Strandlengjan í Hafnarfirði er úrvals hlaupaleið.„Okkur í Hlaupahópi FH fannst vanta stutt hlaup sem höfðaði til allra getu- og aldurshópa. Þessi árstími, fyrstu þrír mánuðir ársins var minnst ásetinn öðrum keppnishlaupum og varð því fyrir valinu," segir Gísli Guðmundsson ein af aðalsprautunum á bak við Hlaupaseríu FH og Atlantsolíu.Hlaupasería FH og Atlantsolíu hefst á morgun í sjötta skiptið en hún hóf göngu sína árið 2011. Serían samanstendur af 5 km hlaupum sem fram fara síðasta fimmtudag í mánuði í janúar, febrúar og mars. Hlaup.is tók Gísla tali og spurð nánar út í þetta framtak FH-inga.
Hefur serían tekið einhverjum breytingum á þessum tíma, hvernig hefur umgjörð og þátttaka þróast?
Fyrstu tvö árin var hlaupinu startað frá höfuðstöðvum Atlantsolíu við Lónsbraut. Á þeirri leið var leiðinda þrenging í hlaupaleiðinni við Drafnarslippinn svo við færðum startið á strandstíginn til móts við Íþróttahúsið við Strandgötu. Þaðan höfum við startað undanfarin þrjú ár. Þá erum við með aðstöðu hlaupsins í Íþróttahúsinu gengt startinu, þar sem verðlaun eru veitt í lok hvers hlaups. Fyrsta árið sem hlaupin fóru fram var þátttaka vonum framar eða um 250 manns í hverju hlaupi. Síðan dalaði þátttakan aðeins en hefur aftur stigið og í fyrra tóku um og yfir 200 manns þátt í hverju hlaupi.
Í ár eigum við von á fjölgun en við erum aðeins að breyta til og hverfum frá handtímatöku og verður nú notast við flögutíma. Það er mun nákvæmari mæling auk þess sem tímar birtast strax eftir hlaup. Eins notum við nú forskráningarkerfið á hlaup.is og bindum við miklar vonir við að þessar breytingar við tímatöku og forskráningu muni einfalda alla úrvinnslu og gera gott hlaup enn betra.
Hlaupleiðin ykkar er dálítið skemmtileg þar sem hún liggur meðfram strandlengjunni. Hvernig myndir þú lýsa henni fyrir þá sem ekki þekkja til?
Hlaupið er frá upphafspunkti á strandstígnum til móts við Íþróttahúsið við Strandgötu, til norðurs meðfram strandlengju Hafnarfjarðar, framhjá Norðurbakka, Herjólfsgötu, Hrafnistu og að snúningspunkti nálægt mótum Herjólfsgötu og Heiðvangs og til baka sömu leið. Hjólamenn fylgja fyrsta og síðasta manni. Stígarnir verða hálkuvarðir sé þess þörf.
Hvað viltu segja við hlaupara á höfuðborgarsvæðinu sem eru að pæla í að taka þátt í seríunni ykkar?
Við hvetjum hlaupara af öllum stærðum og gerðum til að taka þátt. Ekki einungis hlaupara á höfuðborgarsvæðinu heldur líka nágranna okkar á landsbyggðinni. Borgfirðingar í Flandra hafa t.d. verið vel sýnilegir hjá okkur undanfarin ár. Hlaupaleiðin er nokkuð flöt og alveg kjörin til bætinga, t.d. var ársbesta tímanum í 5 km götuhlaupi karla 2015 náð á þessari braut (Kári Steinn 15:27). Brautin er löglega mæld og úrslit því skráð inn í afrekaskrá FRÍ. Vegleg verðlaun eru veitt fyrir fyrstu þrjú sætin í karla og kvennaflokki, strax eftir hvert hlaup, verðlaunin eru frá Atlantsolíu sem er aðalstyrktaraðili hlaupaseríunnar. Að loknum hlaupunum þremur verða heildarstigin reiknuð og blásið til veislu í apríl þar sem aldursflokkaverðlaun eru veitt auk fjölda útdráttarverðlauna þar sem hver einstök þátttaka er sett í pott.
DJ Fúsi verður með nokkur upphitunarlög á fóninum fyrir hlaup. Boðið verður upp á drykk í lok hlaups og svo er frítt í Suðurbæjarlaug fyrir hlaupara enda ekkert kærara þreyttum vöðvum en góður pottur.
Skráning í fyrsta hlaupið í Hlaupaseríu FH og Atlantsolíu fer fram á hlaup.is.