Jórunn um Fire and Ice Ultra: Andlegi styrkurinn jafnvel mikilvægari

birt 16. ágúst 2015

Hlaupið er í stórbrotnu landslagi.Fire and Ice Ultra er ævintýralegt sex daga ofurhlaup sem farið hefur fram hér á landi undanfarin ár. Hlaupið er svo sannarlega ekki fyrir hvern sem er enda hlaupa þátttakendur 250 km á sex dögum, með allan búnað á bakinu.Glíman við náttúruöflin getur verið ansi grimm enda er hlaupaleiðin ekki beint í alfaraleið og þá geta veðurguðirnir hæglega látið hlaupara finna fyrir sér á þessum árstíma.Áhuginn á hlaupinu er alltaf að aukast, þegar eru 50 manns búnir að skrá sig fyrir næsta ár og 20 fyrir hlaupið 2017.

Erlendu þátttakendurnir eru jafnan fjölmargir og sumir hverjir ansi framarlega í heiminum á sínu sviði. Hlaupið í ár hefst í Kverkfjöllum þann 31. ágúst næstkomandi. Hlaup.is tók Jórunni Jónsdóttur, einn forsvarsmanna hlaupsins tali og spurði nánar út í þennan merkilega viðburð

Segðu okkur aðeins frá Fire and Ice Ultra, hver er sagan og hver er hugmyndin? 250 km á sex dögum með allt á bakinu er náttúrulega algjört brjálæði, eða hvað?
David Annandale frá Bretlandi er hugmyndasmiðurinn á bak við Fire and Ice, en hann hefur í áratugi tekið þátt í og skipulagt ofurhlaup með sama sniði um allan heim, m.a. á Antarctica, í Víetnam, Mongolíu, Indlandi, Kína, Egyptalandi, Marokkó, Namibíu og Chile. Hann kom til Íslands fyrir 25 árum, þá með hóp breskra skólakrakka í gönguferð um hálendið og heillaðist af landinu. Það var síðan sumarið 2011 sem David hafði samband við okkur á All Iceland ferðaskrifstofu í Englandi í leit að samstarfsaðila til kanna möguleikana á því að halda hlaup á Íslandi.

Fyrsta undirbúningsferðin var síðan farin í október 2011 og síðan hefur All Iceland verið samstarfsaðili hlaupsins.Sjálfum finnst manni þetta auðvitað algjört brjálæði, að hlaupa 250 km með allan búnaðinn á bakinu. En svo þegar maður kynnist fólki sem tekur þátt í svona áskorun, þá er þetta hið venjulegasta fólk í góðu líkamlegu formi, en andlega sterkt. Það ætlar að klára, sama hvað það kostar.Sá elsti sem hefur klárað Fire and Ice var 73 ára! Andlegi styrkurinn skiptir jafnvel meira máli heldur en líkamlega atgervið.Sandurinn getur verið hlaupurum erfiður viðureignar.

Lýstu hlaupaleiðinni fyrir okkur, hverjar eru helstu áskoranirnar á leiðinni?
Hlaupaleiðin er alveg mögnuð, en síðastliðin ár hefur hlaupið hafist í Kverkfjöllum, farið í Hvannalindir, yfir í Drekagil, þaðan í Herðubreiðarlindir og endað t.d. á Mývatni og Ásbyrgi. Hlaupararnir eiga ekki orð yfir landslagið enda eru þeir að sjá nýtt landslag á hverjum degi.

Hlaupaleiðin er alltaf með örlítið breyttu sniði á hverju ári en einnig hefur komið fyrir að leiðin hefur breyst í miðju hlaupi vegna veðurs. Þátttakendur hlaupa um 45 km á dag, einn dagurinn er langur eða 60-65 km og síðasti dagurinn er um 25 km. Það er mikil áskorun að hlaupa yfir hraun og í sandi eða Litlu Sahara eins og við köllum hana, en það er falleg en krefjandi leið í sandi. Hlauparar þurfa einnig að vaða nokkrar ár á leiðinni. Nýjasta áskorunin í ár verður að fara um nýja hraunið, en við vorum varla farin af hálendinu í fyrra þegar eldgosið byrjaði.

En mesta áskorunin er örugglega að komast úr svefnpokanum á morgnana og takast á við daginn, sérstaklega þegar líður á hlaupið.

Landslagið ætti að geta gefið hlaupurum innblástur.Hefur hlaupið tekið breytingum er varðar umfang og þátttakendafjölda? Hvernig viljið þið sjá hlaupið þróast í framtíðinni? Þetta er í fjórða sinn sem Fire and Ice er haldið. Hlaupið fór rólega af stað, en leyfi er fyrir 50 hlaupara núna. Í ár eru þeir 30, en á næsta ári eru um 50 manns skráðir til leiks og meira að segja  eru 20  skráðir í hlaupið 2017.Fire and Ice er farið að vera þekkt meðal hlaupara sem hafa t.d. hlaupið Marathon Des Sables. Margfaldur meistari í því hlaupi, Mohamad Ahansal sem vann Fire and Ice í fyrra mætir aftur til Íslands í ár.

Hvernig hefur íslenskum ofurhugum litist á hlaupið, eru þeir að veigra sér við að taka þátt?
Það er nú skemmtilegt að segja frá því. Í fyrsta Fire and Ice 2012 þá var einn Íslendingur, Stefán Viðar Sigtryggsson, sem kláraði allt hlaupið. Auk þess var eitt fjögurra manna lið Íslendinga sem sem skipti leiðinni með sér. Núna hafa þrír af þessum fjórum, Einar Eyland, Hafliði Sæmundsson og Arnfríður Kjartansdóttir klárað allt hlaupið, Einar þar af tvisvar en hann mætir til leiks í þriðja sinn í ár ásamt syni sínum, Gísla Eyland.

Það er ekkert fyrir Íslendinga að óttast, ég held að það eina sem fæli þá frá sé að þeir þekkja ekki þessa tegund hlaupa, en að því sem ég best veit hefur einungis einn Íslendingur tekið þátt í Marathon Des Sables. Reynslan sýnir að besta leiðin er að koma og taka þátt sem lið til að kynnast hlaupinu í heild sinni.

Áhugaverðar staðreyndir um Fire and Ice Ultra
X Hlauparar leggja af stað með bakpoka ca. 6-10 kg, allan búnað þarf að bera á bakinu nema vatn og tjald. Þegar hlauparar koma í mark þá er búið að tjalda fyrir þá og því hægt að skella sér beint í svefnpokann.

X Fimmtán starfsmenn vinna við hlaupið, þar af þrír læknar.

X "Check point" er á 10-15 km fresti þar sem hlauparar fá vatn.

X Á hverju ári hætta 1-2 hlauparar keppni af einhverjum ástæðum, t.d. detta og slasa sig, vegna álagsmeiðsla, þreytu og útaf blöðrum svo eitthvað sé nefnt.

X Í hverju tjaldi eru 3-4 hlauparar, oftast fólk sem hefur aldrei hist áður. Mikill samstaða og vinskapur myndast og oft skipuleggja „herbergisfélagar" ferð í sambærileg hlaup annarsstaðar í heiminum.

Myndir: Björn Gunnlaugsson