Viðtal við Hlyn Andrésson eftir að hann setti Íslandsmet í maraþoni

uppfært 28. mars 2021

Eins og flestum er kunnugt setti Hlynur Andrésson glæsilegt Íslandsmet í maraþoni 2:13.37 um síðustu helgi í Dresden í Þýskalandi. Hlaup.is tók viðtal við Hlyn og fræddist aðeins um hvernig hlaupið var, aðdragandann að hlaupinu og ýmislegt fleira.

Hlynur sagði að sér hefði liðið vel í hlaupinu og fundist hlaupið nánast verið búið eftir 27-28 km. En annað kom á daginn, því eftir 35 km þá hlýddi líkaminn ekki hausnum og Hlynur þurfti að hægja töluvert á sér, þannig að allt í einu var Ólympíulágmarkið sem hann stefndi að runnið honum úr greipum. Hann sagði að það hefðu ekki verið kjöraðstæður, en líklega hefði hann líka getað undirbúið sig betur næringarlega. Einnig náði hann ekki alveg að fylgja næringarplaninu í hlaupinu og taldi hann að þessir þættir hefði haft einhver áhrif á hann. Þrátt fyrir þetta taldi hann sig hafa átt aðeins inni í hlaupinu, en einnig að það sé jafnvel mögulegt fyrir sig að ná undir 2:10:00 í maraþoni.

Hlynur er undir leiðsögn fyrrum hollensks landsliðsþjálfara og ber honum vel söguna. Hann segir að þjálfarinn sé með nokkra góða hlaupara á sínum snærum og þeir séu allir mjög stöðugir í sínum hlaupum og hafði gengið sérlega vel og var það meðal annars eitt af því sem honum leist vel á þegar kom að því að velja þjálfara síðasta sumar. Vandamálið, ef vandamálið skyldi kalla, er að honum finnst þjálfarinn halda fullmikið aftur af sér, en þá fyrst og fremst með framtíðina í huga, sem Hlynur er sáttur við.

Hlynur segir að hann nái ekki að vinna fulla vinnu með því æfingamagni sem hann er að hlaupa, en það eru um 150 km á viku. Það sé því alltaf einhver fjárhagsleg fórn í því að æfa og keppa á þessum standard. Hann segist þó fá eitthvað af styrkjum, en það dugi ekki til. Það er því ekki víst að Hlynur endist í sportinu nema til komi styrkir honum til handa og er hér með skorað á fyrirtæki að koma honum til aðstoðar.

Um framtíðina segir Hlynur að næsta keppni sé 10000m hlaup í Birmingham í júní og svo er hann farinn að huga að maraþoni í Valencia á Spáni í nóvember.

Margt fleira kemur fram í viðtalinu sem við bendum áhugasömum hlaupurum að hlusta á eins og Podcast, þegar þeir taka næstu æfingu.