HHHC hlaupið
Þegar Reykjavíkurmaraþoni var aflýst tóku hlauparar til sinna ráða. Mjög margir hlauparar voru búnir að undirbúa sig fyrir styttri eða lengri vegalengdir og ætluðu að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoni, en ekkert varð af því. Flestir skokkhóparnir víðsvegar um landið settu sjálfir upp lítil hlaup fyrir meðlimi sína sumt, óformlegt en aðrir tóku þetta alla leið og skipulögðu tímatöku og mældar brautir með öllu tilheyrandi, en innan ramma sóttkvíar reglna og með fáum þátttakendum. Einn af þeim hópum sem gerði þetta var HHHC hópurinn og við ræddum við Pétur Ívarsson einn af forsprökkum hópsins í morgun rétt áður en hópurinn lagði af stað í heilt/hálft maraþon. Þess má geta að Pétur náði markmiði sínu og kláraði heilt maraþon á 2:54:08
Hrafnhildur Georgsdóttir var ein þeirra sem fór með HHHC hópnum í heilt maraþon á Reykjavíkurmaraþon brautinni í morgun. Hópurinn byrjaði og endaði í Hljómskálagarðinum og var tímamælt með flögum. Hrafnhildur lauk hlaupinu á frábærum tíma, 3:30:02, en hún æfir þríþraut af miklu kappi.
Á leiðinni í 10 km hringnum í Reykjavíkurmaraþon var komið við í Hljómskálagarðinum þar sem HHHC hópurinn var búinn að klára sitt hlaup. Vð ræddum við feðgana Bjarna Ármannsson og son hans Benedikt Bjarnason um það hvernig var að hlaupa núna.
Hlaup Hlaupahóps FH og Skokkhóps Hauka
Hlaupahópur FH og Skokkhópur Hauka stilltu upp litlu flögutímamældu hlaupi fyrir félagsmenn sína þar sem boðið var upp á 10 km, hálft maraþon og heilt maraþon á mældri braut. Egill Guðmundsson og Sigurður Ísólfsson Hlaupahópi FH ákváðu að taka þátt í maraþoninu og hlaup.is ræddi við þá um hlaupið og undirbúninginn.
Ólafur Loftsson var einn af þeim sem nýtti sér möguleikann á tímamældu hlaupi FH og Hauka og tók þátt í 10 km hlaupi í morgun. Hann rammaði líka skemmtilega inn hvað það er við hlaupin sem gerir það að skemmtilegu sporti fyrir alla.
Margrét Tómasdóttir Hlaupahópi FH, hljóp sitt fyrsta hálfmaraþon í morgun og var ánægð með að geta nýtt undirbúning sumarsins.
Arna Brynjólfsdóttir Skokkhópi Hauka hljóp hálft maraþon í dag og sagði okkur frá því hversu miklu hlaupin skiluðu fyrir heilsuna. Hún hvatti allar konur til að fara út að hlaupa.
Hlaup Hlaupahóps Stjörnunnar
Árni Eggertsson í Hlaupahóp Stjörnunnar kom að skipulagningu á litlu brautarmældu hlaupi sem þeir héldu í dag á hinum hefðbundna Reykjavíkurmaraþon degi. Hann tók líka þátt í hálfu maraþoni á þessum dásamlega degi.
Helga Melsteð í Hlaupahóp Stjörnunnar var ánægð með að geta hlaupið í dag eftir undirbúning allt þetta ár og var staðráðin í að njóta dagsins eins og svo margir aðrir hlauparar
Hlauparar á maraþonhringnum í morgun
Hlaup.is rúllaði 10 km Reykjavíkurmaraþon hringinn og fjöldann allan af hlaupurum sem voru að taka sitt hlaup á hringnum í dag. Þarna voru m.a. þær Elín Ósk, Helga Lóa og Arnbjörg sem vinna saman hjá Vodafone. Þær hafa æft af krafti og voru að hefja hálfmaraþon hlaup út á Eiðsgranda á Reykjavíkurmaraþon hringnum eins og fjölmargir aðrir hlauparar.