Hákon Hrafn Sigurðsson úr Hlaupahópi Breiðabliks og Þríkó er næstur að opinbera hlaupasumarið sitt. Hákon Hrafn er 43 ára prófessor í lyfjafræði, hann byrjaði í frjálsum íþróttum 1987 á Húsavík og fór fljótlega að æfa millivegalengdir með HSÞ og æfði allt til 1994. Hákon keppti nokkrum sinnum erlendis með unglingalandsliðinu í frjálsum og náði m.a. að hlaupa 3000m á 9:10 þegar hann var 16 ára sem þótti ágætt á þeim tíma.
"Eftir tvítugt hélt ég að maður ætti að hætta að æfa íþróttir þannig að ég hætti því bara en var samt alltaf að skokka eitthvað mér til ánægju. Síðan kynntist ég nokkrum smölum úr UMSS hér í borginni og fór aftur að hlaupa með þeim og hafði mjög gaman af enda frábær félagsskapur.
Eftir þrítugt hélt ég aftur að maður ætti að hætta að æfa á þeim aldri og í kjölfarið duttu æfingar aðeins niður í nokkur ár. Ég byrjaði svo aftur að hlaupa að ráði árið 2010 og hef svo bætt við jafnt og þétt síðan. Hef þó verið í smá baráttu við hamstring meiðsli sem koma í veg fyrir frekari hlaup," segir Hákon Hrafn en hann leggur aðallega stund á þríþraut.
Hlaupasumarið mitt
Kópavogsþríþrautin 14. maí (3km hlaup)
Hálf-Ólympísk þraut 28. maí (5km hlaup)
Challenge Championship Samorin (hálfur járnmaður - 21,1km hlaup)
Ólympísk þríþraut Laugarvatni 18. júní (10km hlaup)
Challenge Iceland 23. júlí (hálfur járnmaður - 21,1km)
Adidas Boost hlaupið 2. ágúst - 10km
Strandarhlaupið í Vogum 12. ágúst - 10km
Fossvogshlaup Hleðslu 24. ágúst - 10km
Sprettþraut 3N 26. ágúst (2,5km hlaup)
Skipuleggur þú jafnan hlaupasumarið þitt með miklum fyrirvara?
Ég hef skipulagt þríþrautar- og hjólakeppnir nokkuð vel og síðan reynt að ná góðum hlaupum þar á milli. Hef verið að glíma við hamstrings vandamál sem hafa oft komið í veg fyrir þátttöku mína í hlaupum sem ég hef ætlað mér að taka þátt í. Því tek ég bara þau hlaup sem bjóðast þegar ég er heill. Stefni núna á nokkur góð 10 km hlaup í ágúst.
Eru einhver sérstök hlaup sem þú sækir í?
Ég hef mest tekið 5-10 km götuhlaup, finnst það skemmtilegasta vegalengdin. Hef bara tekið hálft og heilt maraþon sem hluta af þríþraut en stefni þó að því að taka þessi hlaup án sunds og hjóls fljótlega.
Fyrir hvaða hlaupi ertu spenntastur?
Í raun er það Challenge keppnin í Slóvakíu eftir mánuð en þar endar keppnin á hálfu maraþoni. Gaman að koma í keppni þar sem maður þekkir ekki keppinautana og þarf að vinna upp forskot sem einhverjir þeirra verða komnir með og passa að aðrir nái manni ekki.
Ertu fastagestur í mörgum þessara hlaupa?
Ég er með nokkur hlaup þar sem ég er allt að því fastagestur. Mætti t.d. nokkur ár í röð í Icelandair hlaupið, Reykjavíkurmaraþonið og Miðnæturhlaupið. Tók einnig Atlantsoliu-FH vetrarhlaupin í nokkur skipti en annars tek ég bara þau hlaup sem passa í dagskránna hjá mér.
Hver eru markmiðin fyrir sumarið?
Ég meiddist í vor og þar með stillir maður væntingum í hóf. Ég vil þó helst hlaupa 10 km undir 34mín í ágúst.
Hvern skorar þú á til að opinbera „Hlaupasumarið sitt"?
Ég sá að Inga Dís úr Hlaupahópi ÍR er kominn aftur á kreik og það væri gaman að sjá hvaða hlaup hún er búin að skrá sig í í sumar.