Siggi P hljóp er flottu formi, hér er hann á fullri ferð í 10 km hlaupi í Reykjavíkurmaraþoninu síðasta sumar þar sem hann kom í mark á 38.30.Sigurður Pétur Sigmundsson (Siggi P), fyrrum Íslandsmethafi í maraþoni og kunnur hlaupaþjálfari er íslenskum hlaupurum að góðu kunnur. Um áramótin fengum við valinkunna aðila úr hlaupaheiminum til að fara yfir hlaupaárið 2014. Siggi P ætlar að loka hringnum og leiða okkur í allan sannleika um hlaupaárið 2014 ásamt því að skyggnast örlítið inn í framtíðina.Hlaupaárið 2014, hvað stóð upp úr?Það sem er að mínu mati athyglisverðast er hinn mikli áhugi sem nú er á hollustu og hreyfingu, sérstaklega hlaupum.
Um það vitnar fjöldi hlaupahópa sem eru með öflugt starf, mikill fjöldi hlaupaviðburða og gríðarleg þátttaka í hlaupum, sama hvernig viðrar. Þá er eftirtektarvert hversu margir taka þátt í hlaupaviðburðum erlendis, sennilega nokkur hundruð á síðasta ári. Árangur hlaupara hefur batnað í takt við þessa þróun og þá er ég sérstaklega að tala um breiddina. Til marks um breiddina má nefna að hlauparinn í 55. sæti á lista yfir bestu maraþontíma karla lauk kílómetrunum 42,2 á 3:18:14 og konan í 55. sæti á 3:57:01. Fólk æfir meira og af meiri skynsemi en áður sem skilar sér í betri hlaupurum.
Hvaða afrek hjá íslenskum hlaupurum stóðu upp úr árinu, var eitthvað sem kom á óvart?
Það er einkum tvennt sem mér fannst skara fram úr á síðasta ári. Fyrst vil ég nefna Íslandsmet (1:05:13) Kára Steins í hálfmaraþoni á HM í Kaupmannahöfn í lok mars. Einkar ánægjulegt að Ísland sendi sveitir karla og kvenna til keppni í því móti og fyrir mig persónulega að fá að fylgja þessu góða íþróttafólki eftir sem fararstjóri.
Í annan stað vil ég nefna frábæran árangur Þorbergs Inga í Laugavegshlaupinu er hann bætti brautarmetið um 12 mínútur (4:07:47). Þá má nefna gott hlaup hjá Arndísi Ýr Hafþórsdóttur í hálfmaraþoninu á HM (1:20:02). Loks vil ég nefna að margir í öldungaflokkum stóðu sig frábærlega á árinu. Nefni ég þar sérstaklega Stefán Guðmundsson (44 ára) sem hljóp maraþon á 2:34:56, Ívar Jósafatsson (53 ára) sem hljóp 10 km á 35:47 og hálfmaraþon á 1:19:54 og Mörthu Ernstsdóttur (50 ára) sem hljóp hálfmaraþon á 1:24:24.
Hvernig fannst þér íslenska hlaupaárið, erum við á réttri leið?
Í heildina erum við á réttri leið en alltaf má bæta eitthvað eins og t.d. framkvæmd hlaupaviðburða. Það er eilíft verkefni. Þekking og þjálfun hlaupara þróast í rétta átt sem er mikilvægt. Mér hefur lengi fundist að gera mætti meira fyrir afrekshlauparana og lít þar sérstaklega til Reykjavíkurmaraþons. Því miður hefur breiddin meðal fyrstu 10 á afrekaskrá langhlaupa lítið breyst síðustu 30 árin. Með auknum stuðningi og fleiri áhugaverðum verkefnum fyrir þá bestu getur það breyst smá saman. Þá finnst mér vanta áhugaverð hlaup fyrir krakka og unglinga. Í því sambandi minnist ég þess hversu miklu máli Hljómskála- og Breiðholtshlaupin skiptu fyrir mig á árunum 1970-1974.
Hvaða væntingar hefur þú til hlaupaársins 2015, eru stór afrek í kortunum?
Ég hef miklar væntingar til þessa árs. Sagði í blaðaviðtali haustið 2011 að ég hefði trú á því að Kári Steinn gæti náð 2:12-2:13 í maraþonhlaupi(innsk. Íslandsmet Kára Steins er 2:17.12). Stend við það, en nú þarf hann að taka gott skref í þá átt. Tel að hann þurfi að hlaupa á 2:15 í ár sem góðan áfanga fyrir Ólympíuleikana 2016. Ég er sannfærður um að hann geti hlaupið nálægt 1:04 í hálfmaraþoni í ár sem myndi gefa honum gott svigrúm fyrir maraþonið (innsk. Íslands met Kára Steins er 1:05:13). Þá vonast ég til að Þorbergur Ingi nái loks góðu maraþonhlaupi en hann á mikið inni. Mikilvægt hjá honum að komast hjá meiðslum sem hafa fylgt honum óþarflega mikið á ferlinum.
Hjá konunum vænti ég þess að Arndís haldi áfram að bæta sig en ég tel hana eiga góða framtíð fyrir sér í maraþonhlaupi síðar meir. Þá er að koma upp góður kjarni ungra hlaupara 15-23 ára sem getur náð langt á næstu árum. Sérstaklega finnst mér ánægjulegt að sjá hversu öflugar stúlkurnar eru en María Birkisdóttir (19 ára), Guðlaug Edda Hannesdóttir (20 ára) og Andrea Kolbeinsdóttir (15 ára) hlupu allar undir 39 mín í 10 km á síðasta ári þó þær æfi einkum fyrir millivegalengdahlaup.
Sjá einnig hlaupaannál hlaup.is 2014:
Gunnar Páll Jóakimsson fer yfir hlaupárið 2014
Arnar Pétursson fer yfir hlaupárið 2014
Arndís Ýr Hafþórsdóttir fer yfir hlaupárið 2014
Stefán Gíslason fer yfir hlaupárið 2014