Vesturgatan er hluti af Hlaupahátíð á Vestfjörðum. Hlaupið er utanvegahlaup, 10 km (hálf Vesturgata), 24 km (Vesturgatan) eða 45 km (tvöföld Vesturgata).
Upplýsingar um Vesturgötuna
Vesturgatan var fyrst hlaupin árið 2006 og verður hlaupin í tuttugasta sinn 19. júli 2025. Árið 2011 var í fyrsta sinn boðið upp á 45 km Vesturgötu og hefur hún fallið vel í kramið hjá þeim sem hafa tekið þátt. Í hverri vegalengd er keppt í karla og kvennaflokki en einnig keppt í aldursflokkunum, 16-39 ára og 40 ára og eldri.

Hlaupaleiðin
Sjá kort af leiðunum neðst á þessari síðu.
Hlaupið er á Skaganum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, sem gjarnan er kenndur við Sléttanes eða Svalvoga, stundum kallaður Fjallaskagi en kannski oftast nefndur Vestfirsku alparnir. Fyrir skagann er enginn þjóðvegur en þar er stórmerkilegur og löngu landsþekktur ýtuvegur, einkaframtak Elísar Kjaran á áttunda áratugnum.
Rásmark í tvöfaldri Vesturgötu er á Þingeyri. Þaðan verður hlaupið inn Kirkjubólsdal og upp á Álftamýrarheiði. Efsta brún hennar er í 544 m hæð en háheiðin er þó ekki nema nokkrar bíllengdir að lengd. Lækkun hefst því strax aftur og liggur leiðin niður Fossdal að sjó í Arnarfirði og stuttan spöl út að næsta dal, Stapadal. Fyrir neðan Stapadalsbæinn er rásmark í heilli Vesturgötu. Þaðan liggur leið hlaupara úr báðum þessum vegalengdum eftir ýtuvegi Elísar Kjarans út í Lokinhamradal og áfram fyrir Sléttanes að Svalvogum. Nálægt Svalvogum er rásmark í hálfri Vesturgötu. Þaðan er hlaupið að Dýrafjarðarmynni, eftir syllunni í Hrafnholunum inn í Keldudal og þaðan áfram inn Dýrafjörðinn að Sveinseyri. Þar er endamark í öllum hlaupunum. Hlaupið er niður brekku í lokin þannig að allir koma í mark af mikilli reisn.
Skráning
Nánari upplýsingar eru á vef hlaupahátíðarinnar og skráning er hjá netskraning.is
