Þremenningarnir tilbúnir í hlaupið. Myndin er tekin í Mora degi fyrir hlaup. | Þrír Íslendingar voru meðal keppanda í Ultravasan-90 sem hlaupin var 18. ágúst sl., en Ultravasan er árlegt ofurhlaup í Dölunum í Svíþjóð þar sem hlaupin er sama 90 km leiðin leið frá Sälen til Mora og gengin hefur verið í hinni árlegu Vasagöngu allt frá árinu 1922. Þetta var hins aðeins í 5. sinn sem ofurhlaup er þreytt á þessari leið. Tveir þremenninganna, þeir Gunnar Viðar Gunnarsson og Kristinn Óskar Sigmundsson, eru félagar í Hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi, en sá þriðji var Birkir Þór Stefánsson, bóndi í Tröllatungu á Ströndum. |
Enginn þeirra félaga er ýkja hávaxinn og því lá beint við að kalla hópinn „Flandratröll".
Misskilningur endaði í Ultravasan-90
Hugmyndin um þátttöku í Ultravasan-90 kviknaði fyrir þremur árum, nánar tiltekið í ágúst 2015, eiginlega fyrir misskilning. Birkir og Gunnar voru þátttakendur í þessum misskilningi frá upphafi en Kristinn bættist í hópinn nokkrum vikum áður en lagt var af stað, þar sem þá höfðu orðið afföll í upphaflega liðinu. Tilgangur ferðarinnar var í aðalatriðum tvíþættur, þ.e. annars vegar að halda upp á fimmtugsafmæli Birkis síðar á árinu og hins vegar að athuga hvort þessir menn gætu yfirleitt hlaupið 90 km. Fyrir þetta hlaup hafði enginn þeirra hlaupið lengra keppnishlaup en Laugaveginn, en tveir höfðu reyndar klárað rúmlega 80 km fjallvegahlaup yfir Arnarvatnsheiði sumarið 2016 algjörlega vandræðalaust.
Hlaupaleiðin í Ultravasan-90 er fjölbreytt, en þetta er alls ekkert fjallahlaup. Fyrstu kílómetrana liggur leiðin reyndar upp á við með u.þ.b. 150 m hækkun, en eftir það fer landið lækkandi með fáeinum hressandi hæðum inn á milli. Í raun skiptist leiðin í átta 9-15 km áfanga á milli hefðbundinna áfangastaða Vasagöngunnar. Hæðarferillinn og áfangastaðirnir sjást á meðfylgjandi mynd sem tekin er af heimasíðu hlaupsins (http://www.vasaloppet.se/lopp/loplopp/ultravasan90).
Fjölmennt fylgdarlið Í stuttu máli gekk allt eftir áætlun hjá þremenningunum og allir skiluðu þeir sér í mark áður en 12 klst. voru liðnar frá því að hlaupararnir, alls 1.042 að tölu, voru ræstir eldsnemma á laugardagsmorgni, réttum 5 klst og 40 mín áður en Reykjavíkurmaraþonið var ræst nokkru vestar á hnettinum. | Allir komnir í bílinn og allt klárt fyrir hlaupið. |
Hlaupadagurinn rann upp bjartur og fagur. Reyndar var ekkert sérstaklega bjart þegar lagt var af stað frá Orsa upp úr kl. 2 aðfaranótt laugardags, en í Orsa höfðu hlauparar og fylgdarlið komið sér vel fyrir tveimur náttum fyrir hlaup. Frá Orsa til Sälen er u.þ.b. einnar og hálfrar stundar akstur og af sænskættaðri varúð hafði hópurinn ákveðið að vera heldur í fyrra fallinu. Þegar komið var til Sälen, eða nánar tiltekið að rásmarkinu í Berga by spölkorn sunnan við Sälen, var rétt tekið að birta af degi.
Við rásmarkið í Berga By við Sälen kl. 5 á laugardagsmorgni. | Haldið af stað ásamt þúsund hlaupurum Tröllin þrjú fylgdust að fyrsta spölinn frá Sälen til Smågan og voru þá um miðjan hóp, en þegar næsti áfangastaður, Mångsbodarna, var að baki, skildu leiðir smátt og smátt og Kristinn tók forystuna í hópnum. Eftir það leit hann aldrei um öxl og fór fram úr hverjum hlauparanum á fætur öðrum. Hinir tveir gerðu það reyndar líka lengst af og bættu svo vel í undir lokin. |
Tröllin rúlluðu upp 90 km Blábjerasúpan vörumerkið Mest voru þó umsvifin inni á áfangastöðunum en á þeim öllum er löngu búið að koma upp varanlegri aðstöðu fyrir hlaupandi, gangandi og hjólandi ferðalanga á Vasaleiðinni. Á öllum þessum stöðum var hlaupurum boðið upp á margs konar veitingar, enda eyða menn varla minna en 6.000 hitaeiningum í 90 km hlaupi. Orkuþörfin samsvarar því u.þ.b. fullu fæði í þrjá sólarhringa umfram venjulega næringarinntöku. Á matseðlinum var m.a. hin víðfræga bláberjasúpa, sem lengi hefur verið eitt af aðalsmerkjum Vasagöngunnar. Að sögn Kristins er hæfilegt að fá sér þrjú glös af bláberjasúpu á hverjum áfangastað. Hinir borðuðu minni súpu og voru því eðlilega lengur að ljúka hlaupinu. | Gunnar Viðar mættur til Mångsbodarna. Ekki nema rúmir 65 km eftir. |
Kristinn (með tvö glös af bláberjasúpu) og Birkir komnir á drykkjarstöðina við Risberg, 34,3 km og 3:36 klst. að baki. | Þurftu ekki á hjálp fjórhjóla að halda Þeir sem forfölluðust utan alfaraleiða voru sóttir á fjórhjólum með þar til gerðar kerrur í eftirdragi, en svipaður búnaður er einmitt notaður í smalamennskum á Ströndum til að koma uppgefnu fé til byggða. |
Sigurvegari hlaupsins að þessu sinni var 44 ára sænskur háskólakennari frá Uppsölum, Fritjof Fagerlund, en hann lauk hlaupinu á 6:01:56 klst. Það samsvarar meðalhraða upp á rétt um 4 mín/km, en á þeim hraða eru menn ekki nema 40 mínútur að hlaupa 10 km. Flestum finnst nógu mikil áskorun að hlaupa eina svoleiðis 10 km á sléttri braut og fyrir „venjulegt fólk" er það torskilið hvernig hægt er að halda þessum hraða í 90 km á misjöfnu undirlagi um hóla og hæðir. Tími Friðþjófs er sá næstbesti sem náðst hefur í hlaupinu frá upphafi, en brautarmet Jónasar Buud frá árinu 2015, 5:45:08 klst., stendur enn.
Þremenningarnir daginn eftir hlaup. Allir hressir og komnir í „Finisher-bolina". F.v. Gunnar, Kristinn og Birkir.
Flandratröllin voru varla komin í mark þegar bollaleggingar hófust um næstu ofurhlaupaáskorun. Vænta má frétta af þeim málum á næsta ári.
Texti: Stefán Gíslason
Myndir: Kristín Gísladóttir, Sigríður Drífa Þórólfsdóttir og Stefán Gíslason