Magnús Gottfreðsson 51 árs læknir á Landspítalanum, lauk í janúar við sex stóru (maraþonin í New York, Chicago, Boston, Tokyo, London og Berlín) þegar hann hljóp Tokyo maraþonið. Hlaup.is telst til að Magnús sé fimmti Íslendingurinn sem vinnur þetta afrek. Að því tilefni samþykkti Magnús að fræða lesendur örlítið um þessa merkilegu raun.Spurður um bakgrunn sinn í íþróttum og hlaupum segist Magnús hafa verið í sveit sem barn og því lítið tekið þátt í skipulegum fótbolta eða handbolta eins og vinir hans. Hinsvegar hafi hann haft gaman af því að hlaupa allt frá því í sveitinni í gamla daga.„Sumir vilja meina að það hafi verið mikið happ fyrir mig að sleppa við ,,íþróttabölið" og tilheyrandi meiðsli! Í staðinn fékk ég hreyfiþörf minni svalað með því að eltast við hesta, rollur og kýr úti í haga. Ég hjólaði líka mikið sem barn og unglingur og hef hlaupið nokkuð reglulega frá því að ég var í menntaskóla, þó með nokkrum hléum meðan ég var í sérnámi í Bandaríkjunum. Ég hef ekki verið í neinum formlegum hlaupahópi, -er aðeins of óskipulagður fyrir það, þótt ég eigi marga hlaupara að vinum. Ég er líka svo heppinn að eiga sprækan hund sem sér um að halda mér og fjölskyldunni á hreyfingu," svarar Magnús spurður nánar um hlaupabakgrunn sinn.
Hvað tók það langan tíma að klára sex stóru? Og hvernig varð það að markmiði að klára þessi sex stóru?
Það tók mig 11 ár! Ég hljóp Laugaveginn fyrst 2002 sem var mitt fyrsta hlaup lengra en hálfmaraþon. Árið eftir kom mitt fyrsta maraþon í London en það taldist ekki með í þessum sex stóru því að of langur tími var liðinn.
Hlaupið í Tokyo 2017 var maraþon númer tólf, þannig að ég hef verið að hlaupa innan við eitt maraþon á ári að jafnaði. Ég frétti að það væru tímamörk á því hversu gömul hlaupin mættu vera til að teljast gjaldgeng í "World Marathon Majors" og sá þá að ég var að brenna inni með seinna hlaupið mitt í London, sem er frá árinu 2006. Sú vitneskja var svolítið spark í rassinn, því lét ég slag standa og skráði mig í Tokyo maraþonið sem var lokahnykkurinn af þessum sex stóru. Hin hlaupin voru Berlín 2006, Boston 2007, New York 2009 og Chicago 2015. Reyndar hef ég hlaupið í sumum þessara borga oftar en einu sinni. Mér finnst ágætt að nota stór hlaup eins og þessi sex stóru sem markmið og þá reyni ég auðvitað að sinna æfingum af einhverju viti mánuðina fyrir hlaup. Mín reynsla er sú að ef maður mætir vel undirbúinn til leiks verður hlaupið þeim mun ánægjulegra. Á milli tek ég góð hvíldartímabil þar sem ég geri eitthvað annað, það er mjög endurnærandi að breyta til inná milli.Hvert var skemmtilegasta maraþonið og hvert þeirra kom mest á óvart?Vá, þetta er erfið spurning! Mér fannst mjög gaman að hlaupa í Boston og París, en þar náði ég mínum bestu tímum og naut þess í botn. Mér finnst líka alltaf mjög gaman að hlaupa í New York - ég hef hlaupið þar þrisvar, stemmingin er alveg ólýsanleg en brautin er ekki auðveld. Ég verð líka að segja að ferðin til Japans var frábær - þetta er svolítið framandi heimur, borgin er svo hrein og snyrtileg að botninn á skónum mínum í lok hlaups var mun hreinni en þegar ég lagði af stað!! Við notuðum líka tækifærið og skoðuðum okkur um, skruppum m.a. með hraðlestinni til Kyoto sem er afar falleg og sögufræg borg. Get mælt með Japan.
Hvert var skemmtilegasta maraþonið og hvert þeirra kom mest á óvart?
Vá, þetta er erfið spurning! Mér fannst mjög gaman að hlaupa í Boston og París, en þar náði ég mínum bestu tímum og naut þess í botn. Mér finnst líka alltaf mjög gaman að hlaupa í New York - ég hef hlaupið þar þrisvar, stemmingin er alveg ólýsanleg en brautin er ekki auðveld. Ég verð líka að segja að ferðin til Japans var frábær - þetta er svolítið framandi heimur, borgin er svo hrein og snyrtileg að botninn á skónum mínum í lok hlaups var mun hreinni en þegar ég lagði af stað!! Við notuðum líka tækifærið og skoðuðum okkur um, skruppum m.a. með hraðlestinni til Kyoto sem er afar falleg og sögufræg borg. Get mælt með Japan.
Hvað kom mest á óvart á þessu ferðalagi öllu?
Sennilega þegar ég hljóp í París á sínum tíma - skeiðklukkan mín bilaði kvöldið fyrir ræsingu og ég hljóp því án hennar. Ég var því ekki of upptekinn af fyrirfram mótuðum hugmyndum um millitíma, heldur lét ég tilfinninguna alfarið ráða og einhvern veginn gekk það upp. Kannski er það ástæðan fyrir því að ég náði mínum besta tíma þar og hljóp m.a.s. á neikvæðu splitti. Það er líka skemmtilegt við langhlaup almennt að fólk getur haldið áfram að bæta sig fram eftir öllum aldri, það kemur mörgum á óvart þegar þeir byrja að hreyfa sig, að ekki sé minnst á jákvæð áhrif á andlega og líkamlega líðan almennt.
Ertu kominn með ný markmið, jafn háleit?
Ég hef mjög gaman af útiveru og ferðalögum, þ.m.t. fjallgöngum og skíðaferðum í fallegri náttúru. Næsta mál á dagskrá er nokkurra daga fjallaskíðaferð með góðum félögum til Piz Bernina, sem er ríflega 4000 metra tindur í Svissnesku ölpunum. Við göngum á fjallaskíðum utan alfaraleiða og notum skinn undir skíðin þegar við þurfum að ganga upp verulegan bratta en getum síðan tekið þau undan þegar upp er komið og rennt okkur niður utan brauta, oft í frábæru púðri ef heppnin er með. Varðandi hlaup, þá væri alveg til í að ná einu góðu löngu hlaupi í haust en er ekki búinn að skrá mig í neitt ennþá. Það kemur í ljós. Svo væri auðvitað gaman að hlaupa í fleiri heimsálfum - ég á eftir að hlaupa í Suður-Ameríku, Afríku, Eyjaálfu og Suðurskautslandinu, svo að það er af nógu að taka!