Ívar kemur í mark í Boston á 2:59:03.Mörgum hlaupurum dreymir um að hlaupa eitt af stóru maraþonunum sem tilheyra World Marathon Majors. Ívar Trausti Jósafatsson, 53 ára Reykvíkingur er einn þeirra sem hefur hlaupið öll fimm maraþonin. Hann stefnir nú á að hlaupa Tokyo maraþonið en því var bætt við WMM mótaröðina eftir að Ívar vann þetta mikla þrekvirki.Ívar Trausti sem býr í Norðlingaholti, æfir að mestu leyti sjálfur en hleypur undir merkjum Bíddu aðeins ásamt því að keppa í þríþraut fyrir Þríkó. Það sem er einkar athyglisvert við afrek Ívars er að hann hjóp maraþonin fimm á innan við tveimur árum. Sem barn og unglingur átti Ívar auðvelt með að hlaupa en hafði lítinn áhuga hlaupum. Upp úr þrítugu byrjaði Ívar hinsvegar að hlaupa nokkuð skipulega og árið 1997 hljóp hann t.d. New York maraþonið á 2:46:50 en í kjölfarið neyddist hann til að hætta að hlaupa vegna meiðsla.12 árum seinna eða árið 2009 að Ívar byrjaði að hlaupa að nýju. Með mikilli vinnu tókst honum að halda meiðslunum niðri og í kjölfarið ákvað hann að stefna á New York maraþonið sama ár. Hlaupið var skemmtilegt að sögn Ívars en reyndi þó verulega á eins lesa má um í viðtalinu hér að neðan. Tæpum tveimur árum seinna hafði Ívar hlaupið öll fimm stóru maraþonin þ.e. New York, Boston, Chicago, Berlín og London.Ívar féllst á að svara nokkrum spurningum um maraþonin fimm en eins og nærri má geta kennir þar ýmissa grasa.
Hvernig kom það til að þú kláraðir öll maraþonin fimm?
Eftir New York 2009 var ég farinn að hlaupa nokkuð skipulega og í kjölfarið stefndi ég á London í apríl 2010. Það var mjög skemmtilegt hlaup en erfitt þar sem ég fékk slæmt þursabit kvöldið fyrir hlaupið. Ég var hæstánægður að klára hlaupið þó tíminn væri 3:26:43.
Næst var það Chicago maraþonið þann 10.10.2010. Virkilega skemmtilegt hlaup, fengum ágætt veður og það vildi svo skemmtilega til að um leið og ég kom í mark á rúmum 3:08 þá hitti ég frænda minn og nafna Ívar Adolfsson sem hafði komið í mark rétt á undan mér. Við endamarkið, rétt um mínútu eftir að við kláruðum, þá settumst við niður og fengum okkur kaldan bjór saman. Umgjörðin í kringum Chicago maraþonið er mjög góð, auk þess sem borgin hefur uppá margt að bjóða.
Ég náði inn í Boston maraþonið og hljóp það í apríl 2011. Boston maraþonið er mjög skemmtilegt, það er ákveðið ævintýri enda mikil stemming í borginni fyrir hlaupinu og sagan í kringum það skemmir ekki fyrir. Ég fór varlega, ekkert stress í upphafi í rúllandi braut, hljóp varlega upp Heartbreak Hill og fleiri brekkur, síðan reyndi ég að rúlla restina. Hlaupið gekk ágætlega og ég náði aðeins að bæta tímann og endaði á 2:59:03.
Ég vissi að ég myndi klára Marathon Majors seríuna ef ég kláraði Berlín og auðvitað kom ekkert annað til greina. Þegar maður er orðinn eldri en í gær... þá vill maður njóta hlutanna betur auk þess sem maður reynir að uppfylla ýmis takmörk eða óskir. Eitt af því var að klára öll hlaupin fimm.
Ívar ásamt konu sinni Örnu á lokasprettinum í Berlín.Haustið 2011 fór ég ásamt frúnni, Örnu Kristjánsdóttur til Berlínar. Við vorum bæði skráð í hlaupið og mikil gleði framundan. Kvöldið fyrir maraþonið var Arna með mikla magaverki og í ljós kom að hún var með matareitrun. Eftir erfiða nótt sagðist Arna vilja fara í hlaupið, hún vildi allavega byrja og sjá til. Ég var ekki viss um að hún myndi ljúka hlaupinu og vildi því hlaupa með henni og fylgjast með. Við enduðum á því að hlaupa saman, ég gat þá merkt við það markmið. Ég fylgdist vel með henni, skokkaði og naut hlaupsins. Til öryggis þá stoppuðum við á öllum ferðakömrum á leiðinni!Eftir 38 km þá gat ég merkt við annað "takmark", en oft þegar maður er að klára maraþon þá er fólk á hliðarlínunni að bjóða manni drykki og stundum bjór (áfengan og óáfengan) Ég nýtti tækifærið og Arna vissi vart hvaðan á hana stóð veðrið þegar hún fann mig ekki eftir eitt stoppið. Þá var henni bent á að maðurinn hennar hefði farið inn á pöbb og þar fann hún mig, að klára eina væna krús af þýskum bjór. Því "takmarki" var þar með náð auk þess að klára WMM auk takmarksins að klára maraþon með frúnni.Við kláruðum maraþonið saman og það var ótrúlegt afrek hjá henni með matareitrun og öllu sem því fylgir. Hún viðurkenndi fyrir mér eftir á að hún hefði ekki viljað sleppa hlaupinu því ég hefði þá kannski sleppt því að fara og hún vissi að ég var að klára "fimmuna".
Á hve löngu tímabili hljópstu maraþonin fimm?
Ég hljóp fyrst New York árið 1997, en þar sem ég fór aftur árið 2009 þá telur það með hinum og kláraðist í Berlín haustið 2011. Sem sagt kláraði ég WMM á innan við tveimur árum.
Segðu okkur frá því eftirminnilegasta við hvert hlaup, þ.e. sérkennum hvers hlaups?
New York er New York. Maraþonið er einstakt og þar er svakaleg stemmming. Ekki auðvelt hlaup en andrúmsloftið ólýsanlegt.
Chicago er mjög vel skipulagt, borgin skemmtileg og virkilega góð stemming í hlaupinu. Flöt og góð braut. Eins og í New York þá getur bæði orðið mjög heitt og ansi kalt líka.
Í London var skemmtileg umgjörð, gaman að hlaupa og þá sérstaklega síðustu kílómetrana.
Boston hlaupið er með mikla sögu og það er ansi sérstakt að taka þátt í Boston maraþoni. Brautin er ekki auðveld en mikil stemmning. Það er áríðandi að passa sig að fara ekki of hratt af stað og fara varlega í brekkurnar til að geta nýtt vel síðustu kílómetrana sem eru aðeins undan fæti.
Eins og í Chicago þá er brautin í Berlín flöt og góð. Borgin frábær og hlaupið að öllu leyti mjög gott.
Er hægt að lýsa upplifuninni að hlaupa undir hvatningarópum hundruða þúsunda áhorfenda?
Hún er æðisleg, en mun æðislegri en ella ef maður hefur hlaupið skynsamlega og æft vel fyrir hlaupið. Maraþon er aldrei auðvelt en það er hægt að njóta þess ef undirbúningurinn hefur verið góður og maraþonið sjálft hlaupið skynsamlega frá upphafi til enda. Oftast þýðir það líka betri tími í sjálfu hlaupinu.
Nú hefur örugglega ýmislegt gengið á í þessum fimm maraþonum. Ertu með skemmtilega sögu sem þú vilt deila með lesendum?
Það er margt sem kemur upp í hugann. Til dæmis var á vissan hátt gaman og ég hló oft í New York maraþoninu þegar ég var að farast í fótunum með svakalega krampa. Ég hljóp augljóslega hraðar í upphafi en ég átti að gera og borgaði ærlega fyrir það. Ég man vel þegar ég var að "reyna að hlaupa" inn í Central Park og ekki svo margir kílómetrar eftir. Ég var í bol merktum "ÍVAR" sem er sniðugt og maður fær mikið pepp á mörgum stöðum í þessum stóru hlaupum ef maður er „merktur." Þarna fékk ég það aðeins í bakið, því ég hreinlega féll í götuna þegar ég fékk mikið krampakast og þar sem ég var að reyna að standa upp þá heyrðist "IVAR you are not supposed to be lying there, you should be running" svo hló viðkomandi og hvatti mig áfram. Mér tókst þó að brosa og hafa bara gaman af sem og ótal áhorfendur.
Ívar með einn kaldann í miðju Berlínarmaraþoni.Hvað með hápunkta?New York er New York og þar myndast mikil stemning í startinu þegar lagið New York New York með Frank Sinatra er spilað. Chicago var einnig mjög skemmtilegt, Boston æðislegt, London skemmtilegt þrátt fyrir bakvesenið hjá mér. En það sem stendur upp úr er að hafa klárað Berlín með frúnni og auðvitað hennar afrek að klára hlaupið. Þá stendur upp úr fyrir okkur að hafa hlaupið saman, hlegið og notið þrátt fyrir ástandið á henni.Þá get ég líka grobbað mig og skellt fram góðri sögu um vænan þýskan bjór á 38. km. Auk þess að geta grobbað mig yfir því að hafa klárað WMM. Allt þetta í einu hlaupi! Í Berlín var hakað við ansi mörg takmörk og óskir, sumt bjóst ég ekki endilega við að rættist svona fljótt og jafnvel aldrei, en þegar aðstæður breytast er best að sjá það jákvæða í stöðunni og njóta!Hlaupin eru misjafnlega erfið, eru þau fimm stóru heppileg fyrir fólkt til að stefna að bætingu?Berlín er þekkt fyrir flata og hraða braut þar sem fólk á að geta bætt sig. Í Chicago er líka góð braut, en veðrið í Berlín held ég að sé "öruggara".Ef maður hleypur Boston "rétt" þá er hægt að ná góðum tíma í þeirri braut. London er ágæt braut, en New York er ekki braut til að ná góðum tíma, en það er svo sannarlega þess virði að hlaupa New York maraþonið.
Nú var Tokyo að bætast við WMM, er á stefnuskránni að gera sér ferð þangað?
Já, vonandi kemst ég í febrúar 2015. Pínu spaugilegt að vera nýbúinn að klára WMM seríuna og þá er einu bætt við og það í Japan. En verður maður ekki bara að láta sig hafa það, enda visst ævintýri að fara til Japan og hlaupa í Tokyo.
Af hverju ætti fólk að drífa sig út og taka þátt í einu af sex stóru maraþonunum?
Það er alltaf gott að hafa einhver markmið, setja sér takmark. Ef maður hefur áhuga á þessu þá eru hlaup mjög skemmtileg, þeim fylgir mikil stemming, félagsskapurinn í hlaupahópum er mjög góður. Hollusta fylgir hlaupunum auk annarra jákvæðra þátta. Ég held að að hlaupaáhuginn sé kominn til að vera, fólk hreinlega kýs sér þennan lífstíl, að æfa reglulega án þess að vera afreksfólk í íþróttum. Flestir æfa ánægjunnar vegna sem einnig kemur sér vel heilsusamlega. Í kjölfarið fylgja börnin, vinir og vandamenn. Góð keðjuverkun á sér stað og fleiri og fleiri skokka og þá fjölgar þeim sífellt sem fara í ferðalög erlendis til að taka þátt í hlaupum, gönguferðum, hjólaferðum, þríþraut osfrv. Ég held að aktíva fjölskyldan sé komin til að vera.
Hefurðu sérstök ráð til fólks sem ætlar að taka þátt í einu af sex stóru?
Undirbúa sig vel, æfa skynsamlega, hlusta á líkamann, hvíla þegar þarf og forðast þannig meiðsli eftir fremsta megni. Þá mæli ég með því að fólk setji sér raunhæf markmið... og njóti síðan. Besta ráðið er að fara ekki of hratt af stað í hlaupinu.
Eitthvað að lokum?
Mér finnst virkilega gott að sjá hversu margir eru byrjaðir að skokka og hlaupa sér til heilsubótar og gleði. Ekki eingöngu til að keppa, en það er jákvætt að ansi margir sem byrja að skokka vilja þegar fram í sækir bæta tímana sína í hinum ýmsu vegalengdum. Sérstaklega eftir að hafa komist á lagið með að æfa og taka þátt í glæsilegri flóru götuhlaupa sem bjóðast orðið hérlendis sem erlendis.
Þá finnst mér gaman að sjá hvernig jákvæð keðjuverkun á sér stað í þessum málum. Fjöldi hlaupahópa af öllum stærðum og gerðum eru starfandi og félagsskapurinn er góður, hvetjandi og hollur. Fjöldinn allur af fólki fæst til að prófa að mæta, byrjar á að koma sér af stað með aðstoð hinna og fer síðan að mæta reglulega með góðum stuðningi frá hópfélögum. Áður en langt um líður fer fólk að finna hvernig hlaupin eru skemmtileg og góður félagsskapur eykur vellíðan og í raun auka hlaup lífsgæði fjölda fólks. Skokkarinn fer að óska sér að hlaupa lengra, oftar og betur. Fara hraðar og upp kemur létt keppnisskap. Oft verður þetta til þess að einstaklingurinn fer að borða hollari mat, huga betur að heilsunni, léttast ef þörf er talin á því osv.frv. Allt til að auka enn meira lífsgæðin, gleðina og fara hraðar yfir.
Ég held að þetta sé þróun sem er kominn til að vera og eigi eftir að aukast, ekki bara hlaupin, heldur hreyfing yfir höfuð. Hollur og góður lífstíll er eitthvað sem fleiri og fleiri einstaklingar og fjölskyldur eru að temja sér og mun hafa ótal jákvæðar keðjuverkanir um ókomna framtíð. WMM hlaupin eru það spennandi að þau ættu að eiga sinn þátt í að koma fólki af stað eða halda gangandi í skemmtilegum og hollum lífsstíl. Komaso!