Powerade vetrarhlaupin 2024-2025 - Febrúar

Um hlaupið

  • Vegalengdir10 km
  • Dagsetning13. febrúar 2025

Powerade Vetrarhlaupið verður á sínum stað í vetur líkt og áður. Alls verða hlaupin sex og verða þau haldin annan fimmtudag í mánuði, frá október fram í mars.

Dagsetning hlaupanna:

  • 10. október 2024
  • 14. nóvember 2024
  • 12. desember 2024
  • 9. janúar 2025
  • 13. febrúar 2025
  • 13. mars 2025

Hlaupin byrja klukkan 19:30 við Árbæjarlaugina. Allir þátttakendur þurfa að vera með rásnúmer. Hægt er að nota rásnúmer úr fyrri hlaupum eða nálgast þau við Árbæjarlaugina fyrir hlaup. Rásnúmerið er með áfastri flögu. Varist að beygla eða beygja flöguna það getur eyðilagt hana. Rásnúmerið er margnota og hægt að nota í öllum Vetrarhlaupunum ef vel er með farið, geymið því á vísum stað milli hlaupa. 

Skráningin í hlaupið er gerð á netskraning.is. Skráning án rásnúmers með flögu er ekki möguleg. Þátttökugjaldið er 1.000 kr. Engin skráning, enginn tími.

Leiðin

Vegalengdin er 10 km og fer hlaupið fram á göngustígum í Elliðaárdal.

Hlaupið hefst á stígnum fyrir neðan leikskólann Árborg líkt og veturinn 2018-2019. Hlaupið er eftir göngustíg sem liggur upp með Elliðaánum fyrir neðan skeiðvöll Fáks, beygt af yfir göngubrú við Heyvað, þaðan á  malbikuðum göngustíg í átt að Suðurfelli, fyrir neðan Hóla- og Fellakirkju og áfram niður Elliðaárdalinn framhjá Vatnsveitubrúnni, framhjá Árbæjarstíflu, undir Höfðabakkabrú, áfram niður dalinn. Við undirgöng við Blesugróf er tekin hægri beygja eftir tvíbreiðum stíg yfir hólmann og yfir Elliðaár, aftur beygt til hægri og hlaupið eftir Rafstöðvarvegi upp að Árbæjarstíflu, þaðan eftir malbikuðum stíg sem liggur fyrir neðan einbýlishúsabyggðina meðfram ánni beina leið í markið.

Markið er við göngustíginn fyrir neðan gervigrasvöllinn. Allir keppendur frá flösku af Powerade þegar þeir koma í mark.

Þátttakendur þurfa að kynna sér leiðina vel fyrir hlaup enda verður engin brautarvarsla. Þátttakendur skulu sýna öðrum vegfarendum á hlaupaleiðinni tilhlýðilega virðingu og gæta fyllsta öryggis í myrkrinu.

Sjá kort af hlaupaleið hér að neðan. 

Stigakeppni

Stigakeppni virkar þannig:

1. sæti gefur 10 stig
2. sæti gefur 9 stig
3. sæti gefur 8 stig
4. sæti gefur 7 stig
5. sæti gefur 6 stig
6. sæti gefur 5 stig
7. sæti gefur 4 stig
8. sæti gefur 3 stig
9. sæti gefur 2 stig
10. sæti gefur 1 stig

og samanlagður stigafjöldi í heildarúrslitum og aldursflokkum í öllum hlaupunum sex gildir.

Aldursflokkar

Í stigakeppninni eru aldursflokkarnir:

Konur
16-29
30-34
35-39
40-44
45-49
50-54
55-59
60-64
65-69
70 ára og eldri

Karlar
16-29
30-34
35-39
40-44
45-49
50-54
55-59
60-64
65-69
70-74
75 ára og eldri

Aldur keppenda eins og hann er í fyrsta hlaupinu ákvarðar aldursflokk fyrir öll 6 hlaupin. Þannig flytjast keppendur ekki milli aldursflokka eftir fyrsta hlaup vetrarins.

Stigakeppni skokkhópa
Stig keppenda í stigakeppni aldursflokka gilda einnig í stigakeppni skokkhópa. Því til viðbótar er veitt eitt stig fyrir hvern þátttakanda sem tekur þátt en nær ekki stigi í stigakeppni aldursflokka. Mikilvægt er að skráning í hlaupahóp sé rétt.

Stigakeppni para
Samanlagður tími pars ákvarðar sæti.  Stigagjöf er með sama hætti og í annarri stigakeppni.  Par verður að vera kærsutupar, par í staðfestri sambúð eða hjón.  Þau pör sem hyggjast taka þátt þurfa að skrá sig sérstaklega til framkvæmdaaðila. Skráning flyst sjálfkrafa milli ára.

Úrslit og verðlaun

Öll úrslit ásamt stöðu í stigakeppninni verða birt hér á hlaup.is.

Verðlaunaafhending fer fram í mars að loknum öllum hlaupunum. Veitt verða verðlaun fyrir þrjú fyrstu sætin í stigakeppni heildarúrslit, stigakeppni aldursflokka og stigakeppni para, ásamt farandbikar fyrir fyrsta sæti í stigakeppni hlaupahópa. Einnig verða vegleg útdráttarverðlaun þar sem keppendur fá einn miða í pottinn fyrir hverja þátttöku.

***VIÐVÖRUN***

Þar sem hlaupið er seint að kvöldi er mælt með því að keppendur klæðist skærlitum fatnaði og verði sér jafnvel út um endurskinsvesti. Þegar líður á veturinn getur færið verið varasamt með snjó og hálku, ekki er gert ráð fyrir að hætt verði við hlaup eða það fært til af þessari ástæðu. Keppendur taka þátt á eigin ábyrgð og framkvæmdaaðilar geta á engan hátt verið ábyrgir fyrir skaða sem keppendur hugsanlega verða fyrir eða valda öðrum meðan á þátttöku stendur.

Framkvæmdaraðilar eru: Dagur Egonsson og Pétur Helgason.

Ef þið hafið einhverjar spurningar verið í sambandi (vetrarhlaup@hotmail.com)