Yfirheyrsla: Björg Alexandersdóttir úr Hlaupahópi Stjörnunnar

birt 27. október 2014


Björg með börnunum sínum,  Alexander og Magdalenu eftir Mikkamaraþonið 2012.

Fyrir örfáum árum kom Björg Alexandersdóttir hvergi nærri hlaupum en er nú meðlimur í hvorki fleiri né færri en þremur hlaupahópum, Hlaupahópi Stjörnunnar, Hlaupahópi Icelandair og Hlaupahópi Sigga P.

Fyrir fjórum árum hóf Björg hlaupaferilinn af alvöru eftir að hafa gengið ósátt frá borði eftir 10 km í Reykjavíkurmaraþoni. Í kjölfarið hafði hún samband við hlaupafrömuðinn Sigga P., fékk hlaupaprógram og hefur ekki litið um öxl síðan.

Fullt nafn: Björg Alexandersdóttir

Aldur: 39 ára

Heimabær: Fædd og uppalin í Keflavík en bý í Garðabæ.

Fjölskylda: Tvö börn. Alexander 13 ára og Magdalena 10 ára.

Skokkhópur: Hlaupahópur Stjörnunnar / Hlaupahópur Sigga P. / Hlaupahópur Icelandair

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? Árið 2010 byrjaði ég að hlaupa á milli ljósastaura enda hafði ég akkúrat engan grunn í hlaupum. Sama ár hljóp ég 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu og hélt að ég myndi deyja á leiðinni. Hlaupið reyndist mér erfitt því ég var ekki í neinu hlaupaformi þó ég hafi svo sem alltaf verið dugleg að hreyfa mig. Ég var svo ósátt að komast ekki undir 60 mínúturnar að ég fór heim og inn á hlaup.is og pantaði mér hlaupaprógram. Allar götur síðan hef ég hlaupið eftir prógrammi frá Sigga P.

Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Allar skemmtilegar. Maður gírar sig bara inn á hvert hlaup fyrir sig.

Hvar er skemmtilegast að hlaupa?
Central Park er yndislegur staður til að hlaupa. Þar sér maður alla flóruna af hlaupurum og hreinlega gleymir sér í mannmergðinni. Svo er líka mjög sjarmerandi að hlaupa meðfram Charles river í Boston. Þar eru góðir stígar bæði malbikaðir og malarstígar sem gott er að flakka á milli.  Hér heima er Heiðmörkin klassík ásamt Laugardalnum.

Hvenær sólarhrings er best að hlaupa?
Milli kl. 10 og 12 er minn besti tími. Þá er ég ferskust.

Besti hlaupafélaginn?
Að öllum öðrum ólöstuðum þá er það Bogga vinkona mín (Sigurborg Kristinsdóttir). Ótrúlega skemmtileg og hvetjandi manneskja sem deilir sama áhugamáli þannig að við getum auðveldlega gleymt okkur í gleðinni.

Uppáhalds hlaupafatnaður? Enginn sérstakur þannig séð. Bara að fatnaðurinn sé ekki of þykkur og ekki of hlýr.

Hvernig hlaupaskó áttu? Adidas, Asics, Saucony, Brooks og  Salomon. Finnst voðalega gaman að prófa mig áfram hvað skó varðar og þessa dagana eru Adidas Energy Boost í uppáhaldi. Langar að prufa Adidas Adizero Adios Boost næst.


Björg á milli vinkvenna sinna Sigurborgar t.h. og Ólu Björk t.v.
er þær stöllur tóku þátt í Bláskógarskokkinu nú í sumar.

Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Skórnir. Aðalmálið er að vera í góðum skóm annað finnst mér skipta minna máli.

Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Reykjavíkurmaraþonið er uppáhaldshlaupið mitt hér innanlands. Það er svo mikið stemmingshlaup og í raun uppskeuhátíð hlauparans. Mitt fyrsta maraþon var í Berlín 2012 og það er hlaup sem mig langar að hlaupa aftur. Stemmingin var geggjuð og allt utanumhald í kringum  hlaupið var til fyrirmyndar.


Björg á fullri ferð í hinu skemmtilega hlaupi ,Hengill Ultra.

Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Garmininn minn. Annars er það nú einn helsti kosturinn við hlaupin að maður þarf ekki mikinn útbúnað og hægt er að stunda þau hvar sem er.

Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? Þau eru nokkur. Parísarmaraþonið, NY maraþonið, Chicago maraþonið. Svo langar mig að taka hálft í NY (aftur) og Berlín. Þetta er alls ekki tæmandi listi. Vona bara að ég nái hægt og bítandi að saxa á listann og bæta á hann nýjum og spennandi hlaupum.

Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Ég reyni að hafa máltíðina kvöldið fyrir keppnishlaup kolvetnisríka og þá verður pasta oftar en ekki fyrir valinu. Um morguninn fæ ég mér svo hafragraut með smá salti út á, ferskan ávaxtasafa og kaffi.

Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Já mér finnst gott að hafa valið. Ég hleyp alltaf með iPod en er er ekki alltaf með kveikt á honum. Tónlistin sem ég er með á honum er úr ýmsum áttum en þó ekki ópera eða sinfónía. Alls konar remix kemur mér oft í gírinn.

Mesta afrek á hlaupabrautinni? Mér gekk vel í NY hálfmaraþoninu í mars sl. og hljóp það á 1:42:04. Ég hafði engar væntingar til hlaupsins þannig séð, var stödd í New York út af vinnunni og fannst spennandi að nýta frítímann sem ég hafði í eitthvað skemmtilegt. Ég hitti algjörlega á daginn og leið svo vel allan tímann. Það var ískalt og rakt þennan dag og ef maður á að kvarta eitthvað þá var ég með kul í tönnunum því ég gat ekki hætt að brosa í hlaupinu, svo vel leið mér. Orkan og stemmingin var mögnuð og hlaupaleiðin frábær þótt hún sé krefjandi að mörgu leyti.

Uppáhaldsorkudrykkur? Orkudrykkir fara ekkert sérstaklega vel í magann á mér og þar af leiðandi drekk ég alltaf vatn á löngu hlaupunum og á drykkjarstöðvunum í keppnishlaupum.

Besti matur eftir keppnishlaup? Ég er alltaf frekar lystarlaus eftir mikil átök eins og í keppnishlaupum. En hins vegar rennur ís í brauðformi alltaf ljúflega niður hjá mér og einhverra hluta vegna hef ég alltaf lyst á honum. En hann flokkast kannski ekki beint undir mat.

Hvernig slakar þú á? Mér finnst gott að slaka á í heitum potti og ekki er verra að fara í saltpottinn í Laugardalslauginni. Svo finnst mér oft gott að slaka á með því að strauja eins einkennilega og það nú hljómar.


Hlaupafélagarnir og vinkonurnar þær Björg tv. og Bogga.

Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Mér finnst vorin heillandi tími en þá er allt að springa út og vakna úr dvala. Svo finnst mér veturnir líka góður tími ef það er ekki hálka og mikið rok. En mér finnst betra að hlaupa í svölu lofti en heitu.

Bestu tímar í 5 km/10 km/hálfmaraþoni/maraþoni? 5km 21:54, 10km 45:11, hálfmaraþon 1:42:04, maraþon 3:49.


Einbeitt á ferð í Krabbameinshlaupinu.

Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Já, ég alltaf með prógram frá Sigga P. Það veitir mér aðhald. Siggi er algjör snillingur í að búa til persónumiðaða áætlun. Hann er fljótur að lesa getu hvers og eins og stillir áætluninni upp á raunhæfan hátt.

Hvar hleypur þú helst? Mér finnst nú voðalega gott að reima bara á mig skóna og hlaupa heiman frá mér en þaðan er stutt í Heiðmörkina, út á Arnarnesið og Álftanesið. Einnig er stutt fyrir mig að fara upp í Ásgarð og hlaupa einhvern skemmtilegan hring þaðan með öllum dásamlegu hlaupavinum mínum úr Stjörnunni.

Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Metnaðarfull, vinnusöm með dassi af þrjósku.