Sigurður H. Kiernan í viðtali eftir Ultra-Trail Mt. Fuji: Hoppaði niður fjall á annarri löppinni

birt 05. maí 2014

Fjórir Íslendingar tóku þátt í hlaupinu, fv. Elísabet Margeirsdóttir, Stefán Bjarnason, Sigurður H. Kiernan og Börkur Árnason.Fjórir Íslendingar tóku þátt í Ultra-Trail Mt. Fuji (UMTF) sem fram fór síðustu helgi. Hlaupið er 100 mílna utanvegahlaup og þykir eitt það erfiðasta í heiminum. Í aðdraganda hlaupsins birtum við viðtal við einn íslensku keppendanna, Sigurð H. Kiernan. Siguður lofaði að deila upplifun sinni af hlaupendum með lesendum hlaup.is og óhætt er að segja að lesendur verði ekki sviknir af viðtalinu sem má lesa hér að neðan.Sigurður lauk mílunum hundrað á rúmum 32 klukkustundum eða fjórum klukkustundum skemur en hann hafði gert ráð fyrir.

Elísabet Margeirsdóttir kom fyrst í mark Íslendinganna á 31 klukkustund og 21 mínútu, varð í 11. sæti í kvennaflokki og 108. sæti alls. Stórglæsilegur árangur hjá þessum frábæra hlaupara. Þeir Stefán Bjarnason og Börkur Árnason náðu ekki að klára en slys í brautinni tafði þá félaga töluvert en þeir voru stöðvaðir á næst síðustu stöð, eftir 40 klukkustundir og áttu þá aðeins 30 kílómetra eftir í mark.

Eins og áður sagði ræddi Sigurður Kiernan við hlaup.is um UMTF, undirbúninginn og markmið skömmu fyrir hlaupið í skemmtilegu viðtali. Þar kom fram að þó Sigurður væri þrautreyndur ofurhlaupari væri hann að renna blint í sjóinn að einhverju leyti enda UTMF gríðarleg þrekraun.

"Ég bjó til áætlun sem miðaði við að ég væri í topp 10% í tíma en erfitt er að gera áætlun í hlaupi sem maður veit lítið um. Ég notaði tíma úr síðustu tveimur hlaupum en þetta er þriðja árið sem UTMF hlaupið er farið og miðaði við að ég væri í 150 sæti," útskýrir Sigurður.

Japanskt gæðabensín og hugleiðsla í búddhaklaustriSigurður  og íslensku keppendurnir mættu til Japa nokkrum dögum fyrir hlaupið og sökktu sér í japanska menningu ásamt því að undirbúa sig fyrir átökin. "Mikilvægt er að borða rétt fyrir hlaup en ég komst af því að það er ekki til betri matur en japanskur þegar verið er að fylla á bensín. Við fórum einnig í hugleiðslu hjá æðsta presti í búddhaklaustri í Kyoto en hann gaf okkur mjög góð ráð sem varð þess valdandi að við náðum fullkomri slökun daganna fyrir hlaup og í hlaupinu sjálfu," segir Sigurður en greinilegt er að japönsk menning hefur síður en svo haft neikvæð áhrif á undirbúningin síðustu daga fyrir hlaup.Í hlaupi eins og UMTF er að mörgu að hyggja enda hlaupið í meira en sólarhring við hinar ýmsu aðstæður. "Þar sem við vorum ekki með aðstoðarmenn með okkur keyptum við þjónustu frá fyrirtæki sem veitti okkur aðstoð á sex af tólf stöðvum sem við fórum á. Við gátum sett auka ennisljós, sjúkradót, aukahleðslu fyrir síma, föt, mat, redbull og fleira í poka sem við fengum á stöðvunum og gátum því komist í mat sem hægt var að nota á milli stöðva en það voru allt að fimm tíma hlaup á milli. Annars var boðið upp á japanskan mat á stöðvunum auk vökva til þess að fylla á," segir Sigurður og af lýsingunum af dæma má álykta miklu skipti að öll umgjörð og utanumhald um keppendur skipti miklu máli í svona hlaupi.Andinn í fínu lagi hjá Sigurði.

Fjórum klukkustundum á undan áætlun
"Hlaupið gekk allt eftir áætlun og það kom mér á óvart hve tímaáætlun mín virkaði vel. Fyrstu 100 km voru nánast nákvæmlega eftir þeirri tímaáætlun sem ég gerði fyrir hlaup, en eftir það fór ég að auka hraðann og endaði fjórum tímum á undan áætlun," segir Sigurður um árangurinn. Spurður nánar út í aðstæður á hlaupaleiðinni og hvort einhverjir kaflar hafi verið erfiðari en aðrir segir Sigurður að tveir kaflar hafi verið mjög tæknilegir.

Tækifæri til að taka "selfie" með Fuji fjallið í baksýn gefst ekki oft."Fyrsti kaflinn er fjall númer tvö en við fórum þar um með ennisljós í myrkri. Sú leið var mjög grýtt, erfið yfirferðar, mikil leðja og hallinn meiri en 50% á köflum, en þar voru kaðlar til þess að halda sér í. Seinni kaflinn sem er 20 km langur og með 2000m hækkun eru Tenshi fjöllin. Tenshi fjöllin eru eftir 105 km hlaup og því mikilvægt að spara sig fram að því en hækkunin þar samsvarar Hvannadalshnjúk og er leiðin ansi erfið, sérstaklega niðurleiðin sem er mjög brött og þar voru margir í vanda.""Einnig var mjög vafasamt að hlaupa í myrkrinu þar sem maður átti oft í erfiðleikum að greina ræturnar og aðra hluti sem stóðu upp úr stígunum enda flaug ég á hausinn nokkrum sinnum."

Í fjarþjálfun hjá Ástrala
Sigurður vill að miklu leyti þakka árangurinn góðum þjálfara hinum ástralska Andy DuBois og frábæru æfingaplani. Andy þessi er frægur þjálfari í heimalandi sínu og þjálfar þar nokkra af bestu trailhlaupurum Ástralíu. Sigurður og Elísabet Margeirsdóttir voru í fjarþjálfun hjá Ástralanum frá áramótum. "Ég æfði stíft samkvæmt hans uppskrift frá 1. janúar 2014 en æft var um 15-20 tíma á viku. Hann fór einnig í gegnum hlaupaleiðina með okkur og varaði okkur við að hlaupa of geyst niðurhlaupin og spara okkur fram að Tenshi fjöllin sem við gerðum enda vorum við í fínum gír er við komum þangað eftir 105 km hlaup," svarar Sigurður aðspurður hverju hann þakki árangurinn.

Í fyrra viðtali hlaup.is við Sigurð sagði hann að í hlaupinu yrði mikil áskorun að halda sér vakandi. En fyrir ári síðar tók Sigurður þátt í 100 mílna hlaupi sem nefnist Western States og átti þá að eigin sögn mjög erfitt með að halda sér vakandi og dottaði töluvert á hlaupu.

"Andy var harður á því að við ættum ekki að sofa þar sem það er ógerlegt að vinna upp slíkt stopp þó stutt sé. Hlaupið hófst kl. 15:00 og það fór að dimma kl. 18:00. Fyrri nóttin hófst því fljótlega eftir start og fann ég ekkert fyrir henni. Um leið og sólin kom upp þá sá maður Fuji fjallið sem er fallegasta fjall í heimi. Maður verður ekki þreyttur af slíku útsýni," segir Sigurðurþ"Þar sem ég kom í mark fyrir miðnætti seinni nóttina fann ég ekkert fyrir þreytu fyrr en ég var komin í bað eftir hlaup. Ég sofnaði nánast í heita pottinum og átti í erfiðleikum með að komast upp úr."Sigurður og Elísabet bregða á leik með innfæddum á leið sinni.

Þaut niður fjallið en fékk í sköflungana
Með  þau orð í huga að Sigurður hafi átt í erfiðleikum með að komast upp úr pottinum eftir hlaup, hvernig er skrokkurinn klukkutímana og dagana eftir svona þrekraun? "Það kemur alltaf eitthvað uppá í svona löngu hlaupi og því mikilvægt að fara rólega í byrjun. Ef það er rakt og blautt þá fær maður blöðrur og skafsár. Ef það er of þurrt getur húðin sprungið og þá fær maður sár. Ef undirlagið er hart fær maður í hnén. Ef undirlagið er grýtt og ójafnt er hætta á að misstiga sig. Einnig ef maður borðar ekki rétt fyrir og í hlaupinu á maður í maga og næringarvanda. Hér skiptir reynslan gríðalegu máli."

Sigurður á einni af hvíldarstöðvunum."Smá saman lærir maður á líkamann og áttar sig á hvað virkar og hvað ekki til þess að minnka líkur á tjóni. Ég veit allt þetta og ég veit að það borgar sig aldrei að fara hratt niður fjöll en gerði þau mistök að fara allt of hratt niður Tenshi fjöllin þar sem ég taldi að ég þurfti ekki að passa mig lengur en einnig var það ansi gaman að þjóta niður fjallið framhjá fullt af hlaupurum sem fóru hægt." Í kjölfarið fór Sigurður að finna verulega til í sköflungunum sem hægði á honum síðasta hluta hlaupsins.Hoppaði á öðrum fæti niður síðasta fjallið"Síðustu 11 km voru mjög slæmir og ég þurfti að hoppa á annari löppinni niður síðasta fjallið sem varð þess valdandi að hnéð bólgnaði illa. Eftir hlaup náði ég tveggja tíma svefni áður en ég vaknaði af sársauka og gat ekki sofnað fyrr en ég fékk bólgueyðandi og verkjalyfið kódín. Ég komst síðan upp úr rúmi eftir hádegi daginn eftir og gat smám saman hreyft mig meira og meira," segir Sigurður um viðbrögð líkamans eftir hlaupið.

Eins og áður segir var Sigurður í hópi þriggja annarra Íslendinga í hlaupinu. "Ég hljóp stóran hluta af leiðinni með eða nálægt Elísabetu Margeirsdóttur. Ég missti af henni í lokin en hún tók glæsilegan lokasprett og varð 11. stelpan í mark, sem er ótrúlegur árangur. Um 10-20 stelpur í hlaupinu eru atvinnustelpur í þessari íþrótt og því er þetta ansi merkilegt."

"Því miður náðu hinir tveir Íslendingarnir, Stefán Bjarnason og Börkur Árnason ekki að klára en þeir voru fastir í um eina klukkustund í fjalli tvö vegna slyss í byrjun hlaupsins. Það varð þess valdandi að þeir voru tæpir á tíma en stöðvumnum var lokað á ákveðnum tímum. Þeim tókst vel upp eftir það en voru um 30 sek á eftir lokun inn á næst síðustu stöðina og fengu ekki að halda áfram. Þá voru þeir búnir að hlaupa í um 40 tíma og áttu aðeins eftir 30 km í mark."Umhverfið í kringum Fuji heillandiSigurður heillaðist af Japan í ferðinni og var einkar ánægður með hlaupaleiðina sem hann segir þá skemmtilegustu sem hann hafi farið. Margt hafi borið fyrir augu á leiðinni og stígarnir mjúkir og þægilegir. "Japan er æðislegt land og umhverfið í kringum Fuji það fallegasta sem ég hef séð í hlaupi. Á þessum tíma eru kirsuberjatrén í blóma. Veðrið var þannig að mér var aldrei of kalt eða of heitt og hljóp í stuttbuxum og bol mest allan tímann nema í lokin en þá fór ég í síðerma peysu enda fór ég hægar yfir. Hlaupið er það skemmtilegasta hlaup sem ég hef farið en þetta er sautjánda ultra hlaupið mitt. Allt gekk upp og vel það, ég náði að njóta hlaupsins allan tímann nema síðustu 10 km en maður reynir að læra af þeim mistökum. Þjónustulund Japana er ótrúleg og voru konunglegar móttökur á öllum drykkjarstöðvum. Ég er strax farinn að undirbúa endurkomu mína að ári," segir Sigurður að lokum.Lestu viðtal hlaup.is við Sigurð fyrir hlaupið. Sigurður og Elísabet fylgdust að stóran hluta hlaupsins.