Íngvar nýkrýndur Íslandsmeistari í 10 km hlaupi 2015. | Ingvar Hjartarson, hlaupara úr Fjölni, þarf vart að kynna fyrir lesendum hlaup.is. Hann er einn allra sterkasti hlaupari landsins, árangurinn talar sínu máli. Vorið hefur verið Ingvari einstaklega gjöfult, hann hefur hrósað sigri í hverju hlaupinu á fætur öðru, hann tryggði sér Íslandsmeistaratitil í 10 km hlaupi með sigri í Stjörnuhlaupinu í byrjun maí, sömuleiðis sigraði hann í Icelandairhlaupinu auk þess að bera sigur úr býtum í hálfmaraþoni í Vormaraþoni Félags maraþonhlaupara. Ekki ónýt uppskera það! Lesendur hlaup.is fá tækifæri til að kynnast Ingvari betur í yfirheyrslunni hér að neðan. |
Fullt nafn: Ingvar Hjartarson.
Aldur: 20 ára.
Heimabær: Reykjavík.
Fjölskylda: Móðir, faðir, tvær systur og kærasta.
Hvenær byrjaðir þú að hlaupa? Haustið 2010, á svipuðum tíma og ég byrjaði í Kvennó.
Uppáhalds vegalengd sem þú hleypur? Hálft maraþon, þá fær maður tækifæri til að líða vel í hlaupinu.
Uppáhaldshlaup, innan- og utanlands? Fjölnishlaupið verður alltaf uppáhaldshlaupið mitt innanlands, vegna þess að ég þekki alla starfsmennina og þetta er minn „heimavöllur". Einnig á ég minn besta tíma í 10 km hlaupi á þessari braut. Skemmtilegasta hlaup sem ég hef tekið þátt í erlendis er HM í hálfmaraþoni. Það er eina hlaupið sem ég hef farið í þar sem áhorfendur eru við brautina alla leiðina og stemmingin í kringum hlaupið var alveg mögnuð. Einnig er alltaf gaman að keppa í Evrópubikar landsliða því þar eru allir saman í liði og stemmingin mögnuð. Uppáhalds hlaupafatnaður? Adidas. | Þrjú góð; Ingvar, Siggi P. og Arndís Ýr. |
Hvar er skemmtilegast að hlaupa? Á malarstígum inni í skógi, t.d. Heiðmörk eða fyrir ofan Reynisvatn.
Hvenær sólarhrings er best að hlaupa? Seinni partinn, eftir skóla og fyrir kvöldmat.
Hvernig hlaupaskó áttu? Adidas Ultraboost, Supernova Gilde ofl.
Hvað er ómissandi á hlaupaæfingu? Félagsskapurinn.
Hvað er skemmtilegast að gera á æfingu? Að taka vel á því og finna í hversu góðu formi maður er.
Í loftköstum í Víðavangshlaupi ÍR árið 2014. | Uppáhaldsbúnaður tengdur hlaupum? Hlaupaúr. Hlaup sem þig dreymir um að taka þátt í? HM í hálfmaraþoni, vegna veikinda gat ég ekki klárað hlaupið þegar ég tók þátt í fyrra. Hvað finnst þér best að borða kvöldið og morguninn fyrir keppnishlaup? Kvöldið fyrir borða ég það sem mamma eldar daginn áður, hef ekki ennþá komið mér upp hefð varðandi kvöldmat. Fyrir keppnishlaup borða ég yfirleitt ristað brauð, flatkökur eða kornabeyglur. |
Hleypur þú með tónlist í eyrunum? Nei, hef aldrei fílað það.
Uppáhaldsorkudrykkur? Pass.
Besti matur eftir keppnishlaup? Kókómjólk beint eftir hlaup en grillkjöt um kvöldið.
Mesta afrek á hlaupabrautinni? Íslandsmet í 3.000m (8:38)
Á hvaða árstíma er skemmtilegast að hlaupa? Sumrin, þá getur maður fækkað fötum.
Bestu tímar í 5 km/10 Km/hálfmaraþoni/maraþoni? 5 km - Um 15:04 þar sem hringatalning klikkaði. 10 km - 32:00. 21,1 km - 1:12:42. Maraþon - pass.
Hvernig slakar þú á? Í heita pottinum. Hvar hleypur þú helst? Grafarvoginum. Lýstu þér sem hlaupara í einni setningu? Ég get verið virkilega þrjóskur... Hvað hleypur þú mikið í hverri viku? Undanfarið hálft ár hef ég verið að hlaupa c.a. 20-30km á viku sökum meiðsla. Stundar þú aðra líkamsrækt en hlaup? Já. Ég hef verið að færa mig stöðugt meira í þríþrautina, sund og hjól, ásamt því að vera mikið í ræktinni. | Kári Steinn afhendir Ingvari sigurlaunin í Víðavangshlaupi ÍR 2014. |
Hvernig interval-sprettæfingar eru í þinni æfingaáætlun um þessar mundir? Brekkusprettir eða á malarstígum í Laugardalnum.
Hver eru markmið þín til lengri og skemmri tíma þegar kemur að hlaupum? Markmið næsta sumars (2016) er að komast á pall á NM U23 í 5.000m. Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að hlaupum? Ég á margar fyrirmyndir en enga sem ég held meira upp á frekar en aðra. Skráir þú niður æfingar þínar, ef svo er með hvaða hætti? Ég var inn á hlaup.com þangað til hún hrundi. Síðan þá hef ég haldið mína eigin dagbók (handskrifaða). Skoðar þú hlaup.is reglulega? Já
Það leynir sér ekki að Ingvar er gífurlegar metnaðarfullur hlaupari.
Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hlaupunum? Miðnæturhlaupið 2011 er mér alltaf minnisstætt en þá var gamla hlaupaleiðin ennþá í notkun. Þá var Þórólfur að ná mér þegar við hlupum meðfram Suðurlandsbrautinni og þá var allt gefið í botn niður Reykjaveginn. Við komum alveg samtaka í mark. Fengum skráðan sama byssutíma og flögutíma upp á sekúndubrot, þetta er eina hlaupið sem ég hef farið í þar sem keppendur eru dæmdir jafnir.
Einnig man ég alltaf eftir Fjölnishlaupinu 2011 þegar ég fékk mér pylsur fyrir keppni. Flestir hefðu haldið að það myndi enda með ósköpum, en ég bætti mig um mínútu fyrir hverja pylsu sem að ég át. Við skulum ekkert tala um hversu margar þær voru. Ég hef samt ekki reynt þetta aftur...