Sex síðustu heimsmetin í maraþoni karla voru sett í Berlín og nú eru liðin fjögur ár síðan það gerðist síðast. Hlaupið fer næst fram 16. september nk. og nú velta menn fyrir sér hvort ekki sé kominn tími á sjöunda metið. Í þeim efnum beinast sjónir manna sem aldrei fyrr að Kenýumanninum Eliud Kipchoge sem líklegasta manninum í verkið. En Berlínarmaraþonið gæti líka orðið sögulegt í kvennaflokki. Þar hefur Berlín ekki verið vettvangur heimsmeta síðan árið 2001 en sumir búast við að Eþíópíukonan Tirunesh Dibaba breyti því um næstu helgi.
Kipchoge gæti gert atlögu að heimsmetinu í Berlín.Ótrúlegur ferill Eliud KipchogeHlaupaferill Eliud Kipchoge (f. 1984) á sér naumast nokkra hliðstæðu í sögunni. Hann sló fyrst verulega í gegn á hlaupabrautinni þegar hann varð heimsmeistari í 5.000 m hlaupi aðeins 18 ára gamall árið 2003 og næstu 9 ár þar á eftir var hann í hópi bestu brautarhlaupara heims.Árið 2012 skipti hann svo yfir í götuhlaupin eftir að hafa mistekist að komast í lið Kenýu í 5.000 og 10.000 m hlaupum fyrir Ólympíuleikana í London. Síðan þá hefur hann hlaupið 10 fullgild maraþonhlaup og unnið þau öll nema eitt. Það var í Berlín haustið 2013 þegar landi hans Wilson Kipsang setti heimsmet og Kipchoge varð annar.
Eftirfarandi tafla sem „fengin var að láni" á Wíkipedíu segir meira en mörg orð um þennan ótrúlega feril:
Á þessum lista er ekki maraþonið sem Kipchoge hljóp á Monza kappakstursbrautinni á Ítalíu í fyrravor fyrir „Breaking2" verkefni skóframleiðandans Nike sem vildi sýna fram á að hægt væri að hlaupa maraþon undir 2 klst í nýjustu skóm fyrirtækisins. Tíminn þar var 2:00:25 klst sem ekki fæst bókað í afrekaskrár, þar sem hraðastjórar („hérar") skiptust á um að halda uppi hraðanum og kljúfa vindinn alla leið. Eliud Kipchoge hefur sem sagt aldrei átt heimsmet í maraþonhlaupi.
Hvað ætlar hann sér í Berlín?
Einu mennirnir sem eiga betri löglega tíma en Eliud Kipchoge eru heimsmethafinn Dennis Kimetto (2:02:57 klst í Berlín 2014) og Kenenisa Bekele (2:03:03 klst í Berlín 2016). Hvorugur þeirra verður með að þessu sinni en Wilson Kipsang mun eflaust gera sitt best til að veita Kipchoge verðuga keppni. Aðrir eru ólíklegri til að koma mikið við sögu, en menn ættu reyndar alltaf að fara varlega í spádóma þegar maraþonhlaup eru annars vegar. Eliud Kipchoge veltir þó keppinautum sínum sennilega lítið fyrir sér. Heyrst hefur að undirbúningur hans felist m.a. í daglegum 15x1.000 m intervalæfingum og þrátt fyrir hógværð sína hefur hann hefur ekki farið dult með áform sín um að setja persónulegt met í Berlín, hvað sem aðrir gera. Og þá er heimsmetið ekki langt undan. Hann vantar jú bara 8 sekúndur til að jafna það.
Breytir Tirunesh Dibaba maraþonsögunni?
Tirunesh Dibaba (f. 1985) er af mörgum talin besta hlaupakona sögunnar. Í verðlaunasafninu sínu á hún m.a. verðlaunapeninga frá fjórum síðustu Ólympíuleikum, nánar tiltekið þrjú gull og þrjú brons í 5.000 og 10.000 m hlaupum. Fimm sinnum hefur hún orðið heimsmeistari í þessum greinum og fimm sinnum í víðavangshlaupum. Auk þess á hún 10 ára gamalt heimsmet í 5.000 m hlaupi kvenna, 14:11:15 mín. Fyrsta maraþonhlaupið sitt þreytti hún í London árið 2014 (2:20:35 klst) og á síðasta ári bætti hún tveimur við, í London (2:17:56 klst) og í Chicago (2:18:31 klst). Aðeins tvær konur eiga betri tíma í sögunni, þ.e.a.s. heimsmethafinn Paula Radcliff (2:15:25 klst í London 2003) og Mary Jepkosgei Keitany (2:17:01 klst í London 2017, en sá tími er skráður sem „heimsmet í karlmannslausu maraþonhlaupi").
Tirunesh Dibaba verður reyndar alls ekki eina konan í Berlínarmaraþoninu og líklega hefur þátttakendalistinn kvennamegin aldrei verið betur skipaður.
Stefán spáir Dibaba sigri í Berlín. Þar verða m.a. mættar þær Gladys Cherone frá Kenýa (f. 1983), sem vann Berlínarmaraþonið 2015 og 2017 og á best 2:19:25 klst, og hin þrautreynda landa hennar Edna Kiplagat (f 1979), sem á eitthvað á annan tug maraþona að baki og hefur m.a. unnið tvo heimsmeistaratitla í greininni (2011 og 2013), auk nokkurra sigra í stærstu maraþonhlaupum heims síðustu árin. Besti tíminn hennar er 2:19:50 klst frá því London 2012.Þar að auki verða þarna þrjár eþíópískar konur, aðrar en Tirunesh Dibaba, sem allar hafa hlaupið undir 2:21 klst, þ.e.a.s. þær Aselefech Mergia (f. 1985, 2:19:31), Yebrgual Melese (f. 1990, 2:19:36) og Ruti Aga (f. 1994, 2:20:41).
Sjálfur spái ég Tirunesh Dibaba sigri en gullið er vissulega sýnd veiði en ekki gefin. Í maraþonhlaupum getur hér um bil allt gerst. Og ef aðstæður verða góðar í Berlín er hreint ekki ólíklegt að heimsmetið falli eftir 15 ára bið.
Aðalatriðið
Allir áhugamenn um maraþonhlaup ættu að fylgjast með Berlínarmaraþoninu næsta sunnudag. Þar gæti sitthvað gerst sem maður vill ekki missa af!
Efnisflokkur: Keppnishlaup
Heimildir og lesefni:
- Alþjóðafrjálsíþróttasambandið (IAAF) (2018): Athletes‘ Profiles. https://www.iaaf.org/athletes.
- Alþjóðafrjálsíþróttasambandið (IAAF) (2018): Records and Lists. https://www.iaaf.org/records/all-time-toplists
- Berlínarmaraþonið (2018): Programmheft. https://www.bmw-berlin-marathon.com/news-und-media/programmheft.html.
- Berlínarmaraþonið (2018): Tirunesh Dibaba heads high quality women''s field at the 2018 BMW BERLIN-MARATHON. Frétt á heimasíðu 31. júlí. https://www.bmw-berlin-marathon.com/en/news-and-media/news/2018/07/31/tirunesh-dibaba-heads-high-quality-womens-field-at-the-2018-bmw-berlinmarathon.html.
- Stephen Rutto (2018): Kipchoge focused:Olympic champion seek to break personal best in Berlin Marathon next month. The Star, Kenya, 31. ágúst.
- Wikipedia o.m.fl.
Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlinum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.