Um hlaupið

  • Vegalengdir5 km
  • Dagsetning19. desember 2023
Sjá úrslit

Hlaupahópurinn Flandri í Borgarnesi stendur fyrir mánaðarlegum Flandrasprettum yfir vetrarmánuðina frá október til mars, þ.e.a.s. 6 sprettum á ári. Sprettirnir eru hlaupnir þriðja þriðjudagskvöld hvers mánaðar og vegalengdin er 5 km með upphaf og endi við Íþróttamiðstöðina í Borgarnesi.

Skráning

Hlaupin hefjast kl. 20:00 við Íþróttamiðstöðina í Borgarnesi. Sala þátttökuseðla hefst klukkustund fyrr í anddyrinu. Seðillinn kostar 1.180 kr. en frítt er í hlaupið fyrir 18 ára og yngri. Engin greiðslukortaþjónusta er á staðnum. Fyrirkomulagið er þannig að þátttakendur fylla út seðilinn, hlaupa með hann og skila honum svo þegar þeir koma í mark. Nauðsynlegt er að skila seðlinum til að fá hlaupatímann skráðan.

Leiðin

Sjá kort af leiðinni aftast í þessari lýsingu.

Hlaupið er innanbæjar í Borgarnesi á upplýstum götum og gangstéttum, frá íþróttamiðstöðinni, áleiðis norður nesið og svipaða leið til baka. Leiðin er mishæðótt en alveg laus við fjöll. Mesta hæð er um 40 m.y.s. og á leiðinni eru m.a. 6 stuttar brekkur með u.þ.b. 20 m. hækkun. Merkingar og brautarvarsla eru í lágmarki og því æskilegt að sem flestir kynni sér leiðina sem best áður en lagt er af stað.

Nánar tiltekið er hlaupið frá Íþróttamiðstöðinni, til norðurs upp Þorsteinsgötu, þá til vinstri og svo áfram norður Kjartansgötu. Þegar Kjartansgatan er á enda er beygt til vinstri og hlaupið norður Kveldúlfsgötu, næstum til enda. Þar er beygt til hægri við hornið á blokkunum, síðan meðfram blokkunum, upp stutta dimma brekku upp á Þórðargötu og áfram beint upp á aðalgötuna (Borgarbraut) gegnt Vírneti. Þar er beygt til vinstri, hlaupið yfir Dílahæð og síðan yfir aðalgötuna á gangbrautinni við leikskólann Klettaborg. Áfram er svo hlaupið til norðurs eftir göngustíg meðfram aðalgötunni, yfir næstu hæð með pizzustaðinn La Colina á hægri hönd og inn á Kvíaholt. Kvíaholt er svo hlaupið áfram til norðurs, að snúningspunkti við biðskyldumerki við gatnamót skammt frá Húsasmiðjunni. Þar eru u.þ.b. 2,65 km að baki. Leiðin liggur síðan sömu leið til baka, nema hvað í stað þess að beygja til móts við Vírnet er aðalgötunni (Borgarbraut) fylgt sem leið liggur framhjá heilsugæslustöðinni og Hótel B59, upp brekkuna og síðan til hægri þegar upp er komið, þá næstum strax til vinstri og eftir Þorsteinsgötu niður brekku og beint í mark við Íþróttamiðstöðina.

Flandrasprettir 2023-2024
  • Þriðjudagur 17. október
  • Þriðjudagur 21. nóvember
  • Þriðjudagur 19. desember
  • Þriðjudagur 16. janúar
  • Þriðjudagur 20. febrúar
  • Þriðjudagur 19. mars

Aldursflokkar

Aldursflokkaskipting verður sem hér segir, bæði hjá körlum og konum:

  • 18 ára og yngri
  • 19-39 ára
  • 40-49 ára
  • 50 ára og eldri

Röðun í aldursflokka miðast við fæðingarár og ártalið 2023. Þátttakendur flytjast með öðrum orðum ekki milli aldursflokka um áramót. Þetta þýðir t.d. að hlaupari sem fæddur er árið 1984 telst 39 ára í allri hlauparöðinni.

Stigakeppni

Stig í hverjum aldursflokki reiknast þannig:

  • 1. sæti gefur 10 stig
  • 2. sæti gefur 9 stig
  • .....
  • 10. sæti gefur 1 stig

Samanlagður stigafjöldi í öllum hlaupunum sex segir til um röðina í heildarstigakeppni vetrarins.

Úrslit og verðlaun

Öll úrslit og staðan í stigakeppninni verða birt á hlaup.is eins fljótt og kostur er eftir hvert hlaup. Stigahæstu einstaklingar í hverjum aldursflokki fá afhent verðlaun að loknum síðasta spretti vetrarins, svo og stigahæsta kona og stigahæsti karl óháð aldursflokkum.

Búningsaðstaða og sund

Hægt er að nýta búningsaðstöðu í íþróttamiðstöðinni, auk þess sem þar er að sjálfsögðu sundlaug, eimbað, sauna, heitir pottar og kalt kar. Stakt gjald fyrir fullorðna er 1.180 kr og er ekki innifalið í þátttökugjaldi. Íþróttamiðstöðin er opin til kl. 22.

Sprettur eða ekkisprettur

Þrátt fyrir nafngiftina er Flandraspretturinn ekki endilega spretthlaup í ýtrustu merkingu þess orðs. Hlaupið er fyrir alla, hvort sem þeir eru byrjendur eða heimsmeistarar. Þátttakendum er frjálst að keppa við hverja sem er, en oftast er maður sjálfur mikilvægasti keppinauturinn. Þess má geta að brautarmet karla er 15:45 mín. (Arnar Pétursson, 2018) og brautarmet kvenna 19:20 mín (Arndís Ýr Hafþórsdóttir, 2013), en svo hafa líka margir lokið hlaupinu á 35-40 mín. Samtals hafa rúmlega 300 manns hlaupið Flandrasprett frá upphafi.

Á eigin ábyrgð

Keppendur taka þátt í Flandrasprettinum á eigin ábyrgð. Framkvæmdaaðilar eru á engan hátt ábyrgir fyrir skaða sem keppendur hugsanlega verða fyrir eða valda öðrum meðan á þátttöku stendur.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar er helst að fá hjá aðalyfirstjórn Flandra. Í henni sitja:
Elín Davíðsdóttir (elladav@simnet.is)
Ingveldur H. Ingibergsdóttir (ihi@bondi.is)
Stefán Gíslason (stefan@environice.is)