Öfgarnar mæta Stefáni á Reindalsheiði.Hér birtum við seinni hluta viðtals við Stefán Gíslason fjallvegahlaupara. Á fimmtugs-afmæli sínu ákvað Stefán að hlaupa fimmtíu fjallvegi næstu tíu árin. Stefán ræddi við hlaup.is um fjallvegina 34 sem hann hefur þegar lagt að velli. Fyrri hluta viðtalsinsins við Stefán má sjá hér. -Er það fyrir hvern sem er að hlaupa þessa fjallvegi? Er ekki allt annað að hlaupa fjallvegi en að fara á venjulega hlaupaæfingu í bænum?Jú, þetta er töluvert annað en venjuleg hlaupaæfing í bænum. Ég fer yfirleitt ekki hratt yfir, en það ræðst svolítið af því hverjir eru með mér. Þarna er engin keppni í gangi og maður tekur bara eins langan tíma í hverja ferð og mann langar til. Samt eru lengstu ferðirnar það langar að þær kalla á töluvert úthald. Maður skokkar ekki 30-40 km á ósléttu landi alveg upp úr þurru.
Styttri leiðirnar eru fyrir alla, eða því sem næst, en þetta reynir allt öðruvísi á fæturna en malbikshlaup. Það er t.d. auðvelt að misstíga sig illa ef ökklarnir eru ekki nógu sterkir. Sumir eru líka óöruggir í mjög grýttu eða ósléttu undirlagi, sérstaklega niður í móti.
-Hvað á hinn venjulegi hlaupari að hafa í huga ef hann hefur áhuga á að hlaupa á fjallvegum, þ.e. í hversu góðu formi þarf viðkomandi að vera og hvernig á að búa sig?Maður þarf fyrst og fremst að bera virðingu fyrir náttúruöflunum, kynna sér leiðina vel fyrirfram, rýna í veðurspána og láta aðra vita af ferðum sínum. Hlaupaformið er kannski ekkert aðalatriði, en það er þó miklu skemmtilegra að vera vel á sig kominn.Nauðsynlegt er að þekkja eigin líkama nógu vel til að vita að fæturnir þoli góðan skammt af ójöfnum og öðru mótlæti. Búnaðurinn er val hvers og eins. Ég er frekar mikill naumhyggjumaður hvað þetta varðar og hef stundum verið heldur lítið klæddur.Stefán og Birkir Stefánsson á leið upp Laxárdalsheiði.
Í óvæntu slagviðri er kuldinn fljótur að ná yfirhöndinni ef maður lendir í skakkaföllum og getur ekki haldið áfram að hlaupa. Skórnir eru mikilvægir. Ég er alltaf í utanvegahlaupaskóm með góðu gripi og án rakavarnar á borð við Goretex. Goretexskór eru góðir í rekju, en glataðir í vatnsföllum, því að ef þeir fyllast af vatni fer það ekki svo glatt út aftur. Og bómullarföt eru á bannlista hjá mér, sérstaklega sokkar. Vökvi og næring skipta svo auðvitað miklu máli, rétt eins og í öðrum hlaupum.
-Hverjar eru skemmtilegustu og fallegustu leiðirnar sem þú hefur hlaupið?Ég er búinn að hlaupa 34 leiðir, sem er ekki alveg auðvelt að gera upp á milli. Snjáfjallahringurinn sem ég hljóp sumarið 2012 er þó alla vega mjög ofarlega á listanum. Á þessum hring eru þrír fjallvegir, Snæfjallaheiði, Staðarheiði og Dalsheiði, samtals tæpir 60 km.Snæfjallaheiðin er sýnu tilkomumest og eftir að hafa lesið þríleik Jóns Kalmans Stefánssonar, sem gerist á þessu svæði, fékk ferðalagið enn dýpri merkingu. Það er eitthvað alveg sérstakt við þetta svæði, sem ekki er auðvelt að lýsa í fáum orðum. Svo er ég líka búinn að hlaupa nokkra einstaklega skemmtilega og fallega fjallvegi á Austurlandi.Stefán ásamt hlaupafélögum stilla sér upp við Hvítserk.
Þar detta mér fyrst í hug Stuðlaheiði milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar og Reindalsheiði milli Fáskrúðsfjarðar og Breiðdals. Svo eru Víknaslóðir líka sérstaklega eftirminnilegar. Þar hljóp ég yfir 4 heiðar á tveimur dögum sumarið 2010 í góðra vina hópi.
-Eru fjallvegahlaup eitthvað sem við Íslendingar gætum gert meira úr og verið duglegri að markaðssetja t.d. fyrir útlendinga
Jú, örugglega. Þarna liggja ótrúlega fjölbreyttir möguleikar. En eflaust er vandasamt að gera þetta þannig að upplifunin haldist þó að maður borgi fyrir hana. Það hefur eitthvað verið nefnt við mig hvort ég vilji ekki markaðsvæða fjallvegahlaupin mín eitthvað. En það ætla ég ekki að gera, þetta er frístundagamanið mitt en ekki vinnan. Þarna nýt ég frelsis sem ég hef engan áhuga á að afsala mér. En mér finnst sjálfsagt að aðrir búi sér til viðskiptatækifæri úr hlaupum af þessu tagi. Ég get jafnvel gefið góð ráð þar að lútandi.
-Þú ert búinn að hlaupa 34 fjallvegi núna síðan 2007, ertu á áætlun?
Ég er einum fjallvegi á eftir áætlun. Þetta eiga að verða 50 fjallvegir á tíu árum, þ.e.a.s. fimm fjallvegir á ári að meðaltali. Núna eru búin sjö sumur, þannig að ég ætti að vera búinn með 35 fjallvegi. Ætli ég fari ekki sex næsta sumar til að leiðrétta hallann.
-Á heimasíðunni þinni eru 66 fjallvegir komnir á lista, er erfitt að halda í sér? Muntu ekki halda áfram að þræða fjallvegi þó þú náir markmiðinu?
Það er svo sem ekkert farið að reyna á þetta ennþá. En ég hætti þessu varla þótt ég verði sextugur. Kannski bý ég mér til eitthvert nýtt verkefni. Það á bara eftir að koma í ljós.