langhlaupum á heimsvísu. Þvert á móti hafa Norðurlandabúar verið mjög áberandi á þessum vettvangi á síðustu 100 árum. Þar ber fyrst að nefna „Finnana fljúgandi" sem áttu sitt blómaskeið á árunum 1910-1930 eða þar um bil. Paavo Nurmi var án efa þekktastur í þeim hópi, en hann setti rúmlega 20 heimsmet á ferlinum, á vegalengdum allt frá 1.500 m upp í 30 km. Honum auðnaðist aldrei að hlaupa heilt maraþon, en það gerði hins vegar landi hans Hannes Kolehmainen sem var eiginlega fyrsti „fljúgandi Finninn". Hann vann m.a. maraþonhlaupið á Ólympíuleikunum í Antwerpen árið 1920 á 2:32:36 klst, sem var þá besti tími sem náðst hafði í heiminum.

Svíar áttu sitt blómaskeið á 5. áratug 20. aldar með þá Gunder Hägg og Arne Andersson í broddi fylkingar, margfalda heimsmethafa báða tvo. Þeir hlupu að vísu aldrei maraþon. Aðrir minna þekktir sænskir og finnskir maraþonhlauparar voru hins vegar nokkrum sinnum á toppi maraþonheimslistans á 20. öldinni, síðastur þeirra Paavo Kotila, sem setti heimsmet í greininni árið 1956 (2:18:05 klst). Margir muna svo eftir Finnanum Lasse Viren sem var nánast ósigrandi í 5.000 og 10.000 metra hlaupum á 8. áratugnum.

Líklega reis frægðarsól norrænna maraþonhlaupara allra hæst eftir að Norðmaðurinn Grete Waitz hóf feril sinn á þeim vettvangi með eftirminnilegum sigri í New York maraþoninu 1978, þar sem hún hljóp hraðar en nokkur kona hafði áður gert, 2:32:30 klst. Grete var yfirburðamanneskja í maraþonhlaupum næstu árin og í kjölfar hennar kom landa hennar Ingrid Kristiansen sem bætti heimsmetið í maraþonhlaupi niður í 2:21:06 klst í Londonmaraþoninu 1985. Það met stóð óhaggað í 13 ár. Allra síðustu ár hafa svo norsku Ingebrigtsenbræðurnir Henrik, Filip og Jakob verið áberandi á langhlaupabrautinni, þó að þeir eigi reyndar enn eftir að reyna sig við maraþonvegalengdina.

Til alls líklegur í framtíðinni
Hlaupið i Fukuoka var fjórða maraþonhlaup Sondre Moen. Árið 2015 hljóp hann vegalengdina á 2:12:54 klst í Flórens og á Ólympíuleikunum í Ríó varð hann nítjándi á 2:14:17 klst. Þriðja hlaupið var svo þegar hann setti norskt met í Hannover í vor (2:10:07 klst). Á þessu ári er hann sem sagt búinn að bæta sig um heilar 7 mínútur! Sondre er 26 ára (f. í Þrændalögum 12. janúar 1991), sem telst ekki hár aldur fyrir maraþonhlaupara. En hann er samt enginn byrjandi á hlaupabrautinni. Sautján ára gamall hljóp hann t.d. 10.000 m á 29:22 mín. Síðan þá hefur hann unnið til nokkurra verðlauna á alþjóðlegum mótum, bæði í brautarhlaupum og í víðavangshlaupum. Og í október í haust hljóp hann hálft maraþon á 59:47 mín í Valencia. Ef allt gengur að óskum gæti hann orðið mjög áberandi í götuhlaupum heimsins mörg næstu ár.

Efnisflokkur: Keppnishlaup

Heimildir og lesefni:

  • 1. Alþjóðafrjálsíþróttasambandið: https://www.iaaf.org.
  • 2. Thor Gotaas (2008): Løping. En verdenshistorie. Gyldendal Norsk Forlag, Oslo.
  • 3. Ýmsir norskir fjölmiðlar.

Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.