Flensborgarhlaupið er frábært æfingahlaup fyrir hlaupara og hlaupahópa. Það fer fram í 13. sinn í Hafnarfirði þriðjudaginn 16. september. Allur ágóði af Flensborgarhlaupinu 2025 rennur til Píeta samtakanna. Í tilefni af gulum lit samtakanna og guls september væri gaman ef þátttakendur hafa tök á að klæðast einhverju gulu í hlaupinu. Hlaupið hefst á göngustíg fyrir framan Íþróttahúsið við Strandgötu.
Sjáðu myndir frá fyrri hlaupum:
- Flensborgarhlaupið 2024
- Flensborgarhlaupið 2023
- Flensborgarhlaupið 2019
- Flensborgarhlaupið 2017
- Flensborgarhlaupið 2016
Tímasetning
Þriðjudagurinn 16. september 2025 kl. 17:30.
Vegalengdir
10 km og 5 km með tímatöku og 3 km skemmtiskokk án tímatöku. Vegalengdir eru mældar af viðurkenndum aðilum. Hlaupið er ræst þannig að fyrst fara 10 km hlauparar af stað, svo 5 km og loks 3 km.
Hlaupaleiðin og staðsetning
Hlaupaleiðin er svokölluð Bessastaðaleið – sjá kort hér fyrir neðan og lýsingu hér á eftir.
Hlaupið hefst við strætisvagnaskýlið við Fjarðargötu gegnt íþróttahúsinu (Strandgötu). Hlaupið er á göngustígnum framhjá Norðurbakka í átt að Sundhöllinni og samhliða Herjólfsgötu eins langt og hægt er á göngustígnum, alla leið framhjá Hrafnistu, Herjólfsbraut og upp á gamla Álftanesveginn. Þar er beygt til vinstri (í vestur), inn á gamla Álftanesveginn, að undirgöngunum undir nýja Álftanesveginn, að skilti sem vísar m.a. á varpland og þar nærri verður snúningspunktur. Þaðan er farin sama leið til baka niður á Fjarðargötu. Drykkjarstöð er á miðri leið fyrir þá sem hlaupa 10 km.
Skráning
Skráning fer fram hér á hlaup.is, sjá hér fyrir ofan, til kl. 13 á hlaupdegi. Ekki er hægt að skrá á staðnum en afhending keppnisgagna er frá kl 16:00 í Íþróttahúsinu við Strandgötu. Verðlaunaafhending fer einnig fram Íþróttahúsinu við Strandgötu að hlaupi loknu.
Þátttökugjald
Skráningargjöld eru eftirfarandi:
- 1.500 kr. óháð vegalengd (18 ára og yngri)
- 3.000 kr. fyrir 10 km og 5 km hlaup
- 1.500 kr. fyrir skemmtiskokk, 3 km
Verðlaun
Verðlaun verða veitt fyrir þrjú fyrstu sætin í kvenna- og karlaflokki. Einnig verður framhaldsskólameistari kvenna og karla krýndur. Verðlaunaafhending hefst ca klukkan 18:30.