Yfirheyrsla: Axel Ernir Viðarsson úr UFA-Eyrarskokk

birt 15. desember 2014


Axel í miðri skiptinu í maraþonboðhlaupi FRÍ árið 2013.
Næsti viðmælandi í Yfirheyrslunni er Axel Ernir Viðasson, 34 ára Bolvíkingur sem býr á Akureyri og hleypur með UFA-Eyrarskokk. Axel er giftur, tveggja barna faðir og starfar sem bifvélavirki hjá bílaleigunni Höldur á Akureyri.

Fullt nafn: Axel Ernir Viðarsson.

Aldur: 34.

Heimabær: Bolungarvík.

Fjölskylda: Konan mín heitir Linda Hafdal og við eigum tvær dætur, Tinnu Dís 6 ára og Brynju Dís 3 ára.

Skokkhópur: UFA-Eyrarskokk.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? Byrjaði að hlaupa fyrir alvöru fyrir um sjö árum (2007-2008).

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Finnst skemmtilegast að hlaupa 15-20km.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Seinnipartur dags fyrir gæðaæfingar en fer oft um kl 6 á morgnana og þá er það bara rólegt tempóhlaup.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Allt utanvegahlaup er í algjöru uppáhaldi hjá mér.

Besti hlaupafélaginn? Ætli það sé ekki bara hlaupaúrið, fer aldrei út án þess. Jú og kannski lognið, vil helst hafa það með líka.

Uppáhalds hlaupafatnaður? Er mjög hrifinn af Craft vörunum.

Hvernig hlaupaskó áttu? Er að nota Brooks Glycerin 11 í löngu hlaupin og Brooks Pure Drift í styttri vegalengdir.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Hlaupaúrið ekki spurning, og gott skap. Það er ekki hægt að hlaupa og vera pirraður á sama tíma enda er maður alltaf glaður og sáttur þegar maður kemst út að hlaupa.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Þorvaldsdalsskokkið er ótrúlega fjölbreytt og krefjandi hlaupaleið og mér finnst það alltaf jafn skemmtilegt. Hef ekki enn farið erlendis að hlaupa en það er á dagskrá sem allra fyrst

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Verð að segja hlaupaúrið.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? Á alltaf eftir að fara í Jökulsárhlaupið hér heima, næ því vonandi næsta sumar. Svo er draumurinn að komast út í eitthvað skemmtilegt hlaup.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Nei, gerði það fyrst en er alveg hættur því.

Uppáhaldsorkudrykkur? Hef verið að nota Endurance fuel frá Twin Lab fyrir/á meðan hlaupum og Total Recovery frá Victory Endurance strax eftir átök. Mjög ánægður með hvoru tveggja.


Í stórfenglegu landslagi í Svarfaðardalshlaupinu fyrir tveimur árum.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Kvöldið fyrir reyni ég að borða eins mikið af flóknum kolvetnum og ég get. Að morgni keppnisdags borða ég stóran morgunmat þremur tímum fyrir hlaup sem samanstendur af hafragraut og tveimur ristuðum brauðsneiðum með sultu og osti. Fylli algjörlega á kolvetna tankinn og fæ mér svo einn banana 30 mín fyrir hlaup. Þetta hefur virkað mjög vel og dugað mér vel.


Feðgin sæl að loknu 1.maí hlaupi UFA í fyrra.

Besti matur eftir keppnishlaup? Ekkert eitt sem ég get bent á. Yfirleitt finnst mér allur matur góður strax eftir keppnishlaup.

Hvernig slakar þú á? Þarf svolítið að minna sjálfan mig á að slaka á, kann það ekkert svakalega vel.

Mesta afrek á hlaupabrautinni? Ætli það sé ekki nýjasta afrekið sem var að klára fyrsta maraþonið i RM sumar.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Sumrin eru skemmtilegust en samt er líka ótrúlega gaman að hlaupa á veturna í froststillum og smá snjó.

Bestu tímar í 5 km/10 Km/hálfmaraþoni/maraþoni? 20:50 í 5 km, 43:42 í 10 km, 1:39:?? í hálfu og 3:46:26 í maraþoni.

Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Já nánast alltaf.

Hvar hleypur þú helst? Er mest að hlaupa innanbæjar og í kringum Akureyri.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Rosalega metnaðargjarn og fer í öll hlaup til að gera mitt allra besta.

Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Yfir sumarið þegar mest er, þá tek ég einn frídag, hleyp alla aðra daga og er að hlaupa um 55-90 km á viku eftir því hvert markmiðið er. Svo hleyp ég töluvert minna á veturna.

Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Er algjörlega fallinn fyrir þríþrautinni og er því að synda og hjóla líka. Ég keppi líka í henni og ætla mér að fara enn meira inn á þá braut. Hef líka stundað Crossfit í mörg ár.

Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Já algjörlega ómissandi hlutur að hafa gæðaæfingar inn í prógramminu.

Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Númer eitt, tvö og þrjú eru bætingar í öllum vegalengdum. Eitthvað flott maraþon út í heimi er á dagskrá sem fyrst. Langar einnig að fara meira út í trail hlaup og er spenntur fyrir ultra hlaupum.

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Það er nú ekki hægt annað en að líta upp til þjálfarans, Þorbergs Inga Jónssonar eftir öll hans afrek. Ótrúlegur hlaupari þar á ferð.

Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Já, skrái allt sem ég geri inn á hlaupadagbókina á hlaup.is

Skoðar þú hlaup.is reglulega? Já nánast daglega.


Uppfullur af orku á leiðinni í langan túr.