Einnota plastglös hafa verið áberandi á flestum hlaupaviðburðum síðustu ára og að hlaupi loknu hafa þessi glös legið eins og hráviði í grennd við drykkjarstöðvar og á næsta kílómetranum þar á eftir. Sjálfsagt tekst oftast að smala þeim saman í lokin og jafnvel að koma þeim í viðeigandi endurvinnslu, en hætt er þó við að einhver þeirra leynist í runnum eða fjúki úr augsýn áður en tiltektarfólkið mætir á staðinn. Þau glös gætu átt eftir að velkjast í náttúrunni um aldir, fyrst í heilu lagi og síðan í minni og minni brotum.
Nú virðist hins vegar vera að verða breyting þarna á, því að í sífellt fleiri hlaupum er gerð krafa um að hlauparar noti fjölnota drykkjarmál, sem þeir annað hvort koma með sjálfir eða fá afhent með skráningargögnum. Það segir kannski sína sögu að sjálfur átti ég ekkert svona mál í ársbyrjun 2019 en á núna ein fimm og er samt búinn að afþakka einhver. En nú er eðlilegt að spurt sé hvort nýju fjölnotaglösin séu í raun umhverfisvænni en gömlu einnotaglösin. Lausnir á vandamálum geta nefnilega stundum skapað ný vandamál sem eru engu viðráðanlegri en gömlu vandamálin sem ætlunin var að leysa.
Einnota plastglös
Hið dæmigerða einnota plastglas er efnislítið og létt, líklega 2-4 g, og ýmist gert úr pólýetýleni (PET) eða pólýstýreni (PS). Fyrrnefnda tegundin hentar vel til endurvinnslu, en sú síðarnefnda mun síður, auk þess sem framleiðsla á PS er mengandi. Bæði PET og PS eru olíuafurðir og almennt má reikna með að tvö kíló af olíu þurfi til að framleiða eitt kíló af slíku plasti. Þó er hugsanlegt að PET-glös séu að einhverju leyti úr endurunnu efni.
Framleiðsla á einnota plastglösum er ekkert sérlega skaðleg fyrir umhverfið sem slík, nema þá helst þegar PS-glös eiga í hlut. Í glösunum eru væntanlega engin varasöm efni og þau gera svo sem engum mein, þ.e.a.s. á meðan þau eru í notkun. Ef þau enda feril sinn hins vegar úti í náttúrunni er öðru máli að gegna. Plast brotnar seint eða aldrei niður við náttúrulegar aðstæður og líklega geta leifar af plastglösum velkst um í náttúrunni í marga áratugi eða aldir. Reyndar brotna glösin auðveldlega niður í smærri einingar og með tímanum verða brotin svo lítil að þau sjást ekki með berum augum. Þá er glasið sem sagt orðið að örplasti sem er nógu smátt til að komast inn í lífverur. Skaðsemi örplasts er tiltölulega lítið þekkt. Kannski er hún óveruleg, en þó benda rannsóknir m.a. til þyngdartaps hjá ánamöðkum sem lifa í mold sem innihalda plastagnir, líklega vegna þess að agnirnar trufli upptöku næringarefna í meltingarvegi. Líklegt er að eitthvað svipað gildi um aðrar lífverur.
Hægt er að fá glös úr PLA-plasti sem unnið er úr plöntum og er niðurbrjótanlegt við réttar aðstæður. Þau eru væntanlega talsvert umhverfisvænni en hefðbundin plastglös, en þau mega ekki fara í endurvinnslu með öðru plasti.
Í stuttu máli eru einnota plastglös líklega ekkert svo slæm, fyrr en þeim er fargað. Ef þau lenda úti í náttúrunni geta áhrifin verið langvarandi og ófyrirséð og ef þau fara í urðun með öðrum úrgangi munu þau líklega liggja þar lítið skemmd um aldir, engum til gagns. Sé þeim hins vegar brennt til orkuframleiðslu eru þau í raun aftur gerð að olíu, en með gagnlegu hliðarspori. Best er að koma glösunum í endurvinnslu, en í því ferli tapast oftast einhver gæði þannig að endurunnin glös verða varla að nýjum glösum.
Fjölnota glös
Fjölnota glös eru eðli málsins samkvæmt mun endingarbetri en einnota glös. Þau eru að sama skapi þyngri, u.þ.b. 8-12 g, og úr „flóknara" efni. Þessi glös eru yfirleitt úr pólýúreþan hitaplasti (Thermoplastic polyurethane (TPU)) og við framleiðsluna er væntanlega notuð meiri orka og meira af varasömum efnum en við framleiðslu einnota glasanna. Fjölnota glös sem sleppa út í náttúruna eru einnig að öllum líkindum enn lengur að hverfa en einnota glös, en að sama skapi eru líka meiri líkur á að þau finnist óskemmd. Litlar sem engar líkur eru á að varasöm efni leki úr glösunum á meðan þau eru notuð, en fólk ætti ekki að anda að sér gufum sem myndast við brennslu þeirra.
Hvort er þá betra?
Af því sem hér hefur verið skrifað má ráða að eitt einnota plastglas sé mun umhverfisvænna en eitt fjölnota plastglas, í það minnsta á meðan hvorugt þeirra endar úti í náttúrunni. En í raun eru þessi samanburður marklaus. Til að hægt sé að draga einhverja ályktun um „umhverfisvænleikann" verður að skoða þjónustuna sem glösin veita, en ekki bara einstök glös. Eitt fjölnota glas ætti að geta leyst heilan haug af einnota glösum af hólmi. Ekki er fráleitt að áætla að götuhlaupari sem keppir nokkrum sinnum á ári í mislöngum vegalengdum noti svo sem 30 einnota glös árlega. Ef við gefum okkur að viðkomandi noti þess í stað alltaf sama fjölnota glasið og að það endist í 5 ár, þá sparast þarna 150 einnota glös. Afdrif þessara 150 glasa skipta máli í samanburðinum, en ekki er fráleitt að ætla að u.þ.b. 5% þeirra (7-8 glös) endi úti í náttúrunni. Sé dæminu stillt svona upp eru yfirgnæfandi líkur á að fjölnotaglasið komi mun betur út.
Fleiri valkostir
Þegar betur er að gáð snýst valið ekki bara um einnota plastglös og fjölnota plastglös. Einnota pappaglös koma líka til greina - og fljótt á litið eru þau umhverfisvænni en einnota plastglös. Hins vegar eru glös af þessu tagi gjarnan klædd að innan með pólýetýlenfilmu, sem brotnar ekki niður í náttúrunni, þó að pappinn geri það, og koma auk þess í veg fyrir hagkvæma endurvinnslu. Pappaglösin eru líka þyngri en plastglösin og koma því verr út í flutningum. Í stórum hlaupum erlendis er líka oft boðið upp á vatn í plastflöskum. Fljótt á litið er það versti valkosturinn frá umhverfislegu sjónarmiði, því að þá er vatnið alla jafna flutt um langan veg og í þokkabót er líklega u.þ.b. helmingnum af því sullað niður engum til gagns. Á móti kemur að flöskurnar bera yfirleitt skilagjald, í það minnsta í þessum heimshluta, og þess vegna eru minni líkur á að þær týnist og meiri líkur á að þær skili sér til endurvinnslu.
Götuhlaup og utanvegahlaup
Í þessari plastumræðu skiptir miklu máli hvort um sé að ræða götuhlaup eða utanvegahlaup. Í götuhlaupum skipta sekúndur oft meira máli en í utanvegahlaupum og þá getur verið snúið að skenkja hlaupurum vatn í fjölnota glös. Í utanvegahlaupum eru meiri líkur á að hlauparar séu með eigin vatnsbirgðir og því minna háðir drykkjarstöðvum. Þar eru líka oft mjög erfitt að tína upp ruslið sem verður eftir meðfram hlaupaleiðinni, bæði vegna þess að leiðin liggur um óbyggðir og vegna þess að undirlagið er hrjóstrugt og breytilegt, með börðum, gjótum, vatnsföllum og runnum. Þess vegna er sektum líka víða beitt til að draga úr líkum á að hlauparar skilji eftir sig rusl í utanvegahlaupum.
Niðurstaðan
Fjölnota er almennt talað betra en einnota frá umhverfislegu sjónarmiði. Þess vegna er ástæða til að mæla með notkun fjölnota glasa í almenningshlaupum, þar sem slíkt er á annað borð mögulegt. Þetta er þó enn mikilvægara í utanvegahlaupum. Hlauparar sem eiga fjölnota glös ættu að reyna að eignast ekki fleiri svoleiðis og nota þau sem til eru sem allra lengst. Þá ættu hlaupahaldarar aðeins að afhenda fjölnota glös til þeirra sem óska eftir því, t.d. við skráningu.
Efnisflokkur: Umhverfismál
Stefán Gíslason, hlaupafrömuður, er pistlahöfundur á hlaup.is. Í pistlunum fer Stefán yfir víðan völl og fjallar um skemmtilegar og stundum ókannaðar hliðar hlaupanna.