Hér áður fyrr hljóp maður fyrst og fremst ef brýn nauðsyn bar til, helst fyrir kindur, en alls ekki ótilneyddur. Hlaup án tilgangs þóttu frekar vera fásinna. Einu sinni tók ég þó þátt í 400 metra hlaupi á héraðsmóti fyrir vestan, líklega 26 - 27 ára gamall. Ég var svo uppgefinn þegar ég kom í mark að ég hélt að ég myndi drepast á staðnum. Þá áttaði ég mig á því að hlaup væru ekki mín deild og hugsaði ekki meir um þau um margra ára skeið. Á þessum árum reykti ég reyndar dálítið sem hefur vafalaust ekki aukið hlaupagetuna. Ég ef einhversstaðar lýst því þegar ég tók svo þátt í skemmtisokki í fyrsta sinn. Að hlaupa þrjá kílómetra var í mínum huga dálítið mikið fyrir byrjenda, þetta var heil bæjarleið. Þegar það gekk stórslysalaust sá maður næsta hjalla fyrir ofan sig og langaði til að komast upp á hann. Hvernig væri að reyna sig við 10 km?
Þegar það gekk upp var maður ánægður með það í nokkur ár en svo fór mann að langa til að klifra upp á þar næsta hjalla, ½ maraþon beið. Þegar það gekk stórslysalaust fór sjálfstraustið að aukast og maraþonið virtist ekki eins óyfirstíganlegt og áður, og þó. Var þó eitthvað vit í að hlaupa helmingi lengra en maður hafði gert áður? Það er þó einhvern veginn þannig að þegar einu markmiði er náð þá er mannskepnan með þeim ósköpum gerð að setja sér ný markmið og helst torsóttari. Það var mikill sigur að ná að hlaupa heilt maraþon. Þá var brotinn ákveðinn andlegur múr og maður steig inn á nýjar slóðir sem voru mjög framandi en einnig mjög spennandi, slóðir sem nokkrum árum áður höfðu virst svo fjarlægar og óyfirstíganlegar að þangað yrði aðeins horft úr fjarlægð. Rannsóknarferðir um maraþonlöndin hafa síðan staðið yfir og verið fetað lengra og lengra inn í myrkviði þeirra í fylgd góðra manna (karla og kvenna). Sífellt koma í ljós nýir hjallar sem kalla á að maður kíki upp fyrir brúnina og gái hvað leynist á bak við. Hver eru takmörkin? Laugavegurinn, Þingvallahringurinn, 100 km. Þegar einum sleppir tekur annar við. Nú bíður enn einn hjallinn, ansi úfinn og torsóttur. Ég hef hins vegar þá trú að útsýnið af honum taki öllu öðru fram ef manni tekst að sigra hann. Hvort að þetta sé hæsti hjallinn verður bara að koma í ljós.
Þegar litið er til baka þá er það mín skoðun að það hafi ekki verið síður erfitt að klifra upp á nýja hjalla í byrjun heldur en á seinni tímum. Reynslan hefur vaxið og sjálfstraustið aukist að sama skapi. Að hafa trú á því sem maður vill gera og reyna að haga undirbúningi sem skynsamlegast fleytir manni ansi langt. Stundum hvarflar að manni hvort þetta sé nokkurt vit? Þær spurningar fær maður svo sem einnig frá öðrum. Svarið er ekki einfalt. Það er erfitt að rökstyðja að það sé eitthvað vit í að gera sér ferð til annarra heimshluta til hlaupa og ganga um fjöll og firnindi samfellt í a.m.k. heilan sólarhring, alls óviss um að ná settu marki eftir að hafa streðað úti mánuðum saman í misjöfnum veðrum þegar miklu þægilegra hefði verið að dunda sér eitthvað heimavið. En sama er. Mér dettur oft í hug sagan af Lísu í Undralandi í þessu samhengi þegar hún stendur á gatnamótunum og hittir köttinn. „Hvaða leið á ég að velja?“ spyr Lísa. „Það fer eftir því hvert þú ætlar“ segir kötturinn. „Það hef ég ekki hugmynd um“ segir Lísa. „Þá skiptir engu máli hvaða leið þú velur“ segir kötturinn. Það er grundvallaratriði í svo mörgu að setja sér markmið. Þegar maður sér að öðrum tekst að ná settu marki vex manni ásmegin og hugsar, þetta hlýtur að vera hægt. Ef maður hefur sett sér markmið og hefur trú á að geta náð því, þá dregur það langt. Þau eru mismunandi raunhæf, stundum nást þau en stundum ekki.
Allt um það, ef maður hefur engin markmið að stefna að þá snýst maður bara í hringi uns mann svimar og dettur um koll eða steðjar út um víðan völl án sérstakrar stefnu. Ef maður hefur ekki trú á sjálfum sér í því sem maður vill gera, þá dregur maður ekki langt.
Gunnlaugur Júlíusson