Sáttur og sæll eftir Berlínarmaraþon. | Brynjar Viggósson úr Hlaupahópi Sigga P er í Yfirheyrslunni þessa vikuna á hlaup.is. Það er vel við hæfi að Brynjar sé í Yfirheyrslunni í aðdraganda Reykjavíkurmaraþons því jákvæðari og brosmildari hlaupara er erfitt að finna. Jákvæðnin hefur skilað honum langt enda á hann frábæra tíma í hinum ýmsu vegalengdum þó hann leggi áherslu á að árangurinn sé ekki endilega aðalmálið. Kynnumst þessum létta, skemmtilega og jákvæða hlaupara úr Hafnarfirði; Fullt nafn: Brynjar Viggósson. Aldur: Það er hin stílhreina hlaupatala 42. Heimabær: Hafnarfjörður. Fjölskylda: Kvæntur Guðrúnu Bergsteinsdóttur og börnin okkar eru Bergdís (11 ára), Birkir (9 ára) og Arnór (8 ára). Skokkhópur? Það ku vera hinn kyngimagnaði Hlaupahópur Sigga P - fágaður og einkar sjarmerandi hlaupahópur. Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? Á bakgrunn úr íþróttum, helst fótbolta, fór svo í fyrsta hlaupið mitt 2000 þegar vinur minn, Gísli Héðinsson dró mig í Gamlaárshlaup ÍR. Skokkaði mig inn í nokkur hlaup árin á eftir. Fylgdist svo með tengdaforeldrunum loka hverju maraþonhlaupinu á fætur öðru. Við hjónin ákváðum í lok árs 2011 að fara í fullt maraþon og settum okkur í samband við Sigga P. Þá fyrst komst festa og faglegheit á málin. Og enn er ekki aftur snúið. Hlaupin eru flott íþrótt til að halda sér í góðu formi og einfalt er að stökkva út og ná flottri æfingu á 45-60 mínútum (hurð í hurð). Einfalt og ólseigt. |
Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Hef mjög gaman af 10 km keppnishlaupum og því hef ég mjög gaman af góðri tempóæfingu þ.e. um 3 km í rólegri upphitun og svo kröftug keyrsla í 10 km og eftir smá pústun kemur hið yfirvegaða niðurskokk (e. down jogging).
Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Umfram allt þá er það auðvitað í Hafnarfirði, með sínum mikla fjölbreytileika, fegurð og dagfarsprúðu íbúum. Er annars lítið að velta þessu fyrir mér. Hef mjög gaman af að hlaupa í góðu veðri meðfram sjávarsíðunni. Einnig er eitthvað við það að hlaupa í stórborgum erlendis t.d. inn í stórum görðum eða meðfram ám. Í raun er gaman að hlaupa á flestum stöðum svo lengi sem að veðrið er gott (ekki mikill vindur). Hins vegar er minna gaman af hlaupum við Þjóðveg 1 með bíla þjótandi fram hjá. Það eru þó lausnir á öllu og hægt er að hressa upp á hlaupið ef maður t.d. rekst á flokk vinnumanna eða annan hóp og spyr: „Er ekki Reykjavík í þessa átt???" Oftar en ekki nokkuð kómísk viðbrögð sem hljótast af spurningum af þessum toga, sem dæmi, þá eru góðir vinir okkar hinir erlendu ferðamenn alveg einstakur efniviður í þessum málaflokki.
Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Flokkast seint undir að vera A-maður og á því erfiðara með að hlaupa á morgnana og hleyp oftast seinni partinn, jafnvel nokkuð seint á kvöldin. Hins vegar eru alltaf undantekningar. Langa hlaupið á laugardögum tek ég jafnan snemma og reyni helst að fara af stað 07:30 - 8:00. Frábært að hlaupa nokkurn veginn einn og sjá daginn taka við sér. Rúlla úr Hafnarfirði yfir í Garðabæ og Kópavog og sjávarsíðuna til baka er alveg grjótmagnað. Síðan þegar heim er komið þá eru allir að lifna við og því hentar þetta vel. Hleyp einnig árla dags þegar við erum í fríum erlendis, bæði er hitinn oftar en ekki að trufla þegar líður á daginn og svo er oft eitthvað prógram í gangi og því ekki hægt að segja inn í miðjum dýragarði: "Heyrðu, var að spá í að skottast 15 km, sjáumst!" Léttari hlaup er svo ágætt að taka á morgnana en það gerist sjaldan hjá mér en þegar það gerist þá er maður einhvern veginn búinn fyrir daginn án þess að hann sé byrjaður.
Besti hlaupafélaginn? Eagle-inn ekki nokkur spurning! Síðan er erfitt að draga gæðingana út úr góðum og skemmtilegum hóp hjá Sigga Pé en get nefnt að Maggi og Helgi eru líklega sístir...
Uppáhalds hlaupafatnaður? Ég er agalegur regnbogi í þessu og fagna því fjölbreytileikanum ... maður á einhvern einn bol og svo annan í síðerma frá sitthvorum framleiðanda og svo framvegis. Loks þegar stigið er á stokk stæðist maður líklega hvorki umhverfismat né grenndarkynningu.
Hvernig hlaupaskó áttu? Ég er orðinn mikill Brooks maður og Brooks Glycerin (12) eru algjörir draumaskór og því í miklu uppáhaldi hjá mér. Á svo tvö önnur pör enda gott að skipta inn og út (Adidas og Saucony). Annars keyri ég mjög harða pólitík hvað skó varðar. Svipað og álftin gerir, þegar maður er búinn að finna sér þann rétta þá er ei aftur snúið. Vel að merkja, skóna þarf reyndar að endurnýja. Hins vegar skiptir útlitið alls engu máli hér, öllu heldur að skórnir falli vel að manni og maður hlaupi sig þannig ekki til meiðsla. Hef prófað skó sem síðar kom í ljós að pössuðu mér engan vegin og það endaði bara bekknum hjá annars ágætum sjúkraþjálfurum, þeim Robba Magg og Jóhannesi Má í Atlas. | Brynjar og fjölskylda eftir hjólaferð með fjölskyldunni, þar sem ungir sem aldnir lögðu 255 km á fimm dögum. |
Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Stór spurning en er þetta ekki eins og í hverju öðru, maður þarf að vera innstilltur á verkefnið og gera sér í hugarlund hvað maður ætlar að fá út úr æfingunni. Svo er óbrigðult að hafa gaman af þessu og muna að brosa.
Uppáhaldshlaup innan- og utanlands? Reykjavíkurmaraþonið er orðið mjög skemmtilegt, margir þátttakendur og mikil stemming alla brautina í 10 km og lengst af í hálfu. Utan Íslands þá er Berlín svakalega flott og gaman er að hlaupa í gegnum Brandenburgarhliðið rétt áður en komið er í mark.
Brynjar ásamt Birki syni sínum í Flensborgarhlaupinu. | Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Tja, fyrir utan hlaupaskóna þá er það líklega Garmin hlaupaúrið góða. Hefur dugað mér lengi en er af eldri gerðinni og miðað við úrin í dag þá lítur frekar út fyrir að maður sé með gervihnattamóttakara á hendinni heldur en hlaupaúr. Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? Er mjög rólegur yfir þessu en maður hefur velt hinu og þessu fyrir sér. Maraþon í New York og Reykjavík eru hlaup sem maður spyr sig stundum hvort maður eigi ekki að taka og jafnvel hvort eigi að láta vaða í Laugaveginn. Stuttu síðar veltir maður fyrir sér hvort ekki sé best að einbeita sér að 10 km fyrst og fremst, í mesta lagi 21 km. En, þetta leysist og hlýtur að jafna sig. |
Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Fyrst og fremst að vera ekki að gera of mikið úr verkefninu sem er daginn eftir. Kemur bara ójafnvægi á andlegu hliðina. Enda er fólk oftar en ekki búið að æfa vel og þekkir hlaupið vel þegar að þessum tímapunkti er komið. Því má ekki að vera hrella sig á einhverju svona löguðu. En gott er að sneiða fram hjá skyri, súrmat og öðrum þungum mat. Hef það fyrst og fremst í huga að snæða kolvetnaríka máltíð. Hef stundum fengið mér einhvern heimatilbúinn pastarétt með kjúklingi og beikoni. Um morguninn er það svo hafragrautur, ristað brauð og kaffibolli og djús.
Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Nei, en ég gerði það fyrst og tónlist getur verið mjög mótverandi en í dag geri ég það alls ekki. Þegar ég fór í Berlín þá vildi ég fyrst og fremst njóta því þar hleypur maður nánast allan tímann í "human tunnel" sem er mögnuð upplifun sem mætti ekki skemma með annars ágætum HLH-flokknum!
Uppáhaldsorkudrykkur? Epla djús. Ekkert mikið flóknara en það. Teygi mig hins vegar stundum í Powerade eða kaffi eftir hlaup.
Besti matur eftir keppnishlaup? Eftir langt og/eða erfitt hlaup þá finnst mér gott að fá mér kókómjólk og banana. Svo er það bara hefðbundinn matur. Ef ég ætla að gera vel við mig þá er það góð nautasteik.
Brynjar að vinna í því að tæma tankinn í Reykjavíkurmaraþoni. | Hvernig slakar þú á? Ef ég er eitthvað "búinn á því" þá er magnað að fá sér bara eina létta kríu í 10 mín, annars er bara best að sofa á nóttunni. En ég hef prófað Pilates í Jafnvægi í Garðabæ hjá Hrafnhildi vinkonu minni og það var býsna gott, teygjur og slökun. Eini gallinn er að ég átti það til að sofna í slökuninni í lokin. Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Vorin, kannski vegna þess að þá má merkja greinilega breytingu í birtu, veðri og færð. Hins vegar hefur hver árstíð sinn sjarma og það getur bara verið fínn stemmari að fara einn af stað eldsnemma á laugardagsmorgni í janúarbyrjun í kulda og stillu og heyra þegar brakar í snjónum í hverju skrefi. |
Mesta afrek á hlaupabrautinni? Er ekki alltaf gaman þegar maður er að bæta sig (PB)? En þó það sé skemmtilegt má fókusinn ekki vera með of mikið á bætingu og falla svo í ofan í eitthvað streð við sjálfan sig. 2013 tók ég þátt í 10 km hlaupi á Landsmótinu á Selfossi og endaði þar í þriðja sæti. Það var gaman. Smá hégómi en gaman að hafa farið á pall á Landsmóti. Meira að segja Landsmótslagið spilað og allar græjur og er ég þeim tveimur sem voru í stúkunni ævinlega þakklátur fyrir klappið. Voru reyndar báðir starfsmenn mótsins.
Bestu tímar í 5 km/10 km/hálfmaraþoni/maraþoni? Ætli það sé ekki einhvern veginn svona: 18:22@5 km í ÍR hlaupinu 2014, 37:24@10km í Heilsuhlaupi Krabbameinsfélagsins 2015, 1:24:54 í Reykjavíkurmaraþoni 2013 og svo 3:01.01 í Hamborg 2014.
Hleypur þú eftir æfingaáætlun? Já ég geri það í góðu samstarfi við Sigga P.
Hvar hleypur þú helst? Öllu jafna þá er vikan nokkurn veginn svona; Tvö hlaup í Hafnarfirði, tvö í Laugardal og eitt langt þ.e. Hafnarfjörður, Garðabær, Kópavogur og til baka.
Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Úff nú er spurning hvort maður hafi sæmileg tök á íslensku máli? Seigur og sæmilega skjótur ... annars er best að láta öðrum þetta eftir.
Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Öllu jöfnu 60 til 70 km með því að hlaupa fimm sinnum í viku og svo eykst það í sex skipti og lengri vegalengdir t.d. í undirbúningi fyrir maraþon. Æfingar á bilinu 1-1,5 klst.
Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Nei, ekki gert það en það er sjálfsagt eitthvað sem má bæta. Ganga á fjöll, hjóla, jafnvel synda eða lyfta lóðum myndi sjálfsagt ekki gera illt. Hverskonar fjölbreytt hreyfing hlýtur að vera af hinu góða. Var reyndar að koma úr hjólaferð með fjölskyldunni þar sem við lögðum 255 km að baki á fimm dögum. Kannski ekki mikið afrek fyrir okkur hjónin en við erum stolt af börnunum.
Eru sprettir eða interval æfingar í þinni æfingaáætlun? Já tvisvar í viku og svo eitt langt. Inn í það koma tvö til þrjú léttari hlaup (10-12 km) sem eru að mínu mati mikilvægari en margan grunar í þeim tilgangi að losa um erfiða æfingu frá deginum á undan og gera mann frískan fyrir æfingu næsta dags. Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Fyrir utan að hafa gaman af, halda mér í sæmilegu hlaupamagni og frískum þannig að hægt sé að kúpla sig í maraþon án þess að það sé mikið átak.´ Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Er sjálfsagt af gamla skólanum með þessi mál og held einfaldlega utan um þau í Excel, viku fyrir og mánuð fyrir mánuð.
Brynjar svífur áfram í Miðnæturhlaupinu.
Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Já og það er tengdamóðir mín Anna Sigrún Björnsdóttir, enda Íslandsmetshafi í maraþoni kvenna 60 ára+. Eljusöm og ólseig. Þá er lærimeistarinn Siggi P einn af þessum nöglum sem er til fyrirmyndar. Líklega er þó best að svara þessu þannig að þeir eru til fyrirmyndar sem stunda vel sína líkamsrækt á sínum forsendum.
Veifað til ljósmyndara í Heilsuhlaupinu. | Skoðar þú hlaup.is reglulega? Geri það og horfi þá helst til hlaupadagskrárinnar og atburða sem eru framundan, úrslita, frétta af hlaupurum sem hafa verið að hlaupa erlendis og svo eru greinar eins og þessi yfirheyrsla oftar en ekki fróðlegar. Ertu með hugmyndir til að bæta hlaup.is? Kannski hraðareiknivél? Alla vega þarf að framkvæma slíkar vangaveltur á erlendum veitum. Hvað annað, kannski að fá hlaupara, þjálfara eða hlaupara ársins til að gera árið upp við áramót? |
Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum? Já þær eru sjálfsagt nokkrar og líka mörg smá atriðin sem eiga sér stað inn í miðjum hlaupum sem má brosa af enda hlaup íþrótt margra atriða, þó vinur minn Einar á Akureyri skilgreini maraþon sem 10 km hlaup með 32 km upphitun.
Þegar ég var kominn inn á þessa síðustu 10 km í Hamborgarmaraþoninu glitti í líklegan tíma og möguleiki var á að fara undir 3 klst., en fyrir átti ég 3:12:59. Því var ásættanleg bæting í kortunum, en þreytan farin að gera vart við sig. Á sama tíma hugsaði ég með mér; „Bíddu er þetta ekki bara flott og rétt að setja sjálfstýringuna í gang og skila þessu í mark með fínni bætingu. Næsta maraþon má svo fara undir 3 klst". Enda var ljóst að kreista þurfti orku út úr öllu til að ná bætingu í gegn, jafnvel „riska" einhverju, lenda í veseni og missa þannig tökin á tímanum. Gott og vel. Sá síðan Dana (hljóp eiginlega í danska fánanum) og hugsaði; „Bíddu, ef ég ætla fara undir 3 klst þá þarf ég negla þennan." Eftir stutt spjall við sjálfan mig ákvað ég að taka skynsama kostinn og setti á sjálfstýringuna.
Lokatíminn var 3:01:01 og ég sáttur með bætingu upp á um 12 mínútur. Eftir að hafa ráfað við marklínuna að hlaupi loknu rakst ég á þann danska og spurði hann hver lokatíminn hans hefði verið? „Uhhh, ja men det var tre stunder og en sekunde". „Okei," bætti ég við og sagði "det er nú bara det!" og vék mér undan.
Einhvern tímann í 10 km í RM fannst mér tengdapabbi vera á undan og ætlaði engan veginn að láta það gerast. Loksins þegar ég náði kappanum inn í miðju hlaupi kom auðvitað í ljós að þetta var einhver allt annar. Hlaupið hélt áfram og þegar ég var búinn að ná "næsta" var það líka einhver annar og svo koll af kolli allt þar til yfir lauk. Að hlaupinu loknu kom í ljós að ég var á undan allan tímann. Frekar kjánaleg saga en skilaboðin í henni eru kannski þau: Ekki vera að spá í aðra né aðra hluti, hlauptu, njóttu og brostu!
Nú þegar RM 2015 nálgast sjáum við miklar safnanir í gangi í góðgerðarmálum og frábært starf í kringum þær. Það er ekki öllum gefið að búa yfir þeirri gæfu og getu að öðlast gott líkamlegt ástand. Að geta stokkið af stað og hlaupið eða stundað hvers konar hreyfingu er gæfa. Að vera þeirrar gæfu aðnjótandi að geta hreyft sig hvar og hvenær sem er og geta haldið sér í slíku standi, lít ég ekki bara á sem lífsstíl heldur lífsgæði! Fyrir það þakka ég fyrir með því að muna að njóta og brosa!