Viðtal: Þorbergur Ingi annar í alþjóðlegu utanvegahlaupi

birt 14. júní 2016

Þorbergur á palli í Sviss á laugardaginn.Þorbergur Ingi Jónsson, utanvegahlaupari með meiru hafnaði í öðru sæti í utanvegahlaupinu Scenic trail í Sviss sem fram fór á laugardag. Þar með heldur Þorbergur áfram að gera góða hluti á erlendri grundu en hann hefur verið að ná frábærum árangri á alþjóðavettvangi á undanförnum misserum.  Vegalengdin í Scenic trail var 54 km með 3900 metra hækkun en Þorbergur kom í mark á rétt rúmlega sex tímum.„Hlaupið gekk bara vel. Ég hef verið að safna talsverðu vertical magni síðustu vikur sem mér hefur reyndar fundist sitja aðeins í mér og ég hef verið að fíla mig aðeins þungan. En eftir fyrri part hlaupsins fór mér að líða betur og lappirnar „léttust" aðeins. Eftir mestu hækkunina fór ég að hlaupa betur og vann mig upp í annað sætið þegar um 30 km voru búnir," sagði Þorbergur í viðtali við hlaup.is"Planið var að keyra vel á hraðari "beina" kafla og niður brekkur en mikil úrkoma um nóttina og morguninn gerði skógarstígana hála og sleipa. Því gat ég ekki pressað alveg jafn vel á hröðu köflunum eins og ég vildi."

"Ég var orðin virkilega þreyttur síðustu 15 km en náði hinsvegar að klára mjög vel og saxa þokkalega á fyrsta mann síðustu 10 kílómetrana," sagði Þorbergur um seini hluta hlaupsins. Þess má geta að Þorbergur endaði rétt rúmum fjórum mínútum á eftir mjög sterkum hlaupara frá Sviss sem hafnaði í fyrsta sæti.

Þess má geta að Scenic trail var valið flottasta ultrahlaup ársins í Sviss árið 2015 en hlaupið þykir laða að sér sterka hlaupara á ári hverju.

„Heilt yfir var ég nokkuð sáttur við árangurinn og hvernig ég spilaði úr því sem ég hafði þennan dag en sjálfsögðu hefði ég vilja vinna hlaupið. Þetta var fyrsta stóra hlaup sumarsins hjá mér svo ég geri ráð fyrir að geta komið mér í betra form og styrkjast enn frekar fyrir HM í ultrahlaupum sem haldið verður í Portúgal í haust," sagði Þorbergur Ingi að lokum.