Þetta er annar veturinn sem hlaupahópurinn Flandri í Borgarnesi stendur fyrir Flandrasprettunum. Sprettirnir fara fram þriðja fimmtudag í mánuði frá október til mars. Stefán Gíslason einn talsmanna Flandraspretts segir að þeir séu góð tilbreyting fyrir hlaupara á höfuðborgarsvæðinu. "Þaðan er um klukkutíma keyrsla upp í Borgarnes, þannig ferðalagið er nógu langt til að brjóta upp grámyglu hversdagsins og nógu stutt til að auðveldlega sé hægt að leggja það á sig á einni kvöldstund," bendir Stefán á. Þetta eru greinilega orð að sönnu hjá Stefáni því um 25% þátttakenda í Flandrasprettum á síðasta starfsári voru af höfuðborgarsvæðinu, 65% úr Borgarfirði og 10% af Ströndum.
Ekki er nóg með að þátttakendur komið víða að heldur eru þeir af öllum getustigum og oft má sjá landsliðsmenn í hlaupum þeysa um götur Borgarness þriðja fimmtudag í mánuði. Þá láta byrjendur sig ekki vanta heldur og hin fjölbreytta flóra þátttakenda gefur hlaupunum skemmtilega ásýnd. Brautin sem er 5 km þykir ekki sérstaklega hröð en fjölbreytt. Brautarmetið í karlaflokki á Arnar Pétursson (16:06) og Arndís Ýr Hafþórsdóttir (19:20) í kvennaflokki.
Stefán segir að stemningin í kringum sprettina sé jafnan mjög góð. "Sú hefð hefur skapast að þeir sem geta hafa brugðið sér í heitu pottana við sundlaugina eftir hlaup til að framlengja gleðina lítið eitt," bætir Stefán við. Það er því full ástæða til að hvetja hlaupara af höfuðborgarsvæðinu til brjóta upp æfingamynstrið, drífa sig upp í Borgarnes og taka þátt í Flandrasprett. Næsti Flandrasprettur fer fram þann 19. desember en hlaupið er frá íþróttamiðstöðinni.
Nokkrar myndir frá nóvember hlaupi 2013
Skráning í gangi Starfsfólk hlaupsins tilbúið að taka á móti hlaupurum Hlaupari geysist í markið eftir að hafa lagt 5 km hlaup að baki Stefán Gíslason lengst til hægri með nokkrum hlaupurum að hlaupi loknu Potturinn að loknu hlaupi í Sundlaug Borgarness
Heimir Snær Guðmundsson