Meiðsli geta verið fylgifiskur íþrótta og hlaup eru þar engin undantekning. En hins vegar er hægt að beita ýmsum aðferðum til að minnka líkur á meiðslum. Hlaup.is hafði samband við Gauta Grétarsson og spurði hann ýmissa spurning um hlaupara og hlaupatengd meiðsli. Gauti hefur starfað sem sjúkraþjálfari í áratugi og í starfi sínu hefur hann margoft meðhöndlað hlaupara.
"Þar legg ég mesta áherslu á forvarnir, mælingar á vöðvakrafti, vöðvastjórnun og mjólkursýru," segir Gauti um áherslur sínar þegar kemur að meðhöndlun á hlaupurum. Þess má geta að Gauti hefur síðustu tvö árin aðstoðað Helen Ólafsdóttur, einn fremsta langhlaupara landsins í þjálfun sinni. Þá hefur Gauti verið með sérstaka hlaupaleikfimi undanfarin ár, þar sem hann leggur áherslu á samhæfingu, tækni, liðleika og stöðugleika.
Gauti er einn af reyndari íþróttasjúkraþjálfurum landsins. -Miðað við það sem þú sérð í þínu starfi, hver eru algengustu mistök keppnishlaupara annars vegar og hins vegar áhugahlauparans?Báðir hóparnir gera í raun sömu mistök, þeir ofmeta eigin getu og vanmeta líkamleg takmörk. Meiðsli er sá þáttur sem stöðvar flesta langhlaupara, flestir átta sig ekki á því að meira þarf til heldur en að þjálfa hjarta og blóðrás.Margir gleyma því að líkaminn er með taugakerfi sem stjórnar öllum hreyfingum. Ef taugakerfið er ekki þjálfað eða tillit tekið til þess, þá lendir viðkomandi hlaupari í vandræðum fyrr en seinna. -Er einhver ein tegund meiðsla sem hlauparar eru líklegri til að þróa með sér frekar en önnur, hvernig má forðast slík meiðsli?Algengasta tegund meiðsla hjá langhlaupurum eru álagsmeiðsli, ástæða slíkra meiðsla er of mikið álag á sömu vöðvahópa og sinafestur. Álagsmeiðsl gera yfirleitt vart við sig vegna þess að hlaupið er of oft, of langt og undir of miklu álagi.Svo dæmi sé tekið þá eru hlaup í 2 - 3 klukkutíma ekki í samræmi við neina þjálffræðilega þætti. Betra er að æfa frekar 2 - 3 sinnum á dag í stað þess að taka eina langa hlaupaæfingu eins og margir gera.
-Hlaup eru í eðli sínu tiltölulega einhæf hreyfing, er ekki nauðsynlegt að stunda annarskonar hreyfingu/styrktarþjálfun með hlaupum?
Mikilvægt er að stunda krossþjálfun og blanda þannig saman mismunandi formum þjálfunar. Dæmi um krossþjálfun gæti t.d. falist í að blanda saman hlaupum, hjólreiðum, sundi, styrktarþjálfun svo eitthvað sé nefnt.
-Hvað annað geta hlauparar gert til að fyrirbyggja meiðsli?
Mikilvægt er að muna að borða meira fyrir æfingar. Oft upplifi ég að hlauparar undirbúa sig ekki fyrir æfingar með því að næra sig vel á undan. Slíkt eykur verulega á meiðslahættu en takmarkar einnig afköst og kemur í veg fyrir framfarir.
-Að mati sjúkraþjálfara, hvað þarf einstaklingur í kyrrsetustarfi með lítinn hlaupagrunn að gera áður en æskilegt er að hann fari út að hlaupa reglulega?
Hann á að byrja á því að fara í göngutúra, ganga stigana í vinnunni, fara í göngutúr í hádeginu og venja sig á að standa oftar upp í vinnunni. Síðan er mikilvægt að leita til viðurkenndra og menntaðra þjálfara til að aðstoða við skipulag.
Líkaminn er það dýrmætasta sem við eigum. Þess vegna þurfum við að vera skipulögð og fara varlega af stað í upphafi. Þetta er svipað og þegar við ætlum að fjárfesta með sparifé. Við byrjum ekki á því að gera bara eitthvað eða fjárfesta í verðlausum pappír. Förum skynsamlega af stað og höfum raunhæf markmið. Aðferðin sem notuð er í raunveruleikaþáttum í sjónvarpi er ekki rétta leiðin.
-Jákvæð áhrif hlaupa eru margskonar, bæði á líkama og sál, að þínu mati hvað er það allra jákvæðasta við hlaup?
Það jákvæðasta við hlaupin eru áhrifin á hjarta og blóðrás og framleiðsla endorfína sem gefa vellíðan og slökun. Einnig eru áhrif þess að vera í hóp og upplifa samkennd með öðrum mjög mikilvægur fylgifiskur hlaupa.
Er einhver ein lykilæfing sem þú telur að hlauparar ættu að gera til að ná betri árangri og/eða minnka líkur á meiðslum?
Borða eftir æfingar, helst innan 15 mínútna. Æfing númer eitt hjá mér felst í því að vera á fjórum fótum og lyfta bakinu upp og niðu á víxl. Hún er auðveldasta og mikilvægasta æfing sem ég kenni. Æfingin bætir hreyfistjórnun í baki og mjöðmum, ásamt því að auka mýkt og stöðugleika í bol.