Hlynur Andrésson er einn okkar albesti hlaupari, á samtals átta Íslandsmet í langhlaupum, fimm utanhúss og þrjú innanhúss. Metin eru í vegalengdum frá þremur kílómetrum og upp í tíu. Í upphafi árs setti Hlynur stefnuna á Ólympíuleikanan í Tokyo en leikunum var frestað um ár eins og alþjóð veit. Það er hins vegar engan bilbug að finna á Hlyni sem hefur augastað á Ólympíuleikunum sem fara fram að ári.
Hlynur hefur verið búsettur erlendis lengi, fyrst í Bandaríkjunum þar sem hann lagði stund á nám í líffræði en nú býr hann í Hollandi ásamt eiginkonu sinni. Hlaup.is setti sig í samband við Hlyn og heyrði í honum hljóðið á þessum tímum sem eru svo krefjandi fyrir hlaupara, eins og reyndar alla aðra.
Hvernig gengur að draga fram lífið fyrir afreksmann í hlaupum, nærðu að einbeita þér 100% að hlaupum? Er stefnan að vera áfram úti í Hollandi?
Það gekk í smátíma að einbeita sér 100% að hlaupunum með því að vera mjög sparsamur, en núna hef ég verið að vinna bæði hlutastarf á netinu og svo er ég einnig að þjálfa á netinu. Þetta hefur gengið hingað til með mikilli sparsemi og t.d. hef ég ekki efni á því að eiga bíl. Þá hef ég verið að leita eftir rannsóknarstarfi í Hollandi og nýta mér þá menntun sem ég er með til framtíðar.
Margir hafa beðið eftir því að þú farir að færa þig í af fullum krafti í hálft maraþon og síðar í maraþon. Hvernig sérðu tímalínuna fyrir þér í því? Klæjar þig ekkert í lófana að fara að stríða Arnar Péturssyni?
Ég byrjaði 18 ára að hlaupa sem er talið frekar seint og það er yfirleitt þannig að maður á sín bestu ár á hlaupabrautinni frá 25-29 ára. Maður á hinsvegar sín bestu ár í hálfu og heilu maraþoni frá 30-35 ára. Ég veit ekki hvort ég ætla að hlaupa á svo háu stigi svo lengi, en ef ég á að vera hreinskilinn þá finnst mér þessar maraþon vegalengdir ekki mjög spennandi því mér finnst gaman að hlaupa hratt en ekki endilega í tvær klukkustundir. En ég ætla að hlaupa hálfmaraþon í haust og ef ég hleyp á 1:03:xx eða hraðar, þá þyrfti ég að alvarlega að hugleiða að hlaupa heilt næsta vor og sleppa þá innanhúss tímabilinu á brautinni og EM.
Hvernig hefur Covid 19 verið að fara með þig undanfarna mánuði? Eru einhver hlaup sem þú getur tekið þátt í á næstunni?
COVID-19 eyðilagði svo sannarlega öll plön sem ég hafði fyrir sumarið. Ég hef getað keppt tvisvar í 3000m hlaupi í sumar, en þau hlaup voru ekki mjög sterk hvað varðar samkeppni og hraða, en ég setti Íslandsmet í greininni í bæði skiptin og er mjög sáttur með það. Markmiðið núna er að taka 10.000m hlaup í Gouden Spike mótinu þar sem ég bý í Hollandi og reyna við 28 mínútu múrinn þar. Eftir það get ég vonandi keppt einu sinni enn á brautinni, en ef ekki þá langar mig að fara á HM í hálfmaraþoni 17. október ef Ísland sendir lið.
Varðandi framtíðina, nú varstu í námi í Bandaríkjunum um árabil og fluttir svo til Hollands að loknu námi. Sérðu fyrir þér að flytja til Íslands í náinni framtíð eða sérðu frekar fyrir þér að lifa draum afrekshlauparans erlendis?
Lífið í Hollandi er mjög gott enda er þar er mikil hlaupamenning. En hvort við búum þar áfram ræðst m.a. af því hvort ég fái framtíðarstarf í Hollandi. Ég get alveg séð það fyrir mér að flytja aftur heim og mun kannski gera það. Kærasta mín er hinsvegar bandarísk/hollensk og eins og staðan er langar henni ekki að flytja til Íslands, aðallega vegna veðursins. En kannski tekst mér að sannfæra hana að flytja hingað einhvern daginn. Ég er hinsvegar að þjálfa á netinu ef fólk hefur áhuga og þannig get ég því reynt að hjálpa íslenska hlaupasamfélaginu eins og er.
Að lokum, þó enginn dagur sé eins hjá afrekshlaupara, væri þú til í að deila með lesendum einum æfingadegi hjá þér í Hollandi?
Allir dagar vikunnar eru ólíkir, en ég vinn í úthaldi, þreki, hraða og vöðvastyrk með mismunandi æfingum í mismunandi hlutföllum eftir því hvar ég er staddur á vikomandi æfingatímabili. Æfingar eru sjaldan eins, enda vil ég halda þeim fjölbreyttum til að tryggja ferskleika og skemmtanagildi. Hér að neðan má sjá prógrammið í dag:
Morgun:
30 mín (7,7km), 3:54/km
Síðdegis:
30 mín (4:15/km-3:40/km)
3000m: 8:34.0, 5 mín hvíld
4x400m: 64,3, 63,2, 62,1, 61,2 með 1 mín hvíld
4x200m: 30,2, 28,9, 28,7, 28,6 með 1 mín hvíld
1600m: 5:01,4,
15 mín niðurskokk – samtals 18,5km
Sjá einnig: Viðtal við Hlyn Andrésson eftir sigur í Vestmannaeyjahlaupinu þann 5. september síðastliðinn.