Þátttökugjald

  • 7 km4.000 kr
  • 26 km8.000 kr
  • 50 km11.000 kr

Um hlaupið

  • Vegalengdir7 km, 26 km, 50 km
  • Dagsetning27. júlí 2024
Sjá úrslit

Pósthlaupið er 50 km utanvegahlaup frá Hrútafirði yfir í Búðardal (600 m hækkun, 2 ITRA-stig). Í boði er einnig að hlaupa hálfa leið, um 26 km (1 ITRA-stig), eða síðasta spölinn í Búðardal, 7 km. Yngsta kynslóðin og áhangendur hennar geta valið að fara Póststubbinn, 1,5 km skemmtiskokk í bænum (þátttakendur fá glaðning). Hlaupið fer fram laugardaginn 27. júlí.

Sjáðu myndband frá fyrsta hlaupinu 2022.

Leiðarlýsing

Pósthlaupið er um 50 km utanvegahlaup sem hefst við Bálkastaði í Hrútafirði. Hlaupin er gömul landpóstaleið yfir Haukadalsskarð vestur í Haukadal og sem leið liggur niður dalinn, meðfram Haukadalsvatni, niður á reiðstíg við Vestfjarðaveg í Dölum og eftir honum og Vestfjarðavegi alla leið í Búðardal.

Fyrstu 15 km hlaupsins eru nokkuð á fótinn en eftir það er leiðin meira og minna niður á við eða flöt. Hækkunin er samtals um 600 m og hæsti punktur er í Haukadalsskarði.

Nokkurn veginn á miðri leið er Kirkjufellsrétt (nálægt bænum Smyrlhóli í Haukadal) og þar verður 26 km hlaupið ræst um það bil sem von er á hlaupurum úr Hrútafirði.

Loks er hægt að velja síðasta legginn, um 7 km leið frá Búðardalsflugvelli á Kambsnesi yfir í Búðardal. Hlaupið verður ræst þegar von er á hlaupurum úr lengri hlaupunum.

Sætaferðir verða úr Búðardal að rásmörkum við Bálkastaði, Kirkjufellsrétt og Búðardalsflugvöll. Á leiðinni verður boðið upp á drykkjarstöðvar og brautargæslu. Í marki verður boðið upp á hollar veitingar úr héraði.

Posthlaupid2022 18
Kort og hæðarkort

Kort af leiðinni er neðst á þessari síðu. Sjá líka hér fyrir neðan.

Sætaferðir

Sætaferðir verða að morgni hlaupadags úr Búðardal að rásmörkum við Bálkastaði, Kirkjufellsrétt og Búðardalsflugvöll. Þeir sem afþakka sætaferðina við skráningu geta þó pantað far með því að senda tölvupóst á ragnark@postur.is, í síðasta lagi 20. júlí 2024 (ef enn eru laus sæti).

Rástímar og rútuferðir
  • 50 km kl. 9:00 frá Bálkastöðum
    Rúta fer frá pósthúsinu í Búðardal kl. 7:45
  • 26 km kl. 11:30 frá Kirkjufellsrétt (nálægt bænum Smyrlhóli)
    Rúta fer frá pósthúsinu í Búðardal kl. 10:30
  • 7 km kl. 13:30 frá Búðardalsflugvelli.
    Rúta fer frá pósthúsinu í Búðardal kl. 13:00
  • Póststubburinn verður ræstur kl. 12:30 á MS-planinu í Búðardal

Skráning og þátttökugjald

Skráning fer fram á hlaup.is sjá hér fyrir ofan. Hægt verður að skrá sig til kl. 12:00 föstudaginn 26. júlí. Þátttökugjöld eru eftirfarandi:

  • 50 km 9.000 kr. (auk fargjalds 3.000 kr ef óskað er eftir því)
  • 26 km 6.000 kr. (auk fargjalds 2.000 kr ef óskað er eftir því)
  • 7 km 2.500 kr. (auk fargjalds 1.000 kr ef óskað er eftir því)
  • Póststubburinn (1,5 km skemmtiskokk í Búðardal) 0 kr. og þátttakendur fá glaðning (skráning á staðnum)

Hinn 5. júlí 2024 hækka gjöldin í 11.000 kr., 8.000 kr. og 4.000 kr.

Innifalið í þátttökugjaldi er:

  • Tímataka og númer
  • Brautar- og öryggisgæsla
  • Drykkir og næring á drykkjarstöðvum og í marki
  • Salernisaðstaða við rásmark (50 km, 26 km og 7 km) og í marki
  • Flutningur á farangri frá rásmarki að endamarki
  • Verðlaun (fyrir þrjú fyrstu sætin í karla- og kvennaflokki), auk útdráttarverðlauna

Afhending keppnisgagna er kl. 11-18 fimmtudaginn 25. júlí og föstudaginn 26. júlí í versluninni Hlaupár, Fákafeni 11 í Reykjavík, og á keppnisdag, 27. júlí, við pósthúsið í Búðardal.

Athugið að skráningu í hlaupið lýkur kl. 12:00 föstudaginn 26. júlí.

Hagnýtar upplýsingar

Rúta flytur hlaupara að startinu við Bálkastaði, Kirkjufellsrétt og Búðardalsflugvelli (kl. 7:45, 10:30, 13:00). Á leiðinni verður boðið upp á drykkjarstöðvar og brautargæslu. Við rásmark í hlaupunum þremur er salernisaðstaða, sem og í Búðardal. Að loknu hlaupi verður hlaupurum boðið upp á holla hressingu úr héraði. Nánari upplýsingar er að finna á Facebook-síðu hlaupsins.

Drykkjarstöðvar

Drykkjarstöðvar verða við virkjun i í Ormsá (um 8 km), efst í Haukadalsskarði (15 km), við Kirkjufellsrétt (24 km), við Haukadalsvatn (37 km) og á Breiðamel (46 km). Síðustu tvær drykkjarstöðvarnar þjóna einnig hlaupurum sem ætla 26 km.

Á drykkjarstöðvunum verður boðið upp á vatn og orkudrykk. Hlauparar koma með eigin mál eða brúsa undir drykki þar sem ekki verða í boði einnota mál. Við endamarkið við pósthúsið í Búðardal verður veitt hressing úr héraði.

Brautarvarsla og merkingar

Auðvelt er að rata alla leið þar sem hlaupið er eftir jeppaslóða framan af og fjallvegi síðari hlutann þar til komið er niður að þjóðvegi. Þá er farið eftir reiðvegi sem liggur meðfram þjóðveginum. Síðasti spölurinn liggur um Búðardal. Merkingum verður komið fyrir þar sem hætt er við að einhver geti villst og brautarvarsla verður við vegamót. Á leiðinni eru margir lækir sem ekki eru farartálmar fyrir hlaupara. Á einum stað þurfa 50 km hlauparar að vaða Haukadalsá og þar verður aðstoðarfólk til taks.

Verðlaun

Verðlaun verða veitt fyrir þrjú efstu sætin í karla- og kvennaflokkum í hverri vegalengd, auk útdráttarverðlauna.

ITRA-stig

Pósthlaupið hefur verið metið af ITRA (International Trail Running Association) og úthlutað ITRA-stigum:

  • 50 km = 2 ITRA-stig
  • 26 km = 1 ITRA-stig

Skilmálar

Þátttakendur taka þátt í hlaupinu á eigin ábyrgð og eiga ekki kröfurétt á framkvæmdaaðila hlaupsins vegna atburða sem verða í tengslum við hlaupið. Skráður þátttakandi er ábyrgur fyrir hlaupanúmeri og er óheimilt að láta það öðrum í té til þátttöku í hlaupinu. Sá sem hleypur með númer sem ekki er skráð á hann af mótshaldara er ekki gildur þátttakandi.

Hægt er að fá 50% af þátttökugjaldinu endurgreitt til 1. júlí 2024 með því að senda póst á ragnark@postur.is. Ef mótshaldari þarf að aflýsa hlaupinu með stuttum fyrirvara vegna náttúruhamfara, veðurs eða annarra ófyrirsjáanlegra ástæðna verða 50% þátttökugjaldsins endurgreidd. Óska má eftir nafnabreytingu með því að senda póst á ragnark@postur.is.

Þátttakendum ber að sýna náttúrunni virðingu og ekki er heimilt að henda neinu rusli á leiðinni, nema í þar til gerð ílát á drykkjarstöðvum. Sýna ber öðrum þátttakendum, göngufólki og hestamönnum tillitssemi á leiðinni og hlýða fyrirmælum starfsfólks í hvívetna. Utanaðkomandi aðstoð við keppendur er óheimil, nema í neyð. Þátttakendum ber að aðstoða aðra þátttakendur í neyð þar til önnur viðeigandi hjálp berst.

Þátttakendur bera ábyrgð á eigin búnaði og ber að klæða sig eftir veðri og veðurspá. Skyldubúnaður í lengsta hlaupinu er eftirfarandi:

  • Drykkjarmál eða brúsi til að sækja vatn í læki og á drykkjarstöðvum
  • Fullhlaðinn farsími
  • Álteppi
  • Flauta
  • Húfa/buff og hanskar

Þátttakendur skulu hafa keppnisnúmer sýnilegt allt hlaupið.

Keppnisstjóri getur vísað þeim sem fylgja ekki settum reglum úr hlaupinu. Einnig er keppnisstjóra heimilt að stöðva hlaupið eða aflýsa því vegna utanaðkomandi aðstæðna.

Með skráningu í hlaupið samþykkir þátttakandi framangreinda skilmála.

Gisting og afþreying

Á svæðinu eru fjölmargir gistimöguleikar og ýmis afþreying í boði, sjá booking.com og west.is.

Sundlaug

Hlauparar eru velkomnir í sundlaugina á Laugum í Sælingsdal sem er opin kl. 10-18 alla daga.

Nánari upplýsingar

Facebook-síða hlaupsins er Pósthlaupið. Nánari upplýsingar veitir hlaupstjóri, Ragnar Kristinsson (ragnark@postur.is), sími 825 1084.

Kort af hlaupaleiðum

Sjá kort af hlaupaleiðinni neðst á þessari síðu.