Rannveig í Reykjavíkurmaraþoninu síðasta haust.Hlaup.is heldur áfram að gera upp hlaupaárið 2015. Rannveig Oddsdóttir, hlaupadrottning og þjálfari hjá UFA Eyrarskokki á Akureyri ætlar að loka hringnum en hún er síðust í röð þeirra sem aðstoðuðu hlaup.is við að gera upp hlaupaárið 2015.Hvað stóð upp úr í íslensku hlaupalífi á árinu?Vaxandi áhugi á náttúruhlaupum og ofurhlaupum er það sem mér finnst hafa staðið uppúr í hlaupalífinu nokkur undanfarin ár. Hinn almenni hlaupari vílar það orðið ekkert fyrir sér að hlaupa upp um fjöll og firnindi og taka þátt í hlaupum sem eru tugir kílómetra. Viðhorfin hafa breyst hvað þetta varðar á undanförnum árum.Þegar ég var að byrja að hlaupa fyrir nærri 20 árum var Laugavegurinn t.d. bara á færi þeirra allra brjáluðustu. Nú þykir ekkert tiltökumál að skokka hann.
Hvaða íslenski hlaupari stóð upp úr á árinu?
Klárlega Þorbergur Ingi Jónsson með árangri sínum í fjallahlaupum. Tobbi hefur sýnt ótrúlega seiglu í æfingum og ekki látið meiðsli koma í veg fyrir að setja sér háleit markmið. Hann náði mjög góðum árangri á heimsmeistaramótinu í fjallahlaupum í Annecy í lok maí þegar hann náði níunda sæti. Í júlí stórbætti hann eigið Laugavegsmet. Í Mt. Blanc CCC hlaupinu (101 km) í ágúst sýndi hann svo enn og aftur hvað í honum býr. Hitinn reyndist honum erfiður og mátti litlu muna að ofurmennið þyrfti að játa sig sigrað, en hann reif sig upp úr því, kláraði hlaupið og endaði í 16. sæti.
Hvað kom þér á óvart á íslenska hlaupaárinu?
Brautarmet Tobba á Laugaveginum. Hann tók vel af metinu í fyrra og í ár átti að heita svo að hann væri að hlaupa þetta sem æfingahlaup auk þess sem aðstæður voru frekar erfiðar.
Hvernig gekk þitt hlaupaár persónulega?
Ég hef átt við þrálát meiðsli að stríða undanfarin ár og þetta ár líkt og þau síðustu einkenndist af upp- og niðursveiflum. Heilt yfir var uppsveiflan þó meiri en niðursveiflan og eftir að hafa verið í basli í vor náði ég nokkrum ágætum hlaupum í sumar. Þar standa uppúr utanvegahlaupin sem ég tók þátt í. Fyrst Dalahlaupið sem var reyndar heldur þungfært fyrir minn smekk. Næst Snæfellsjökulshlaupið sem er eitthvert flottasta hlaup sem ég hef tekið þátt í og loks Fjögurra skóga hlaupið sem stóð vel fyrir sínu. Tvö þau síðarnefndu hefur mig dreymt um að hlaupa í nokkur ár, en ekki getað verið með vegna meiðsla, svo það var gaman að geta a.m.k. verið með og auðvitað enn skemmtilegra að finna að ég er enn í nægilega góðu formi til að hanga inni á topp fimm listanum í helstu vegalengdum götuhlaupa. Nú hef ég verið í ágætu standi undanfarna mánuði og leyfi mér að vera þokkalega bjartsýn á framhaldið og næsta sumar.
Hvað mun standa upp úr á næsta hlaupaári?
Það hafa verið að koma upp margir efnilegir hlauparar svo það verður spennandi að sjá hvað þeir gera á nýju ári og gömlu kempurnar eiga örugglega eftir að standa fyrir sínu líka. Það verður spennandi að sjá hvort við komum til með að eiga fulltrúa í maraþoni á Ólympíuleikunum og ég hef trú á því að árangur okkar í fjallahlaupum eigi eftir að vera nokkuð í sviðsljósinu. Tobbi, Elísabet Margeirsdóttir og fleiri hafa verið að gera góða hluti og það kæmi mér ekki á óvart þó fleiri ættu eftir að hasla sér völl þar.
Eitt atriði sem þarf að bæta í íslensku hlaupasamfélagi?
Mér finnst íslenskt hlaupasamfélag vera frábær félagsskapur, samfélag þar sem ríkir mikil vináttu- og fjölskyldustemning og ekki margt sem hægt er að bæta hvað það varðar. Hins vegar mætti bæta svolítið umgjörðina um keppnishlaupin okkar. Þar finnst mér að FRÍ gæti gert svolítið betur í því að styðja við félögin í hlaupahaldi, s.s. hvað varðar mælingar, merkingar og framkvæmd þannig að allir viti að hverju þeir ganga og það séu ekki að koma upp vafamál og kærur eftir hlaup. FRÍ hefur verið að taka þetta fastari tökum á undanförnum árum en það má enn gera betur.