Hér að neðan má lesa seinni hluta frásagnar Gauts Þorsteinssonar, hlaupagarps, af maraþonhlaupum sínum erlendis. Gautur hefur tekið þátt í öllum "big five" maraþonunum og í seinni hluta frásagnarinnar sem lesa má hér að neðan, rifjar Gautur upp þátttökuna í Bostonmaraþoninu 2013. Eins og alþjóð veit létust þrír í hryðjuverkaárárs sem gerð var á sjálft maraþonið og þátttakendur þess. Fyrri hluta frásagnar Gauts birtist hér á hlaup.is fyrir viku síðan.
Tignarlegt rásmark í Chicago maraþoninu.Chicago 2011Nú beindum við sjónum í vesturátt á ný, því næsta maraþon var í Chicago, þann 9. október 2011. Við flugum til Minneapolis og tókum innanlandsflug til Chicago. Hótelið okkar var í Near North hverfinu, sem er vel staðsett og í um 2-3 km frá garðinum Grant Park þar sem hlaupið á sér upphaf og endi. Þessi garður er í miðborgarsvæðinu sem kallast „The Loop".Chicagoborg kemur þeim á óvart sem ekki þekkja til hennar. Hún er þriðja stærsta borg Bandaríkjanna og miðstöð fjármála, viðskipta og flutninga fyrir miðvesturhluta landsins. Miðborgin er háreist og víðfræg fyrir byggingarlist sína.
Í Chicago verður heitt á sumrin og kalt á veturna, en borgin tók á móti okkur með mikilli veðurblíðu, sem entist allan tímann sem við dvöldum þar. Reyndar getur brugðið til beggja vona með veður í þessu hlaupi. Það getur verið frekar kalt og eins getur verið yfir 30 stiga hiti. Þetta var raunin fjórum árum áður, en þá fór hitinn yfir 31°C. Vatn og orkudrykkir á drykkjarstöðvum kláruðust og fólk örmagnaðist á hlaupabrautinni. Einn dó og eftir þrjá og hálfan tíma var hlaupið stöðvað. Við fylgdumst því vel með veðurspám.
Hlaupið var ræst um áttaleytið um morguninn og var þá um 14 stiga hiti sem var mjög notalegt. Brautin er allhlykkjótt en í stórum dráttum þá er löng og mjó lykkja frá miðbæjarsvæðinu til norðurs að bæjarhlutunum Boystown og Wrigleyville og aftur til baka. Þegar komið er aftur á miðbæjarsvæðið þá er hlaupið um það bil hálfnað. Þá tekur við styttri 10 km lykkja inn í landið til vesturs og loks er lykkja inn í suðurhluta borgarinnar sem endar á því að leiða inn í Grant Park aftur.
Þægilegt var að hlaupa norðurlykkjuna og hitinn hæfilegur fyrri hluta morgunsins og hlaupið að miklu leyti í skuggum hárra húsa. Víða voru áhorfendur sem hvöttu hlaupara áfram og skemmtiatriði á stöku stað. Eins og gengur í hlaupum sem þessum þá kemst ákveðið jafnvægi á eftir nokkra kílómetra. Hlaupararnir hafa raðast á brautina eftir hraða og frekar lítið er um framúrhlaup.
Eftir um það bil 10 km hljóp þó berfætti maðurinn fram úr mér. Hann var sterklegur og það virtist ekki há honum neitt að hlaupa berfættur. Mér var hugsað til hans þegar ég hljóp yfir riffluðu málmristarnar á brú einni. Í seinni hluta hlaupsins hafði lofthitinn hækkað verulega og nú var ekki lengur skjól af háum byggingum. Þetta varð því hin mesta mannraun og hægði mjög á mér seinni hlutann þegar hitinn fór upp í 28°C. Mér tókst þó að komast í mark og flögutíminn var 3:26:36.Þótt erfitt hefði verið að hlaupa í hitanum, þá var mjög notalegt að vera á marksvæðinu í honum. Þar beið líka fágætur glaðningur, því að rétt á eftir marksvæðinu var vagn frá bjórframleiðanda í Chicago, sem bauð ókeypis „pint". Það var því góðglaður hlaupari sem naut sólarblíðunnar eftir hlaupið og var ekkert að flýta sér upp á hótel.Marta, kona Gauts ásamt Sigrúnu hlaupafélaga þeirra beggja.
Næstu daga nutum við lystisemda borgarinnar í góðviðrinu. Margir fóru í bátasiglingu eftir Chicago ánni með sérstakri leiðsögn um sögu húsagerðarlistar borgarinnar. Þetta var stórskemmtileg ferð þar sem kynnt var þróun húsagerðar í borginni frá dögum frumkvöðulsins þýska, Ludwig Mies Van Der Rohe, sem hannaði margar af merkustu byggingum borgarinnar. Sumir fóru á blúskrár, enda er borgin víðfræg fyrir tregatónlist sína. Að sjálfsögðu var síðan drjúgum tíma eytt í búðum borgarinnar. Eftir vikudvöl var síðan haldið heim á leið í gegnum Minneapolis. Þar var nægilega langt bil á milli flugferða til þess að koma við í hinni óskaplegu verslunarmiðstöð „Mall of America" sem er ein sú stærsta á jörðinni.
Startið í Bostonmaraþoni er í smábænum Hopkinton.Boston 2013Síðasta hlaupið af þeim fimm stóru var nú eftir og hópurinn ákvað að fara til Boston. Þetta er vorhlaup og var haldið mánudaginn, 15. apríl, 2013. Borgin var undirlögð af hlaupurum, enda er hún ekki eins stór og hinar fjórar, en hlaupið fornfrægt og mjög eftirsótt til þátttöku. Svo eftirsótt að þar eru settar kröfur um lágmarkstíma í viðurkenndu maraþonhlaupi innan ákveðins tíma fyrir hlaupið.
Þetta er elsta maraþonhlaupið sem haldið er og var fyrst haldið árið 1897. Þetta var árið eftir fyrstu endurvöktu Ólympíuleikana í Aþenu árið 1896. Ein keppnisgreinin þar var einmitt keppni í maraþonhlaupi og það var liðsstjóri Bandaríkjanna á þessum Ólympíuleikum sem hreifst svo af þessari keppnisgrein að hann stóð fyrir samskonar hlaupi á Bostonsvæðinu.
Hlaupið hefst í smábænum Hopkinton sem er langt inni í landi og endar á Boylston stræti í miðborg Boston. Árla morguns á hlaupdaginn birtist mikill fjöldi amerískra skólabíla við tiltekna götu í Bostonborg og hlaupararnir fylltu rúturnar. Svo heppilega vildi til að þetta var nánast beint framan við hótelið okkar. Ekið var eftir þokkalegum þjóðvegi inn í landið og mörgum varð ekki um sel við það hve langur aksturinn var. „Eigum við virkilega eftir að hlaupa alla þessa vegalengd", sagði fólk. Loks beygði rútan af veginum og komið var að Hopkinton. Grunnskóli bæjarins og reyndar bærinn allur, er undirlagður af hlaupurum þennan eina dag ársins.
Biðin eftir ræsingunni var nokkuð löng, en loks lagði mannfjöldinn af stað gangandi frá skólanum og inn í bæinn. Þetta var nokkur spölur, en við aðalgötuna var fólki skipt í krær eftir getu eins og áður er lýst. Hér var eftirlitið nokkuð gott þannig að strax eftir ræsingu var ég í hópi með hlaupurum af svipaðri getu.
Mér leið geysilega vel fyrstu 10 kílómetrana, enda var veður gott, landið fallegt og brautin nokkuð niður í móti. Nokkrir smábæir eru á leiðinni og íbúar þeirra hvetja hlaupara áfram með skemmtilegum hætti. Við kvennaskóla einn á leiðinni falbjóða skólastúlkur kossa með all-blautlegum athugasemdum. Einhverjar hljómsveitir voru með spilirí og ég sá einn Elvis standa í fullum skrúða og syngja. Á tuttugasta kílómetranum fékk ég í nárann og hélt að ég myndi þurfa að hætta keppni. Harkaði þó af mér og mér til furðu þá hvarf verkurinn á næstu kílómetrum. Ég fann nú reyndar fyrir eymslunum næstu daga eftir hlaupið.
Ég fór yfir hálfa merkið á 1:35:25 og taldi það alveg þokkalegt, en upp úr því fór að syrta í álinn. Á seinni hlutanum eru nokkrar brekkur. Ekki eru þær mjög langar, en reynast erfiðar. Sú lengsta er kölluð „Heartbreak Hill" og er að sönnu nokkuð erfið. Sífellt dró úr hraða mínum, hvort sem ég hljóp upp eða niður brekku. Frekar var þetta þó niður í móti og skýjakljúfar miðborgarinnar, þar sem markið var, færðust sífellt nær.Feginn var ég að koma í markið. Seinni helminginn tók ég á 1:51:11 og heildartíminn var 3:26:36. Slappur seinni hluti að mér fannst. Séð niður eftir Boylston stræti daginn eftir hlaupið 2013. Markið í baksýn. Allar götur tómar enda fólk beðið um að halda sig innandyra.
Eftir að hafa tekið við peningnum mínum fór ég ásamt hlaupafélaga í næstu götu þar sem hópurinn ætlaði að hittast við spjald með bókstafnum I. Sem við stóðum þar og biðum kvað við mikil sprenging, sem bergmálaði um allt. Þetta leist mér ekki á sagði kona sem stóð þar nálægt og ég var henni sammála. Skömmu síðar heyrðist önnur sprenging. Enn var ekki ljóst hvað hafði gerst. Fólk gekk þarna um eins og ekkert hefði í skorist, en aðrir voru á varðbergi. Þegar sírenur fóru að hvína um allt þá varð ljóst að alvarlegir atburðir höfðu gerst. Síðan fór skelfingu lostið fólk að streyma framhjá, sumir grátandi. Nærstaddur maður sem var með snjallsímann uppivið sagði mér að sprengjur hefðu sprungið í markinu.
Félagar okkar tóku nú að koma að mótsstaðnum. Ein kona úr okkar hópi var í markinu þegar önnur sprengjan sprakk og aðrar voru mjög nálægt. Nú biðum við alllengi þarna milli vonar og ótta, en litlar fréttir var að hafa. Ég hafði ekki fréttir af Mörtu, en náði loks sambandi með farsíma við son okkar heima á Íslandi. Hann gat greint út frá vefsíðum sem sýndu ferðir hlaupara yfir skráningarmottur á leiðinni að Marta hefði verið nokkuð frá markinu þegar sprengingin varð. Loks héldum við heim á hótelið og biðum og fylgdumst með fréttum. Smám saman bárust fréttir af ástvinum og hlaupafélögum, sem allir voru heilir á húfi og skiluðu sér smám saman á hótelið.
Sjaldgæf sjón - Götur Boston tómar þegar Gautur var á ferðinni, daginn eftir hlaupið 2013. Hlaupið hafði verið stöðvað fljótlega eftir sprengingarnar og fólki sagt að fara heim. Marta hafði komist yfir mottuna við fertugasta kílómeter þegar þetta gerðist. Hún og Sigrún vinkona hennar þurftu að ganga heim á hótelið, enda engar samgöngur að hafa. Allt líf í borginni var í uppnámi. Við gátum fengið mat á veitingahúsi við hliðina á hótelinu okkar og um kvöldið skiptumst við á sögum um atburði dagsins.Þá tók við undarlegur tími þegar verið var að hafa upp á gerningsmönnunum. Lögreglumenn af mörgum gerðum og hermenn voru allsstaðar á götum. Á föstudeginum stóð eftirförin sem hæst og allir borgarbúar voru beðnir um að halda sig heima og fara ekki í vinnuna.
Þar sem ekki var útgöngubann þá fórum við nokkur út að ganga. Þar gat að líta sjaldgæfa sjón, sem var stórborg með nánast mannlausar götur um hábjartan daginn. Verslanir og veitingahús voru nánast öll lokuð. Á laugardeginum var eftirförinni lokið og við gátum haldið heim á leið. Margir án þess að hafa lokið fimmta stóra hlaupinu. En sumir fóru árið eftir og luku við það.
Samantekt
Á tímabilinu 2002 - 2013 tók ég þátt í fimm maraþonhlaupum sem gjarnan eru kölluð þau fimm stóru auk þess að hlaupa nokkur maraþonhlaup innanlands. Aldur minn á þessu tímabili var frá 44 og til þess að vera 55 ára. Samanburður á þessum hlaupum og besta maraþonhlaupi mínu í Mývatnssveit árið 2001 er í meðfylgjandi töflu.
Eins og við er að búast þá er þetta nú frekar niður á við með aldrinum. Ég hefði þó átt bætingu inni í London ef ekki hefði verið fyrir meiðslin, sem áður er lýst. New York gekk frekar illa, en Berlín vel. Það er þó greinilegt að það er í seinni hlutanum sem ég er að gefa eftir þegar ver gengur. Fyrri hlutinn heldur sér betur í gegnum árin. Sumir segjast eiga sín bestu hlaup þegar þeir „splitta öfugt" og hlaupa seinni helminginn hraðar en þann fyrri. Ég á langt í land með það.
Niðurlag
Ferðirnar á hin fimm stóru maraþon voru allar ógleymanlegar, hver á sinn hátt. En ánægjan var ekki einungis fólgin í þátttökunni sjálfri. Í hvert skipti var ferðin á hlaupið hápunkturinn á löngu ferli sem hófst í það minnsta 12 vikum fyrir hlaupið þegar stífar æfingar hófust. Þar nutum við leiðsagnar Erlu Gunnarsdóttur þjálfara okkar sem er óþreytandi við að leiðbeina og stjórna hópnum okkar. Kann ég henni bestu þakkir fyrir. Á þessum tíma er samgangur okkar félaganna enn meiri en venjulega og við fylgjumst hvort með öðru, erfiðleikum, meiðslum og öllu því sem fylgir því að stunda þessa erfiðu líkamsþjálfun. Síðan ferðumst við yfirleitt saman til keppnisborgarinnar og gistum saman á hóteli. Matthildur Hermannsdóttir skipulagði þessar ferðir undir nafni Hlaupaferða. Allt skipulag var til fyrirmyndar og engin vandkvæði voru á ferðalögum og gistingum.
Nú eru hin fimm stóru að baki. Hvað tekur þá við? Áreiðanlega erum við ekki hætt að fara í ferðir sem þessar. Ég á þó ekki von á því að við förum aftur í þessi stóru, það er nóg af skemmtilegum heil- og hálfmaraþonkeppnum út um allan heim.
Meðlimir Hlaupahóps Fjölnis með Erlu Gunnarsdóttur í fararbroddi, sitja svo sannarlega ekki auðum höndum.
Hér má lesa fyrri hluta frásagnar Gauts sem birtist hér á hlaup.is.