Viðtal við Sigurð H. Kiernan: Verður erfitt að halda sér vakandi allan timann

birt 22. apríl 2014

Íslensku ofurhlaupararnir að drekka í sig japanska menningu. Sigurður Kiernan th. ásamt Elísabetu Margeirsdóttur og Berki Árnasyni sem einnig taka þátt í hlaupinu.Sigurður Hrafn Kiernan mun á föstudaginn næstkomandi föstudag hefja leik í 100 mílu hlaupi Ultra-Trail Mt. Fuji (UTMF) sem fram fer í Japan. Sigurður er ekki eini Íslendingurinn sem ætlar að leggja þessa miklu þrekraun á sig en einnig munu Elísabet Margeirsdóttir, Börkur Árnason og Stefán Bragi Bragason taka þátt.Sigurður er síður en svo nýliði þegar kemur að ofurhlaupum en samtals hefur hann þreytt 16 slík hlaup, þar af fimm á síðasta ári! Fyrirmynd UTMF er Ultra Trail Mont Blanc sem er eitt þekktasta ofurutanvegahlaup í heimi. Þeir sem hlaupið hafa bæði hlaupin eru þó sammála um að UMTF sé mun erfiðara. Hlaupið er samtals 168 km leið, umhverfis fjallið Fuji sem er hæsta fjall Japan.

Verður erfitt að halda vöku
Blaðamaður hlaup.is heyrði í Sigurði í upphafi vikunnar en þá var hann nýkominn til Japan ásamt hinum Íslendingunum. "Þetta mun vera lengsta og erfiðasta hlaup sem ég hef tekið þátt í. Ég fór 100 mílna hlaup í Bandaríkjunum í fyrra. Þá átti ég mjög erfitt með að halda vöku yfir nóttu og dottaði reglulega á hlaupum. Þetta hlaup er mun tæknilegra og erfiðara en það, auk þess sem hlaupið er yfir 2 nætur," sagði Sigurður sem hefur ásamt hinum íslensku keppendunum eytt síðustu dögum í Japan við lokaundirbúning.

Hlaupaleiðin einkennist af skógarvöxnu láglendi þar sem undirlag er grýtt og rætur og leðja gerir keppendum erfitt fyrir. Þegar hálendi tekur við fer brattinn í allt að 50%. "Fyrsta markmiðið er alltaf að klára. Ég hef alltaf klárað þau hlaup sem ég hef tekið þátt í og því mjög mikilvægt að gefast aldrei upp. Til þess að ná því markmiði mun ég byrja rólega og ekki taka neinar áhættur fyrstu 100 km. Seinna markmiðið er að klára á 36 tímum en þá er ég komin vel inn í seinni nóttina er ég kem í mark og það verður erfitt að halda vöku. Hámarkstíminn er 44 tímar en þeir sem hafa ekki skilað sér inn þá fá ekki að klára."segir Sigurður sem á augljóslega gríðarlega þrekraun fyrir höndum.

12 drykkjarstöðvar eru á leiðinni en allt að 5 tíma hlaup eru á milli stöðva þar sem lengst er. Til þess að komast á milli stöðva þarf að hafa mat og drykk meðferðis auk skyldubúnaðar s.s. öryggisfatnað, bjarnarbjöllu til þess að fæla villtu dýrin frá, síma og fleira. Af þessari upptalningu má skilja að keppendur geta lent í ýmsum ævintýrum á leiðinni.

"Málið er að gefast aldrei upp"
Markviss undirbúningur hjá Sigurði hefur staðið yfir frá áramótum en hann hefur notið aðstoðar sérhæfðs þjálfara frá Ástralíu að nafni Andy DuBois. Þegar Sigurður er spurður út í undirbúninginn svarar hann því til að mun erfiðara sé að æfa fyrir hlaup af þessari tegund á veturna en á sumrin enda oft erfitt eða ógerlegt að hlaupa um fjöll og firnindi á Íslandi yfir vetrartímann. "En þjálfarinn var úrræðagóður og alltaf var hægt að finna leiðir til þess að ná æfingu. Andy lagði mun meiri áherslu á styrktaræfingar, uppgöngur og brekkuhlaup en ég er vanur. Hann fékk mig einnig til þess að mæla æfingar í klukkutímum frekar en að hugsa um fjölda km í viku. Ég var að æfa 12-20 tíma á viku en hljóp sjaldan meira en 100 km. Lítil áhersla var lögð á tempóhlaup og spretti en mun meiri á að fara hægt yfir í miklum halla. Ég var ósjaldan með brettið stillt á 15 gráður klukkutímunum saman þegar ógerlegt var að vera á Esjunni," segir Sigurður aðspurður um undirbúning fyrir hlaupið.

"UTMF er stærsta hlaupaverkefnið sem ég hef tekið þátt en það hefur verið á "to do" listanum mínum í 3 ár. Undirbúningurinn hefur gengið vel og ég hef sjaldan verið eins tilbúinn rétt fyrir hlaup og núna en í svona löngu hlaupi þá kemur alltaf eitthvað fyrir sem torveldar hlaupið. Málið er að gefast ekki upp," segir þessi mikli ofurhugi áður en við kveðjum hann. Rétt er að minna lesendur á að í næstu viku munum við á hlaup.is heyra aftur í Sigurði sem ætlar að deila hinni væntanlegu mögnuðu lífsreynslu með lesendum.