Hlaup.is fékk fjölbreyttan hóp hlaupara í lið með sér til að gera upp hlaupaárið sem nú er senn á enda. Afraksturinn mun birtast á hlaup.is á þeim vikum sem enn lifa af hlaupaárinu. Af mörgu er að taka, afrekin óteljandi, almenningshlaupin eru alltaf að verða fleiri og betri, fleiri og fleiri fara erlendis að hlaupa og utanvegahlaupin verða vinsælli ár frá ári.Arnar Pétursson, margfaldur Íslandsmeistari í hinum ýmsu vegalengdum ríður á vaðið og gerir upp hlaupaárið 2018. Undanfarna þrjá mánuði hefur Arnar dvalið við æfingar í Bandaríkjunum og kemur því gríðarlega vel stemmdur inn í nýtt hlaupaár.
Hvað stóð upp úr í íslensku hlaupalífi á árinu? Fyrir mér stóð upp úr að fá að taka þátt í verkefni í samstarfi við Íslandsbanka þar sem ég fór í heimsókn til u.þ.b. fimmtán hlaupahópa víðsvegar um landið. Það var ótrúlega gaman að sjá alla hlauparana og hvað það er mikill áhugi fyrir hlaupum almennt. Ég hlakka til að endurtaka vonandi leikinn aftur á næsta ári og koma með ný og skemmtileg tips fyrir alla hlaupara.
Hvaða íslenski hlaupari stóð upp úr á árinu? Það voru ákveðin tímamót fyrir kvennhlaupara í ár þegar Andrea Kolbeinsdóttir varð aðeins önnur konan í sögunni til að fara undir 1:20 í hálf maraþoni og undir 36 mín í10 km. Hún er fyrsti hlauparinn í langan tíma sem á raunhæfa möguleika að ógna metunum hennar Mörthu Ernsdóttur.
Hvað kom þér á óvart á íslenska hlaupaárinu? Það þarf kannski ekki að koma á óvart en mér finnst algjör snilld að sjá hve áhuginn á hlaupum heldur áfram að vaxa og það hefur verið ótrúlega gaman að finna hvað það eru margir sem eru að pæla í hlaupum og hvernig þau geta orðið betri hlauparar.
Hvernig gekk þitt hlaupaár persónulega? Ég gæti ekki verið mikið sáttari með árið í heild sinni. Var heill heilsu allt árið og bætti mig í öllum vegalengdum og hljóp á 1:07:29 í hálfu maraþoni. 2:24:13 í maraþoni og 31:08 í 10 km á götu. Markmiðið er svo að bæta alla þessa tíma á næsta ári en ég er nú þegar búinn að leggja inn gríðarlega góða vinnu í þriggja mánaða háfjallaæfingabúðum í Mammoth Lakes í Bandaríkjunum. Þar hef ég verið að æfa í 2400m hæð við bestu mögulegu aðstæður.
Hvað mun standa upp úr á næsta hlaupaári? Fyrir mig persónulega er markmiðið að hlaupa undir 2:19 í maraþoni 7. apríl í Rotterdam. Fyrir það mun ég hlaupa hálft maraþon í Haag 10. mars en þar verður markmiðið að fara undir 1:06. Annars hef ég mikla trú á að Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka verði það flottasta hingað til.
Eitt atriði sem þarf að bæta í íslensku hlaupasamfélagi? Fleiri mjúka stíga í borginni. Það mætti alveg skilja eftir svona 30cm grasspildu þegar verið er að leggja malbikaða gangstíga svo við hlauparar getum hlaupið á mjúku undirlagi sem mest. Malarstígar og mjúkt undirlag er besti vinur hlauparans.