Melkorka Árný Kvaran í viðtali: Hlaupa í kringum Ísland gegn sjálfsvígum

birt 29. júní 2015

Hópurinn glæsilegi, aldrei þessu vant í borgaralegum klæðnaði.„Markmið hópsins er að klára hringveginn á fimm sólarhringum en það þýðir að meðalhraðinn þarf að vera í kringum 12km/klst eða 5:00 í pace. Hver einstaklingur í hópnum mun því hlaupa um 120-150 km á þessum fimm sólarhringum eða u.þ.b. 30 km á sólarhring," segir Melkorka Árný Kvaran sem fer fyrir hópi hlaupara sem hyggjast hlaupa hringinn í kringum landið til styrkar átakinu Útmeð‘a.Átakið Útmeð‘a miðar að því að vekja athygli á þeirri staðreynd að sjálfsvíg er algengasta dánarorsök ungra íslenskra karla og safna áheitum til að efna til vitundarvakningar um vandann. Hópurinn leggur af stað á morgun, þriðjudag.

Vildu tengja hringhlaupið við andleg málefni
Melkorka hóaði saman tólf ofurhugum, sex konum og sex körlum, til að takast á við þrekraunina. Öll æfa þau eða starfa í BootCamp og eru með reynslu í langhlaupum en þó mismikla. Melkorka bætir við að þegar verkefnið var í gerjun hafi hópurinn ákveðið að tengja hringhlaupið við andleg málefni, enda séu hlauparar einkar meðvitaðir um jákvæð áhrif hlaupa á andlega heilsu.

Hlaupararnir tólf eru búnir að skipuleggja hringferðina vel, hópnum hefur verið skipt niður í sex pör. Hvert par hefur tvær klukkustundir í senn til að hlaupa eins marga kílómetra og það kýs hverju sinni en aðeins einn einstaklingur hleypur í einu. Hópurinn verður á ferðinni allan sólarhringinn og því er um krefjandi verkefni að ræða þó hlaupararnir fái sína hvíld inn á milli.

Ætla að hlaupa á bretti í Herjólfi
Hlaupararnir lofa því að taka upp á ýmsu á meðan á ferðinni stendur enda nauðsynlegt að halda fast í gleðina í  jafn krefjandi verkefni og hringferð þessi er. „Við ætlum að bæta Vestmanneyjum inn í hringveginn. Við munum hlaupa út í Landeyjahöfn, þar verður búið að koma hlaupabretti fyrir um borð í Herjólfi. Einn ofurhugi fær það hlutverk að hlaupa á brettinu um borð í dallinum meðan hann siglir yfir til Eyja. Þar munum við hlaupa hring um Heimaey. Það er því eins gott að veðurguðirnir sjái til þess að það verði gott í sjóinn næsta laugardag."

Viðtökur samfélagsins hafa verið mjög góðar að sögn Melkorku, eins og glögglega má sjá á umfjöllun fjölmiðla síðustu daga, þar sem mikil umræða hefur verið um sjálfsvíg. Mörg fyrirtæki. stór sem smá hafa lagt verkefninu lið sem og fjölmargir einstaklingar. Fyrirtæki geta „keypt" ákveðna leið og fengið lógóið sitt á sérstakt Íslandskort. Einnig er tekið við hefðbundnari framlögum eins og sjá má neðst í greininni.Slá upp veislu við heimkomuHlaup.is vill hvetja alla til að gefa verkefninu gaum og minnir hlaupara á að hægt verður að hlaupa síðasta spölinn með hópnum næstkomandi sunnudag og enda í glæsilegri móttöku sem Geðhjálp og Rauði Krossinn munu standa fyrir í húsakynnum þeirra síðarnefndu í Efstaleiti. Heimkoman verður nánar auglýst hér á hlaup.is og fésbókarsíðu Útmeð‘a þegar nær dregur.Hægt er að styrkja átakið um 1.500 kr. með því að hringja í símanúmerið 904 1500 . Einnig er tekið við frjálsum framlögum á söfnunarreikning Geðhjálpar,  546 -14 - 411114, kennitala 531180 - 0469Hópurinn samheldni sem ætlar að leggja hringveginn.

Hópurinn:
Arnaldur Birgir Konráðsson
Linda Svanbergsdóttir
Ágúst Guðmundsson
Melkorka Árný Kvaran
Friðleifur Friðleifsson
Ólafía Kvaran
Hulda María Frostadóttir
Sigurjón Ernir Sturluson
Pétur Smári Sigurgeirsson
Fanney Frostadóttir
Davíð Blöndal
Guðrún Ólafsdóttir
Eyþór Kristjánsson (bílstjóri)
Jón Kristinn Valsson (bílstjóri)