Hlaupasumarið mitt: Inga Dís Karlsdóttir úr ÍR Skokk

birt 20. júlí 2017

ÍR-ingurinn, Inga Dís Karlsdóttir, er næst til að opinbera hlaupasumarið sitt á hlaup.is. Inga Dís er svo sannarlega ein af þeim sem er virk í íslenska hlaupasamfélaginu. Auk þess að hafa tekið þátt í fjölmörgum almenningshlaupum undanfarin ár þá hefur Inga Dís verið einn forsvarsmanna Gamlárshlaups ÍR sem og Víðavangshlaups ÍR. Sannarlega ein þeirra sem tekur þátt í að móta hlaupamenninguna á Íslandi.

Inga Dís hleypur með breyttum áherslum í ár eftir að hafa átt við erfið meiðsli að stríða á síðasta ári, en hún féllst engu að síður á að opinbera hlaupasumarið sitt.

Hlaupasumarið mitt
Búin með:
Icelandairhlaupið
Ölkelduhlaupið
Miðnæturhlaupið
Snæfellsjökulshlaupið
Arnarneshlaupið
Vestugatan

Eftir:
Dyrfjallahlaupið
Reykjavíkurmaraþonið - hm
Fossvogshlaupið - 5 km
Adidasboost hlaupið
Tindahlaupið

Skipuleggur þú jafnan hlaupasumarið þitt með miklum fyrirvara?
Nei ég get ekki sagt það en gjarnan eru það tiltekin hlaup sem maður stefnir á til að ná góðum árangri í hvort heldur að ná ákveðnum tíma í tiltekinni vegalengd eða komast á pall.

Hef ég þá stillt hlaupadagskránni í takt við það þ.e. passað að taka ekki þátt í hlaupi sem hefur neikvæð áhrif á markmiðin. Annars finnst mér hafa gefist best að mæta í sem flest 10 km götuhlaup sem liður í æfingu fyrir þau hlaup sem stefnt er að bætingu í.

Fyrir hvaða hlaupi ertu spenntust?
Í ár eru það utanvegahlaupin sem ég er skráð í. Ekki bara hlaupanna vegna heldur öllu því sem fylgir þ.e. ferðalagið og samveru með hlaupurum á keppnisstað fyrir og eftir hlaup.

Eru einhver sérstök hlaup sem þú sækir í?
Ég keyri glöð landshorna á milli til þess að sækja í utanvegahlaupin því mér þykir skemmtilegast að keppa utan malbiks. Auk nándarinnar við náttúruna þá er eitthvað við það að halda hraða með öll skilningarvitin opin og snerpuna í lagi til að hnjóta ekki um urð og grjót.

Annars tek ég þátt í sem flestum götuhlaupum í 5, 10 og hálfmaraþoni á höfuðborgarsvæðinu en hef þó í sífellt fjölbreyttari  hlaupaflóru reynt að einskorða þátttöku við löglega mældar brautir og fleiri atriði sem snúa að umgjörð hlaupanna.

Ertu fastagestur í mörgum þessara hlaupa?
Ég var fastagestur í mörgum hlaupum og stefni á að verða það aftur en ég datt út allt síðasta ár vegna meiðsla og er að gíra mig aftur í gang. Icelandair hlaupið, Miðnæturhlaupið, Ármannshlaupið, Reykjavíkurmaraþonið, Powerade vetrahlaupin og annað hvort vor- eða haustmaraþon FM hafa ávallt verið á dagskrá. Undanfarin ár hef ég jafnframt mætt á Jökulsárhlaupið í hinar ýmsu vegalengdir, Hvítasunnuhlaup Hauka og Hlaupahátíð Vestfjarða.

Markmið fyrir sumarið
Ég var frá allt síðasta sumar vegna brjósklosaðgerðar og viðurkenni fúslega að mér fraus dálítið hugur í vor við tilhugsunina um að mæta aftur til leiks fjarri því formi sem ég var áður í. Ég neita því ekki að fyrir meiðslin var ég mjög árangursdrifin og því vafðist þetta eilítið fyrir keppnispúkanum í mér.

Ég setti mér því það markmið fyrir sumarið að taka þátt í því sem hugurinn girntist og setja enga pressu varðandi tíma. Mæta á hlaupa- og hjólaviðburði sem ég hef ekki tekið þátt í áður án þess að huga að því að ná hvíld fyrir þau, né leggja sérstaklega inn fyrir þau eða jafnvel sleppa vegna þess að þau hafa legið of nærri hlaupum sem ég hafði sett markið á að ná bætingu í.

Fara varlega af stað í að auka hlaupamagnið og sækja styrk með hjólreiðum en ég hef verið að hjóla með Þríkó/Breiðablik frá því í vetur. Auðvitað býr keppnisandinn enn í mér þannig að ég setti mér jafnframt það markmið að vera ekki meira en 1,5 mín frá mínum besta tíma í 10 km í sumar og um 1 mín frá mínu besta í 5 km.

Ég þorði ekki að setja mér markmið fyrir hálfmaraþon þar sem ég hef enn sem komið er ekki lagt inn löng tempó hlaup. Sumarið er hálfnað og markmiðum þess hefur þegar verið náð sem er ánægjulegt.

Hvern skorar þú á til að opinbera „Hlaupasumarið sitt"?
Ég skora Unu Sigurðardóttur sem hleypur með Hlaupahóp Reykjanesbæjar. Hún er gleðigjafi í hlaupasamfélaginu og tekur þátt í hinum ýmsu viðburðum.