Hlauparar úr Skokkhópi Hauka tóku þátt í Maxi race sem fór fram í Annecy í Frakklandi þann 25. maí síðastliðinn. Hlaupararnir eru Anton Magnússon, Guðrún Ásta Árnadóttir, Hildur Aðalsteinsdóttir, Karl Rúnar Þórsson, Kristín Gestsdóttir, Marinó Albertsson, Stefán Georgsson en Páll Már Pálsson meiddist rétt fyrir hlaup.
Forréttindi að hlaupa í dýrðinni
Anton og Hildur voru skráð í 115 km með um 7200 m hækkun. Guðrún, Karl, Kristín, Marinó og Páll voru skráð í 85 km með 5200 m hækkun en því miður meiddist Páll rétt fyrir hlaup. Hlaupið fór fram í fallegum fjallagarði í kringum Annecy vatnið sem umlykur borgina. Hópurinn var sammála um það að náttúrufegurðin hefði verið af dýrara taginu og var tíðrætt um þau forréttindi sem fylgja því að hlaupa í slíku umhverfi.
Hlaupið var ræst 25. maí , á miðnætti í 115 km hlaupinu og 3:30 í 85 km hlaupinu.
Hópurinn ákvað að leita aðstoðar Elísabetar Margeirsdóttur varðandi æfingaáætlanir. „Þið völduð ekki léttasta hlaupið," sagði Elísabet strax á fyrsta fundi við hlauparana úr Hafnarfirði enda hæðarprófíllinn einkar veglegur.
Erfið niðurhlaup og sleipt undirlag
„Leiðin var tæknilega krefjandi, þar sem brattinn var mikill og mjög grýtt á köflum. Síðan komu niðurhlaupin og ekki voru þau léttari þar sem oft vorum við að hlaupa beint niður með lengsta niðurhlaupið 10 km. Aðstæður í hlaupinu voru þokkalegar. Við vorum heppin með hitastig og litla sól en fengum úrhellisrigningu sem gerði það að verkum að brautin var sleip sem hægði verulega á niðurhlaupunum. Það má lýsa hlaupinu svona: nokkurra kílómetra löng niðurhlaup á krefjandi stígum með virkilega sleipu og grófu undirlagi. Klettapríl, drulla, leir, sleipur laufmassi, rætur og trjábolir þar sem allt varð enn sleipara í rigningunni," segir Hildur Aðalsteinsdóttir í samtali við hlaup.is þegar hún er beðin um að lýsa hlaupinu.
Eins og gengur og gerist í hlaupi af þessu tagi eru tímamörk nokkrum sinnum á leiðinni sem hlauparar þurfa að ná. Fremstu tímamörkin voru frekar krefjand að mati Haukamanna, þannig að hlauparar þurftu að halda sér vel við efnið fyrstu kaflana í hlaupinu en gátu síðan hægt á sér. Tímamörkin í 115 km hlaupinu voru 36 klst og í 21 klst í 85 km hlaupinu. Þess má geta að í 115 km hlaupinu þá kom síðasti einstaklingur inn á 31 klst og 30 mín.
Mismikil reynsla en nægði til að koma öllum í mark
Að sögn Hildar var hópurinn með ágæta reynslu af utanvegahlaupum en mismikla þó. „Þau sem fóru 85 km voru öll búin að fara Laugaveginn. Lengsta hlaup Antons var 100 km götuhlaup og hafði hann hlaupið Laugaveginn nokkrum sinnum. Sjálf fór ég í fyrsta skiptið í 85 km utanvegahlaup á Spáni í fyrra auk þess að hafa hlaupið Laugaveginn. Allir komust í mark en það er alltaf fyrsta markmið hjá hlaupara sem fer fyrsta skiptið í svona langt hlaup. Það er alls ekki sjálfgefið að allir komist í mark og má nefna að í 115 km hlaupinu voru 1100 skráðir en ekki nema 640 sem kláruðu. Í 85 km hlaupinu voru 1800 skráðir en 1290 sem luku keppni."
Þegar Hildur er spurð hvar hópurinn hefði æft fyrir hlaupið nefnir hún uppland Hafnarfjarðar, Hvítasunnuhlaupsleiðina, Hvaleyrarvatn og Esjuna. „Við sem vorum að fara lengra hlaupið tókum að meðaltali 43-45 Esjur á æfingatímabilinu. Oftar en ekki fórum við svokallaðan Bibbu hring en þá nær maður lengra niðurhlaupi. Lengstu æfingar hjá hópnum voru t.d Tindahlaupið og Hengils hlaupið. Megnið af lengstu æfingum okkar fóru þó fram á Esjunni með t.d fjórum ferðum upp + nokkra hringi í skógræktinni eða hlaupum frá sundlauginni á Varmá og t.d. tvo Bibbu hringi og til baka. Hlaupaleiðin var fjögur fjöll í 85 km og sex fjöll í 115 km hlaupinu. Við vorum öll sammála um það hversu miklu fjallabröltið á Esjunni skilað sér fyrir hlaupið," segir Hildur um undirbúninginn.
Miklu skemmtilegra í utanvegahlaupum
Eins og svo margir hlaupahópar fara Haukarnir reglulega í skipulagðar hlaupaferðir, venjan hefur verið að fara annað hvert ár erlendis í götu maraþon og hitt árið í Laugaveginn.
„Hópurinn fór til Munchen í fyrra og kom þá til tals að það væri gaman að breyta til og stefna næst á utanvegahlaup. Að okkar mati eru utanvegahlaup miklu skemmtilegri þar sem hlaupin fara oft fram í fallegri náttúru og fara betur með líkamann," segir Hildur.
„Eftir svona hlaup er hlauparinn alltaf reynslunni ríkari og þegar maður rifjar upp hlaupadaginn hugsar maður oft um eitthvað sem betur hefði mátt fara. Við vorum öll með of mikla næringu þar sem hópurinn var örlítið stressaður yfir hversu vel gengi að nærast á matarstöðvum. Það er oft mjög erfitt að reikna út hversu mikla næringu maður þarf að hafa en maður vill ekki lenda í því klára næringuna á hlaupum."
Hildur nefnir að æfingaprógrammið hafið hentað hlaupinu mjög vel, þau hafi verið mjög vel undirbúinn undir allt fjallabröltið. En eftir á að hyggja hefði verið betra að æfa niðurhlaupin betur enda mjög krefjandi í þessu hlaupi. Þá hafi reynslan kennt þeim að betra sé að stoppa og huga að meiðslum og sárum í miðju hlaupi, það spari einfaldlega tíma og komi hlauparanum einfaldlega til góða.
„Annars erum við rosalega ánægð með ferðina og mælum með því að fleiri taki sig saman og prófi utanvegahlaup. Það þarf ekkert endilega að fara erlendis þar sem nóg er í boði af utanvegahlaupum á sumrin víðsvegar um landið," segir Hildur að lokum.